Skrapp til New York í viku

30 Maí

Til að missa ekki vitið er nauðsynlegt að komast úr hinu íslenska naflakuski amk tvisvar á ári. Ég var að snúa frá NYC þar sem ég tók viku frí frá íslensku röfli um ekki neitt. Stimplaði mig út úr blaðrinu og inn í núllstillta heimsborgarsælu. Þetta var alveg frábær ferð og strax á fyrsta degi vorum við komnir til Montclair í New Jersey, sem er ríkt hippahverfi og bauð upp á tónleika með THE B52’s.

THE B52’s er aldrað nýbylgjuband sem tók stuð og 50s b-mynda-lúkkið föstum tökum. Lögin þeirra eru svaka misgóð. Flest á fyrstu plötunni (1979) er æði og svo er sumt á Cosmic Thing (1989) fínt. Annað þar á milli og seinni tíma efni er hálf leiðinlegt. Tónleikarnir urðu því kaflaskiptir en gamla fólkið stóð sig vel. Söngkonurnar Kate og Cathy og Fred söngvari eru í frontinum og mokuðu stuði í salinn af nokkrum krafti þrátt fyrir aldur (elst er Kate Pierson 67 ára, en heldur betur uppálöppuð svo hún lítur ekki deginum eldri en 47). Bandið hafði mikil áhrif á bæði Sykurmolana og Risaeðluna svo það var gaman að sjá þau á seinni hluta ferilsins – fínt partí og stuð.

Við vorum allnokkuð að vafra um í Brooklyn í ferðinni, bæði í Greenpoint og Williamsburg. Heimsóttum mína gömlu vinkonu Hrafnhildi Shoplifter og fengum gríðarlegar trakteringar á pólska veitingarhúsinu Karczma. Um kvöldið fórum við á gigg í Rough Trade þar sem söngkonan SHILPA RAY lék en gamli saxófónjálkurinn JAMES CHANGE hitaði upp með spuna í korter. Notaður er límmiði með kvóti frá Nick Cave á nýjustu plötu Shilpa til að kynna mikilfengleika hennar, en Nick segist þess fullviss að hún verði orðin stórstjarna fyrr en varir. Þetta var ágætt hjá henni. Fín söngkona og svo juðaðist hún á einhverskonar borðharmóníku út í eitt. Bandið þétt og gott. Hér er nýjasta lagið með henni:

Það voru líka pönktónleikar í skemmunni Brooklyn Bazaar, en þetta var síðasta kvöld staðarins því þarna á að opna BMW bílasala. Mikið af nútímapönki í gangi þarna, sáum BIG UPS sem voru góðir og minntu stundum á Fugazi og jafnvel S.H.Draum. Hér er lag með þeim:

Íslandsvinirnir í PERFECT PUSSY spiluðu síðast en það var sándvesen á þeim og rugl svo við yfirgáfum staðinn enda var maður alltaf á síðustu metrunum þarna í ferðinni, dauðþreyttur, syfjaður og slompaður af bjórdrykkju.

2015-05-25 11.59.55
Ferðalangarnir Trausti og Steinn ásamt Kristni Jóni Guðmundssyni flóttamanni í NYC. Þar næst kemur Jason Gross og unnusta hans Robin Cook. Jason þessi rekur músíksíðuna Perfect Sounds Forever sem hefur verið til síðan 1993 og er með elstu músíksíðum alnetsins. Hann tók okkur á asíska fuglabjargið/matsölustaðinn Jing Fong þar sem við gröðkuðum í okkur dim sum.

2015-05-25 21.03.08
Á góðu bíti duttum við á eðalstaðinn Otto’s Shrunken Head sem er rokkabillí kokteilastaður. Fékk mér einn geislavirkan og svo hlustuðum við á lókal rokkband The Thigh Highs.

2015-05-23 16.03.22
Enn meira í Brooklyn og í hina skelfilegu ruslakompu The Thing sem er alræmd. Þar eru hreinlega staflar á stafla ofan af plötum og allt grómtekið og rykfallið svo eina leiðin til að komast yfir pleisið er að gefa sér viku og mæta í ræstigalla með plasthanska og gasgrímu. Mér tókst þó að rótast í gegnum 78 snúninga hrúguna og draga nokkrar plötur í búið, þar á meðan alfyrstu útgáfu Blue Note útgáfunnar frá 1939, tveggja laga plötu með Meade „Lux“ Lewis.

2015-05-27 17.52.34
Fyrir Stein var hápunktur ferðarinnar að sjá söngkonu dönsku hippasveitarinnar The Savage Rose á götu í Williamsburg. Annisette tók okkur fagnandi og stillti sér upp með aðdáandanum.

2015-05-26 22.19.23
Í Barcleys Center, nýlegu íþróttamannvirki, sáum við THE WHO. Á undan rokkuðu JOAN JETT & THE BLACKHEARTS (enduðu á I Love Rock N Roll – hvað annað). The Who voru drulluskemmtilegir og Pete Townshend, sem nýlega varð sjötugur, sagði bransasögur á milli laga og var hress á meðan Roger Daltrey virkaði sem sidekick og var hás á köflum. Bandið renndi sér í allflesta slagarana auk albúmtrakks, m.a. lög af Quardrophenia og Tommy, sem mér finnst ekkert sérlega skemmtileg. Maður var því dottandi á köflum en rumskaði þegar góð lög eins og I Can See For Miles and Baba O’Riley brustu á.

Þetta var þrettánda eða fjórtánda ferðin mín til NYC og alveg jafn frábær og allar hinar. Besta borgin!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: