Addi Rokk og trommuheilinn!

29 Apr

Fegurð69016
Hér má sjá Adda Rokk að rokka með þennan forláta Futurama-gítar (líklega rauðan) og trommuheila, þann fyrsta á Íslandi. Myndin var tekin á fyrra kvöldi Fegurðarsamkeppni Íslands í Austurbæjarbíói þriðjudaginn 29. apríl 1969 (fyrir nákvæmlega 46 árum síðan), en sjálf krýningin fór fram í Klúbbnum miðvikudagskvöldið 30. apríl og var María Baldursdóttir, söngkona Heiðursmanna og unnusta Rúnars Júlíussonar valin fegurðardrottning Íslands 1969. Ég veit ekki hvað fótafagra fegurðardísin heitir.

Myndina tók Moggaljósmyndarinn Kristinn Benediktsson (1948-2012), en nú er í vinnslu ljósmyndabók sem ber nafnið „Öll mín bestu ár“ og kemur út í byrjun október 2015. Þar verða á annað þúsund myndir Kristins úr skemmtanalífinu 1966-1979 og vega þar þyngst myndir frá dansleikjum, tónleikum og fegurðarsamkeppnum, auk mynda frá útihátíðum og fjölbreyttra mynda af hljómsveitum og listamönnum sem teknar voru til kynningar. Ritstjóri bókarinnar og höfundur ítarlegra skýringar- og myndatexta er Stefán Halldórsson sem var samstarfsmaður Kristins og skrifaði um popptónlist í Morgunblaðið í 10 ár (1967-1977). Þess má geta svo ættfræðinni sé haldið til haga að Stefán er pabbi Hildar Kristínar í Rökkurró.

Þetta verður án efa frábær bók, sem manni er strax farið að hlakka til að handleika.

Addi Rokk (Arnþór Kristinn Jóhannes Jónsson, fæddur 1933) var einn rokkaðasti töffari fortíðar. Um hann skrifaði ég í bókinni Eru ekki allir í stuði?

Of mikill rokkari fyrir manntal
Arnþór Jónsson gekk (og gengur) ekki undir öðru nafni en Addi Rokk. Hann „tók“ rokkið jafn létt og að anda, kom oft upp á svið hjá hljómsveitum og söng nokkur lög með mjaðmasveiflum og stælum sem fáir léku eftir, og spilaði á gítar eftir eigin forskrift. Hann varð frægur á einni nóttu þegar löggan tók hann fastann eftir gigg á Búðinni 1962. Þá var hann að fara heim til sín með gítarinn á öxlinni og magnarann í hendinni, en löggunni fannst kauði dularfullur, læsti hann inni og spurði ítrekað alla nóttina hvar hann hafði stolið þessu. Ekki var það Adda í hag að hann var það villtur rokkari að hann hafði einhvern veginn dottið út úr þjóðskránni. Málið leystist daginn eftir þegar Pétur Pétursson, sem hafði Adda á sínum skemmtikraftalager, kom Adda til hjálpar og upplýsti allt saman. Dagblöðin sögðu frá handtökunni og Addi sjálfur skrifaði bréf í Alþýðublaðið og skýrði sína hlið á málinu: „Annars gat ég að sjálfssögðu átt gítarinn þó ég væri ekki í neinu manntali og bauð oft að sýna þeim kvittanir ef þeir vildu aka mér heim svo ég gæti sannað eignarrétt minn. Ég harma að þetta skyldi henda en erfi það ekki við lögreglumennina og er reiðubúinn að leika fyrir þá á gítarinn minn næst, þegar þeir skemmta sér. Þá gætum við t.d. sungið „Í kjallaranum…““

Með heilann úti
Addi hélt sig við gamla rokkið þó bítl skylli á. Hann var stundum með lítil kombó með sér og réð oft bráðunga stráka til að spila með sér. Hann hafði alltaf mikinn aga á sínum mönnum og rak menn samstundis ef hann komst að því að þeir væru að djúsa við spilamennskuna. Addi kom líka fram einn. Eitt sinn fékk Pétur þulur Adda til að rokka fyrir krakkanna í blokkinni sem hann bjó í. „Við vorum svaka spennt,“ segir Jakob Frímann Magnússon, sem var einn af þessum krökkum. „Svo loksins kom Addi; stökk gaurdrullugur út úr bæjarvinnuvörubíl með rauðan gítar og tók villt rokk fyrir okkur krakkana. Þetta var fyrsta reynsla mín af rokki og það var ekki aftur snúið.“
Addi stofnaði m.a. hljómsveitina Jónsbörn sem Halli og Laddi spiluðu í á tímabili. Á hippatímanum kom Addi m.a. fram með Haukum og lék svertingja í Hárinu. Addi lenti í stórslysi á miðjum 8. áratugnum og var vart hugað líf. Hann lenti svo illilega fyrir bíl að höfuðkúpan brotnaði og heilinn lá úti. Adda var tjaslað saman en missti minnið og bragð- og sársaukaskyn. Læknarnir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við hann og tóku því til þess ráðs að setja hann, mann á besta aldri, á elliheimilið á Höfn. Þar var Addi í nokkur ár og náði sér fullkomlega aftur þvert ofan í allar spár.
Þegar Stuðmenn byrjuðu aftur um 1980 mundi Addi eftir þessum renglulega strák, Jakobi, og fór þess á leit að fá að koma fram með bandinu. Síðan hefur hann gert það gott með Stuðmönnum.
Addi skyggði á sjálfan Ringo Starr í Atlavík 1984. „Addi var baksviðs og var að koma sér í stuð fyrir ballið,“ segir Jakob. „Hann var í stígvélum og pungbindi einu fata, en spurði mig áður en hann fór á inn á svið hvernig hárið á honum væri! Svo fór hann alveg á kostum. Kom sér m.a. fyrir á milli tveggja kolla — hælinn á einn koll, hnakkinn á hinn — og svo spennti hann sig þar á milli. Þetta var ekki nóg því hann skipaði Tómasi að standa á löppunum á sér og Þórði að standa á brjóstkassanum. Svona voru þeir á meðan að lagið var spilað.“
Addi Rokk hefur hljóðritað eitt lag með Stuðmönnum (Lóa litla á brún), en nú er í bígerð heil plata. Er það ekki seinna vænna að þessi ævintýramaður komist á disk.

Þetta skrifaði ég árið 2001 en þessi Adda Rokk plata hefur því miður ekki komið út enn. Mér skilst að Addi sé á einhverju gamalmennahæli og ekki í svo miklu stuði þessa dagana, en vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Fyrsti trommuheili landsins þótti nokkuð merkilegur og var fjallað um hann á forsíðu Vísis í nóvember 1967. Hann var kallaður „róbot-trommari“ og helst talið til tekna að hann myndi ekki detta í það!

robottr
(Smelltu til að stækka)

Hér er svo sýnikennsla á Youtube á trommuheila Adda og félaga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: