White Saturday

28 Nóv

20151128_061806
Svona virkar þetta: Í fyrra voru bara örfáir með „Black Friday“. Í ár voru allir og hundurinn þeirra með „Black Friday“. Ég fór með Dagbjarti í Kringluna til að gera góð kaup. Hann hafði brotið upp sparibaukinn sinn til að kaupa jólagjafir. Svo var þetta eintómt fúsk og frat. Enginn með almennilegt „Black Friday“ tilboð. Í Ameríku eru almennilegir afslættir, a.m.k. 50%, en hér nota kaupmenn þennan hortitt til að plata kúnnana og pranga út einhverju drasli. Aumingja drengurinn æstist upp þegar við sáum í anddyri Útilífs skilti sem á stóð 40%. Við héldum eðlilega að nú væri 40% afsláttur af öllu í búðinni. Þegar að skiltinu kom stóð með litlum stöfum neðst: „40% afsláttur af öllum svörtum úlpum“ – vantaði bara „af öllum svörtum úlpum með bilaðan rennilás“. Gif mí a foxing breik eins og kellingin sagði. Í Nettó var „Black Friday“ af sviðahausum. Er verið að kidda mann? Íslenskir kaupmenn geta troðið þessum „Black Friday“ upp í neðri hringvöðvann á sér. Þeir kunna þetta ekki. Sláið 50% af draslinu ykkar og ég skal ónáða mig yfir ykkur aftur.

Heimkaup má þó eiga það að þar var kjöt á beinunum. Þar keypti ég LIFUN LP á 2.490 kr, sem er fínt verð á meistaraverkinu.

Svo er ég orðinn drepleiður á heilarýru gjammi bókaútgefanda. Þeir gjamma bara nógu mikið og vona að einhverjir aular falli fyrir gjamminu. „Blabla Jónsson er stórfenglegur rithöfundur“, „Stórfengleg bók, Politiken (um allt aðra bók en sá sem er verið að selja)“. Gagnrýnendur Kiljunnar og Egill mega ekki opna á sér trantinn nema það sé komið í sándbæt í næstu auglýsingu: „Unaðslestur! (Egill Helgason)“, „Mér vöknaði um augun (Kolbrún Bergþórsdóttir)“ – Maður er bara alveg orðinn myglaður yfir því hvað þetta eru allt lélegar bókauglýsingar.

Bókaútgefendum er svo sem vorkun. Það eru hundruðir bóka að reyna að olnboga sig í jólapakkana og að því virðist er eina leiðin að gjamma bara utan í kaupendum eins og púðluhundar með standpínu, þessar örfáu vikur sem atið stendur.

Ég er búinn að lesa GERIL eftir Bibba í Skálmöld – „Ef Skálmöld væri bók þá væri hún Gerill“, ÖLL MÍN BESTU ÁR – „Frábær ljósmyndabók þar sem stuð og tíðarandi fyrri ára birtist ljóslifandi“, BÍTLARNIR TELJA Í eftir Mark Lewisohn – „Besta Bítlabók sem skrifuð hefur verið! og ÚTLAGA Jóns Gnarrs – „Frábær bók, las hana eins og þyrstur maður í eyðimörk sem kemur að vin“.

Næst í röðinni eru svo Syndari Ólafs Gunnarssonar, Týnd í paradís Mikaels Torfasonar, Naut Stefáns Mána, Sögumaður Braga Ólafssonar, Stríðsár Páls Baldvins, Egils saga Egils Ólafssonar og Páls Valssonar, Á Æðruleysinu eftir KK og Sjóveikur í Munchen eftir Hallgrím Helgason. Þessi listi stenst ekki Bechtel-prófið, só sorrí konur. Það myndi hjálpa mikið til að fá sándbæt frá besta bloggi landsins ef útgefendur sendu mér eintak af bókunum. Ég segi svona, bara hugmynd.

Í dag verður unaðslegur dagur. Það er búið að snjóa jafn mikið og í gær, svo það er bókstaflega allt í kafi. Í kvöld á ég miða á ÞETTA ER GRÍN, ÁN DJÓKS í sjálfri Eldborg Hörpu. Ég held að það sé algjör snilld því annars væri ég ekki að fara. Ef þú átt ekki miða skaltu fá þér hann strax.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: