Hljómar hitta Bítil

26 Nóv

Fólk hefur mikið komið að máli við mig. Ekki til að hvetja mig til forsetaframboðs (enda myndi ég ekki nenna að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni) heldur til að spyrja hvort fyrstu fimm þættirnir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS komi út fyrir jólin á dvd. Málið var skoðað og niðurstaðan er NEI. Hins vegar erum við nú sveittir að búa til SJÖ þætti í viðbót sem á að byrja að sýna á Rúv í mars. Þegar upp er staðið verða því komnir TÓLF þættir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS og poppsagan frá landnámi til okkar dags vandlega innrömmuð á TÓLF klukktímum! Og það sem betra er: Það eru allar líkur á að heildarpakkinn verði gefinn út á dvd í einhvers konar „vönduðum pakka“, sem verður auðvitað „jólagjöfin í ár“ 2016.

Kannski fylgir „aukaefni“ í pakkanum – enda heill haugur á „klippigólfinu“ eftir blóðugan niðurskurð. Þetta er ekkert dútl. Við hittum um 200 manns. Stilltum upp myndavél, töluðum við viðfangið í 1-4 tíma (suma risapoppara þurfti að tala við í tveimur sessjónum) og svo er þetta mikla efni skorið niður í sándbæt og smásögur og jafnvel dæmi um að það væri ekki einu sinni notað neitt af spjallinu vegna þess að það bætti engu við flæðið. Hrikalega blóðugt. En við erum þá allavega með 200 poppara skjalfesta og ætli þetta efni endi ekki bara á Landsbókasafninu komandi kynslóðum til notkunar.

Allavega, á „klippigólfinu“ er allskonar snilld, sem ekki passaði í flæðið og inn í þá 12 klukkutíma sem við höfðum til að segja söguna. Meðal þess er sagan af því þegar Hljómar hittu Bítil.

Árið er 1967, ágúst. Svavar Gests ætlar að gera LP plötu með Hljómum og sendir þá til London til að taka upp, enda engin almennileg aðstaða á Íslandi til plötugerðar. Strákarnir telja í, gera 12 laga plötu á einhverjum 16 tímum í Chapell Recording Stúdíós með Tony Russell. Útkoman er fyrsta „alvöru“ rokk/popp-LP plata Íslandssögunnar, fyrsta LP plata Hljóma (nú fáanleg aftur á vinýl þökk sé Senu). Í ferðinni spókuðu strákarnir sig um í London. Funheitt nýstyrni, Jimi Hendrix, er með tónleika í Saville Theatre á Shaftsbury Avenue. Eigindi tónleikastaðarins er sjálfur Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna. Tvö gigg eru með Jimi þann 27. ágúst. Þetta er eftirsótt gigg, fáir miðar eftir. Hljómar fá einn miða á fyrri tónleikana, en þrjá á þá seinni. Gunni Þórðar fer á fyrra giggið og gapir á Jimi leika listir sínar. Hinir fóru aldrei á seinna giggið vegna þess að því var aflýst. Brian Epstein hafði nefnilega étið of mikið af dópi og svefntöflum og stimplað sig út (líklega fyrir slysni, frekar en af ásetningi). Bömmer!

Í London fóru Hljómar „all in“ í Bítlamenningunni. London var svo sem ekkert ný fyrir þeim, þeir höfðu komið hérna oft áður, m.a. þegar þeir tóku upp lögin á Umbarumbamba 2 árum áður. Aðal pleisið er Bag O’Nails í Soho. Þarna hanga poppararnir. Þarna kynntist Paul McCartney Lindu sinni. Jimi Hendrix, Keith Moon og Reg Presley kannski í góðum gír á mánudegi, fullt af skvísum í mínípilsum. Bjór á barnum. Glaumbær hvað?

Erlingur Björnsson og Engilbert Jensen eru að fá sér. Kannski að ræða bömmerinn yfir því að missa af Jimi Hendrix. Það eru fullt af frægum poppurum þarna, en Hljómadrengir fljúga inn, enda partur af geiminu. Þeir kippa sér ekki upp við frægu popparana, hnippa kannski í hvorn annan þegar trommarinn í Animals gengur í salinn. En þegar sjálfur Paul McCartney birtist með dömu upp á arminn (Lindu?) og eitthvað fylgdarlið þá rjátlast kúlið af Erlingi og Engilbert. Þeir nálgast básinn þar sem goðið situr og kasta vingjarnlegri kveðju á bassaleikara Bítlanna. Hann er þó eins og afundinn hundur og með tóma stæla við sveitamennina, flissar kannski og segir eitthvað snappí við vini sína, sem flissa líka. Erlingur og Engilbert eins og illa gerðir hlutir við bás-endann.

Gítarleikari Hljóma, Erlingur Björnsson, er ljúfur og einlægur gaur. Hann er nýorðinn 23 ára og kann ekki við svona stæla í goðinu. Hann reiðist ekki heldur tekur einlæga svipinn. Segir bassaleikara Bítlanna að þeir séu nú bara aðdáendur Bítlanna og meðlimir í besta og frægasta Bítlabandinu á Íslandi og að það sé nú leiðinlegt að fá svona móttökur.

Hann Palli minn er líka góður gaur og það hreinlega sviptist af honum töffheitin og hrokinn undir ræðu Erlings. Hann verður allt annar maður, biður Hljóma afsökunar og segir rössum í básnum að færa sig svo víkingarnir fái sæti. Erlingur og Engilbert sitja við hlið Pauls McCartney, sem spjallar um daginn og veginn, spyr út í Hljóma og segir að Bítlarnir séu að taka upp efni fyrir Magical Mystery Tour og hvort strákarnir vilji ekki kíkja í stúdíóið á Abbey Road? Hripar niður símanúmerið í stúdíóinu og segir þeim endilega að mæta bara daginn eftir.

Af því varð því miður ekki því Hljómarnir áttu bókað flug heim daginn eftir. Maður hefði breytt flugmiða fyrri minna, en það voru aðrir tímar og erfiðara að breyta flugmiðum. En Erlingur á miðann góða og er búinn að ramma hann inn:

12295216_10205042009186747_330223714_o

Ps. Meistari Mark Lewisohn áritar meistaraverk sitt Bítlarnir telja í í Eymundsson, Skólavörðustíg kl. 17 í dag, fimmtudag.

 

 

Eitt svar til “Hljómar hitta Bítil”

  1. Stefán Halldórsson nóvember 26, 2015 kl. 1:28 e.h. #

    Neðst á miðanum sést nafnið Bramwell. Þar er líklega átt við Tony Bramwell sem var vinur Bítlanna frá Liverpool og náinn aðstoðarmaður þeirra um langt skeið, m.a. í Apple-fyrirtækinu eftir að hljómsveitin hætti. Tony Bramwell var sérstakur gestur á skemmtuninni Vettvangur ungu kynslóðarinnar í Austurbæjarbíói í apríl 1969 og fór lofsamlegum orðum um hljómsveitirnar sem þar léku. Meðal þeirra voru Hljómar. Frá þeirri skemmtun og Tony Bramwell segir í bókinni Öll mín bestu ár, sem Dr. Gunni fjallaði um hér á síðunni fyrir skömmu.
    Þess má jafnframt geta að Tony var „Íslandsvinur“ í tvennum skilningi, því að hann réð íslenska stúlku til au-pair starfa á heimili sínu nokkru síðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: