Airwaves er best!

9 Nóv

Ljómandi góðri Airwaves hátíð er lokið. Þetta var mikið stuð. Að vanda var ég í miðasölunni. Að því tilefni birtist viðtal í Fréttablaðinu um helgina:

drgunni-mida-fbl

Ég komst ekki á gigg fyrr en á fimmtudagskvöld. Sá fyrst eiturþétta Kimono offvenue á Bar 11. Þau eru að klára nýja plötu sem kemur út á næsta ári hjá Theory of Whatever Records. Útgáfan, sem er hugarfóstur Íslandssinnans Byrans Riebeeks hefur þegar gefið út frábæran safndisk, Iceland Whatever Vol. 1, með 14 íslenskum atriðum. Fæst í Lucky og Smekkleysu.

Næst vafraði ég í Hörpu og kíkti á milli Mercury Rev og Ghostigital. Mikið stuð á báðum stöðum. Mercury Rev þó full bassalegir og hægir, en Einar Örn og Curver í brjáluðu stuði. The Pop Group er band sem maður klóraði sér í hausnum yfir í gamla daga og fílaði og fílaði ekki á víxl. Settið þeirra var frábært, bæði gamalt og nýtt efni. Gaman að sjá þessa gömlu karla enn að hafa gaman að þessu. Söngvarinn Mark Stewart er mikið legend. Risastór og algjör gleðipinni. Hann sló um sig með flippi og gríni á bakvið þar sem ég náði þessari einstöku mynd af honum og Ghostigital. Eitthvað segir mér að þeir eigi eftir að leiða saman rollur sínar síðar.
2015-11-05 23.58.57

Á föstudeginum bar helst til tíðinda gigg Ariels Pinks. Ég kastaði á hann kveðju á förnum vegi. Lítill og taugaveiklaður gaur en almennilegur. Bandið þrusuflott en menn kannski búnir að mökka sig aðeins um of svo giggið var súrt með löngum fríkát-köflum. Gaman að heyra slagarana en kannski aðeins minna gaman að heyra fríkátin sem vildu teyjast á langinn. Á undan sá ég frábært leynigigg Reykjavík! á Kaffibarnum. Ef þessir strákar væru núna um tvítugt væri þetta heitasta bandið í bænum. Sá Grísalappalísu sem er náttúrlega eitt af bestu böndum landsins. Þeir voru funheitir og spiluðu sjálfan sig, Megas og Stuðmenn. Drullugaman. Kíkti líka á TUSK í Kaldalóni. TUSK er spunagrúppa algjörra fagmanna – Pálma Gunn, Bigga Baldurs, Edda Lár og Kjartans Valdemarssonar – og maður sekkur í mók undir spunanum. Fyrsta plata TUSK er komin út og inniheldur fjögur spunaverk. 

Á laugardaginn stóð ég sjálfur í ströngu. Hljómsveitin Dr. Gunni veitti smá pönki inn í offvenue Kaffi Vest. Kona í Vesturbænum bað okkur um að lækka (við vorum samt ógeðslega lágir) því hún væri með börn. Við hugsuðum um börnin og renndum í Prumpulagið en lækkuðum þó ekki neitt.

kælanmiklaaaa
Kælan mikla var á undan okkur í Gamla bíói. Þær eru alkomnar í kuldarokkið og Sólveig hætt að tromma. Eitt af bestu böndunum í dag og væri gaman að fara að fá plötu.

Við vorum með bakkdropp videó eins og fínir menn. Settið byrjaði á því að Steinunn Dj Flugvél kom og við tókum Gúmmíönd, sem verður megahitt í janúar næstkomandi.

dj-flugvc3a9lar-og-dr-gunni
(Mynd Glatkistan) Svo varða bara keyrsla og stuð og gaman gaman. Næsta gigg á Græna hattinum á Akureyri 27. nóvember með Sólstöfum!

Nú hafði ég lokið störfum og vildi hella mig. Reyndi ég hellun með löglegum vímugjöfum en varð ekkert almennilega hellaður. Ég er kannski kominn með einhvern stálmaga? Dvaldi á Gauknum og sá glitta í The OBGMs og Bo Ningen. Þetta virtist svakastuð og margir voru gríðarlega hrifnir af síhærðu Japönunum í Bo Ningen, en fyrir vanhellaðan mig var þetta bara eitthvað meh. Endaði svo á sveittu reifi á Húrra þar sem frændi Kanye, Kane West frá Englandi bjó til gott skak. Úti fyrir heimtaði einhver smástelpa að kyssa mig á munninn á meðan vinkona hennar tók myndir. Ég er að segja frá þessu til að koma í veg fyrir alvarlegar ásakanir seinna meir. Maður sem sagðist eiga 63 milljónir í bankahólfi eftir áratugalangt smygl vildi fá mig til að þvo eitthvað af þessu fyrir sig, en ég benti honum bara á að tala við einhvern kvikmyndagerðarmann. Snéri mér svo fimlega undan og labbaði heim.

Í gær, sunnudag, sá ég Tveggja turna hjal, sýningu þeirra Curvers og Einars Arnar, í gallerí Listamenn á Skúlagötu. Mjög fínt. Ég lýsi því hér með formlega yfir að ég mun opna mína fyrstu málverkasýningu á næstu Airwaves, 2016.

Nennti ekki meiru og var sofnaður klukkan 8 í gærkvöldi. Takk Airwaves! Þú ert best!

3 svör to “Airwaves er best!”

 1. Óskar P. Einarsson nóvember 9, 2015 kl. 10:04 f.h. #

  Misstirðu af Sleaford Mods? Uss,uss,uss…

  • drgunni nóvember 10, 2015 kl. 3:31 f.h. #

   Mér var sagt að það hefði verið drasl.

 2. xxx nóvember 24, 2015 kl. 9:36 f.h. #

  I enjoy, result in I found exactly what I used to be
  taking a look for. You’ve ended my 4 day lengthy hunt!
  God Bless you man. Have a great day. Bye

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: