Pönksafn Íslands

8 Sep

steinthor-og-gunnthor-gantast-vid-midasolu-kopavogsbios
Í gamla daga vorum við stundum að gantast með það strákarnir að í framtíðinni yrði það sem við vorum að gera og pæla í sett á safn. Ekki það að við værum svona sjálfsöryggir að halda að það sem við værum að gera væri svona merkilegt að það myndi enda á safni, heldur fannst okkur hugmyndin fáránleg og fjarlæg. Söfn væru bara fyrir „æðri listir“. Samt fabúleruðum við um þetta, og tókum „Maður er nefndur“-viðtöl við hvorn annan.

Nú hefur tímans tannhjól hjakkast fram um 35 ár og PÖNKSAFN ÍSLANDS / THE ICELANDIC PUNK MUSEUM er að verða að veruleika. Og það á svalasta stað sem hægt er að hugsa sér, gamla Núllinu (konumegin), Bankastræti 0 (ætli þetta sé eina húsnúmer landsins sem er núll?). Almenningssalernin voru tekin í notkun í ársbyrjun 1930, sama dag og Hótel Borg opnaði 19. janúar. Það var mikill sperringur í landsmönnum þetta ár. Þetta var Alþingishátíðarárið mikla. Kóngurinn var á leiðinni til að vera á Þingvöllum til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Þetta var einskonar 2007 fortíðar, allt á fullu, uppgangur, Ríkisútvarpið opnaði sama ár og aldrei höfðu komið út jafn margar plötur og 1930.

Maður meig á Núllinu, en skeit aldrei, enda kostaði það. Karl í bláum sloppi seldi smávöru og rukkaði fyrir lyklavöld að klósettinu. Hann seldi smokka, rifflaða og smurða og til í aksjón. Sem kom náttúrlega aldrei, svo smokkapakkinn lá ónotaður í vasanum á meðan maður sullaði í sig landa og kók.

Almenningsklósettin voru aflögð 2006 og hafa grotnað niður síðan. Karlasettið er allt í messi eins og sjá mátti í innslagi Jóhanns Kolbeins í sjónvarpsfréttum í gær. Kvennarýmið er miklu skárra, þar var haldin einhver listasýning fyrir nokkru. Múltimógullinn og meistarinn Guðfinnur Sölvi Karlsson (Finni í Dr. Spock) skrifaði undir leigusamning við borgina í síðustu viku svo nú er allt farið á hvínandi fullt við að gera safnið. Það þýðir ekkert helvítis hangs svo við stefnum á að opna í Airwaves vikunni með tilheyrandi offvenjúdagskrá og almennum stuðheitum.

Safnið verður svo troðið og æðislegt að það mun þurfa minnst fimm ferðir í að taka það allt inn. Við köllum það Pönksafn Íslands þótt hreinræktað pönk hafi nú bara verið lítill hluti af þeirri íslensku rokkbylgju sem nefnd hefur verið Rokk í Reykjavík tíminn. „Pönk“ er ekki bara hröð og reið tónlist, heldur líka attitjúd: beinskipt framkoma sem er ekki dúðuð í bómul meðvirkni; að segja hlutina eins og þeir eru; að ganga beint til verks án viðkvæmni. Málið er ekki hvað maður getur, heldur hvað maður gerir – stríðsöskur Einars Arnar er enn í fullu gildi.

Pönktímabilið hér byrjar 1978 með heimsókn The Stranglers og aðeins áður, með heimsókn hálf íslensku/þýsku Grund-bræðranna í hinu frábæra pönkbandið The Big Balls & Great White Idiot. Nýlistagengið Halló og heilasletturnar list-pönk-flippaði á Kjarnvalsstöðum um sumarið, en Fræbbblarnir hrelltu skólameistara MK á Myrkramessu MK í nóvember 1978. Fræbbblarnir héldu ótrauðir áfram 1979, létu diskólið púa á sig sem upphitunaratriði fyrir kóverbönd en voru engu að síður vissir í sinni pönksök. Annað band fór að spila með þeim, Snillingarnir. Þar voru innanborðs strákar frá Akureyri, Árni Daníel og Steinþór, sem höfðu flutt í bæinn eftir algjöra pönkniðurlægingu fyrir norðan. Báðir áttu eftir að verða þátttakendur í pönkinu mikla, Árni í Taugadeildinni og Q4U, en Steinþór gekk í Fræbbblanna og var alltaf langpönkaðastur þeirra á bassanum.

Fræbbblarnir héldu stundum pönktónleika í Kópavogsbíó og um páskana 1980 var blásið í enn eitt giggið. Þar komu Utangarðsmenn fram og voru óþekkt band. Fólk missti beinlínis andann þegar Bubbi, Pollock-bræður, Rúnar og Magnús brustu á með rokkið sitt. Þetta var svo sannfærandi að það varð ekki aftur snúið. Ári síðar var Bubbi Morthens orðinn stærsta rokkstjarna landsins og allt popplandslagið var á hvolfi. Fullt af nýjum æðislegum böndum hafði skotið upp og Friðrik Þór og félagar voru í óða önn að filma herlegheitin. Það er mín skoðun að 1981 sé frjóasta ár íslenskrar popp og rokksögu. Ekki það að almenningur hafi keypt þetta stöff í hrönnum, jafnvel Bubbi seldi helmingi minna en Haraldur í Skrýplalandi, eins og Steinar Berg upplýsti á dögunum.

Þið þekkið svo framhaldið. Kukl, Sykurmolar, Smekkleysa, Ham, Björk sóló, Sigur Rós, Of Monsters and Men, múm, Airwaves – Íslensk tónlist er þekkt stærð í alþjóðlegu samhengi. Við getum alveg logið því að okkur sjálfum og öðrum að The Big Balls & The White Idiot sé upphafið af þessu öllu – en sannleikurinn er auðvitað að allt vellur fram mann fram af manni, hljómsveit fram af hljómsveit. „Við erum tími,“ eins og pöknhljómsveitin The Pop Group söng svo eftirminnilega.

Hér er svo tilkynning: Ef þú átt eitthvað sem tengist „pönki“ áranna 1978-1992 hafðu þá samband. Við leitum að munum og myndum. Hundaól Sigga pönk? Plaggöt. Dreifimiðar. Myndir úr partíum. Myndir af vettvangi. Gamalt jötungrip í brúnum bréfpoka. Gamall landi í 1L kókglerflösku. Hárband frá Jonee Jonee. Því meira því betra.

Djöfull verður þetta safn mikil snilld. 

(Mynd að ofan: Steinþór Sigurðsson og Gunnþór Sigurðsson gantast við miðasölu Kópavogsbíós 1980. Myndina tók Birgir Baldursson)

  

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: