Fuuullt af músík!

9 Okt

Áfram heldur stuðið á Rúv á sunnudaginn þegar þriðji þáttur POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS verður sýndur. Nú rennum við inn í alheimsbyltingu Bítlanna og íslensku útgáfu þeirrar byltingar. Við fjöllum náið um uppgang og útbreiðslu Hljóma, sem segja má að sé fyrsta „nútíma“ hljómsveit Íslands: Hljómsveit sem semur sín eigin lög og gefur út mun meira efni en áður hafði tíðkast. Að sjálfssögðu er fjallað um aðra samtímamenn, m.a. birt áður óséð myndskeið af Dátum að spila á mikilli Húsafellshátíð 1967. Geðveikt stuð! Hér er kitla:

Og texti um þáttinn: 

Þriðji þáttur – Það vantar ekkert nema Bítilbleyjur
Eftir að Elvis fór í herinn urðu ungir sætir strákar sem hétu Bobby hitt og þetta allsráðandi í poppinu. The Shadows með Cliff Richard í fararbroddi nutu líka hylli og íslenskar sveitir stældu goðin. Næsta bylting var þó handan við hornið og brast á með miklu trukki 1963 þegar Bítlarnir frá Liverpool sópuðu nánast öllu sem á undan hafði komið í poppinu út af borðinu.
Eins og jafnaldrar þeirra um allan heim voru íslenskir táningar með á nótunum og fengu bítilæði í umvörpum. Hljómar frá Keflavík voru réttir menn á réttum stað og báru höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar bítlasveitir, ekki síst vegna þess að innanborðs var Gunnar Þórðarson, ungur maður sem gat samið lög. Bítilæðið ágerðist þegar Bítlamyndin A Hard Days Night kom í bíó og þegar The Kinks spiluðu í Reykjavík.
Þegar Hljómar misstu sig í meiktilraunir, bíómyndagerð og tilraunamennsku með djassáhugamanninn Pétur Östlund á bak við trommusettið, seildust aðrar sveitir í veldissprota þeirra, Dátar, Tónar, Óðmenn, Pónik og fleiri. Á sama tíma var þjóðlagapoppið að gera gott mót með Savanna tríóinu. Konur voru ekki sjáanlegar uppi á sviði með bítlaböndunum og ungar söngkonur eins og Þuríður Sigurðardóttir og Anna Vilhjálms héldu sig til hlés með dannaðri hljómsveitum.


Er hér að hlusta á nýju plötuna með John Grant, Grey Tickles, Black Pressure. Verð að segja að hún er helvíti skemmtileg, mörg frábær lög, hljóðheimurinn einhvers staðar á milli síðustu tveggja platna (mjög mikið 80s syntha tölvupopps feel líka) og textarnir gáfulegir og góðir að vanda. Pétur Hallgrímsson og Jakob Smári Magnússon sjá um gítar og bassa, en trommuleikarinn er Budgie sjálfur úr Siouxsie & The Banshees. John spilar með sinfó á Airwaves, sem verður eitthvað.


Í dag fæddist ekki bara Lennon og Yoko kveikir á súlunni heldur kemur út fyrsta sólóplata MR. SILLU. 12 tónar gefa út en platan var tekin upp í Rvk og London með hjálp Mike Lindsay (Tunng / Cheek Mountain Thief). Mr. Silla, eða Sigurlaug Gísladóttir, ætti að vera Íslenskum tónlistarunnendum kunn en hún hefur verið meðlimur í hljómsveitunum múm og Snorri Helgason um áraraðir ásamt því að hafa starfað um lengri eða skemmri tíma með mörgum öðrum hljómsveitum.


Pönkhljómsveitin góðkunna frá Selfossi, ELÍN HELENA, hefur sent frá sér nýtt lag, Ég bara spyr. Sveitin gerði fína plötu í fyrra, Til þeirra er málið varðar, og var með á Snarli 4. Nammi gott.


Staraðáskó-hljómsveitin OYAMA hefur gert staraðáskó-útgáfu af hinu stórkostlega lagi Teits Magnússonar, Vinur vina minna. Hugmyndin er komin frá tísti eftir Björn Teitsson. Menn hafa starað á skó fyrir minna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: