Tíu sturlaðar staðreyndir um Gunna Þórðar!

8 Apr

Margir meistarar eru sjötugir í ár. Megas í gær, Villi Vill hefði orðið sjötugur þann 11. apríl (heiðrun) hefði hann lifað, Magnús Eiríksson verður sjötugur 25. ágúst, Hörður Torfa 4. sept, Rúnar Júlíusson hefði orðið sjötugur þann 13. apríl (heiðrun) og Gunnar Þórðarson varð sjötugur 4. janúnar sl. og hefur verið heiðraður í bak og fyrir, m.a. á glæsilegum tónleikum í Hörpu. Líkt og með Megas í gær er eiginlega algjör óþarfi að mæra Gunna í löngu máli. Hann er einfaldlega einn aðalgaurinn í íslenska poppinu og fyrsta poppskáld landsins (þ.e.a.s. sá fyrsti sem eitthvað kvað að í nútíma poppi).

En allavega: Hér eru „10 sturlaðar staðreyndir um Gunna Þórðar“.


1. Gunnar hefur komið víða og gert allskonar dót sem fáir þekkja til. Hann spilaði t.d. flautusólóin í Hoppsa Bomm. Sturlað!


2. Gunnar spilaði á Hammond orgel í Kyrrlátt kvöld með Utangarðsmönnum. Sturlað!

270083348006
3. Gunnar reyndi útrás með félögum sínum í Hljómum undir nafninu Thor’s Hammer. Platan Umbarumbamba með 6 lögum úr samnefndri kvikmynd er ein allra dýrasta íslenska platan. Hún hefur selst á Ebay á 250þúsund kall, sem er ágætt því platan var flopp 1966 og seldist ekki neitt. Gaman finnst mér að segja söguna af vinum mínum í Kópavogi sem fundu kassa af plötunni í yfirgefni húsi um árið 1980 og notuðu þær flestar sem skotskífur. Sturlað!

umb
4. Ekki hefur sést tangur né tetur af kvikmyndinni Umbarumbamba síðan hún var hér í takmarkaðri sýningu sem aukamynd 1966. Það voru allir á bömmer yfir myndinni, Hljómarnir höfðu lagt mikið fé og tíma í myndina en þegar hún kom var hún bara 16 mínútur og „afspyrnu hallærisleg“ (Rúnar). Leikstjórinn Reynir Oddsson ku eiga myndina í fórum sínum svo kannski ætti að koma þjóðarátaki í gang til að endurheimta þennan heilaga kaleik tón/mynd-bókmenntana. Sturlað!


5. Eftirá-vinsældir Umbarumbamba eru skiljanlegar enda er þetta dúndurstöff á plötunni, algjört pönk síns tíma. Gunnar hafði keypt sér eitt fyrsta fözzbox á Íslandi og var ekkert að spara það. „Hinn gítarleikari Hljóma“, Erlingur Björnsson söng lagið I Don’t Care, sem byrjar þessa fözzzælu. Ég fékk Erling til að syngja lagið á ný með hljómsveit Dr. Gunna í útgáfuteiti vegna Stuð vors lands. Sturlað!


6. Sonur Gunnars. Zakarías, er í frábæru bandi sem heitir Caterpillarmen. Þeir tóku einmitt líka I Don’t Care nýlega í Gunnar Þórðar-keppninni á Rás 2. Slab City er nýjasta lagið með þeim. Sturlað!


7. Gunnar samdi eina diskólagið sem samið hefur verið um Gísla á Uppsölum. Það kom út á plötu sem Gunnar gerði með Pálma Gunnarssyni 1982. Þorsteinn Eggertsson samdi textann. Sturlað!


8. Þegar Gunnar var hvað mest í léttmetinu sirka 1978-1980 (Lummurnar o.s.frv.) vildu sumir meina að hann væri „helsti óvinur íslenskrar tónlistar“. Lummu-plöturnar seldust eins og (já já) og aurinn gerði Gunnari kleift að framkvæma „metnarfyllri“ verkefni eins og tvöföldu sólóplötuna hans 1978 sem „seldist ekki neitt“. Þótt það hafi vantað hittara þar var margt mjög flott, t.d. músík sem Gunnar hafði gert fyrir Blóðrautt sólarlag, sjónvarpsmynd Hrafns Gunnlaugssonar. „Drottningin rokkar“ komst næst því að vera hittari. Gunnar syngur sjálfur eins og svo oft áður og eftir. Fínn söngvari. Sturlað!


9. Gunnar gerði fyrstu sólóplötuna sína 1975 (hún heitir bara „Gunnar Þórðarson“ eða ekki neitt. Þetta er það sama og með Hljóma-plöturnar sem hétu ekki neitt heldur). Þessi plata er flott og skemmtileg, mikil Beach Boys áhrif (Brian Wilson og Burt Bacharach hafa lengi verið uppáhalds hjá Gunnari). Enginn hittari hér og platan seldist ekki vel. Hvorug þessara seventís sólóplatna Gunnars hefur verið sett á CD eða í stafrænt form svo eini möguleikinn til að heyra snilldina er að kaupa vinýlinn notaðan (sem er ekkert svo mikið vesen – fæst pottþétt í Lucky). Magic Moments er eitt af lögunum af 1975 plötunni og þar má glitta í hljóðheim sem sprakk út af krafti aðeins síðar á Vísnaplötunum. Sturlað!


10. Lag Gunnars, „Tilbrigði um fegurð“, var lengi spilað við krýningu fegurðardrottninga (og er kannski enn? Er ennþá verið að velja Ungfrú Ísland?). Lagið kom upprunalega út á plötunni Reykjavíkurflugur í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar 1986. Sturlað!

9 svör to “Tíu sturlaðar staðreyndir um Gunna Þórðar!”

 1. Bjarni Bragi apríl 8, 2015 kl. 7:47 f.h. #

  Smá leiðrétting, það er Gunnar sjálfur sem syngur Drottningin rokkar 😉
  bkv, BB

  • drgunni apríl 8, 2015 kl. 8:24 f.h. #

   Öss – eins gott að það sá þetta enginn!

 2. GSS apríl 8, 2015 kl. 11:27 f.h. #

  Abba söngleikurinn nýtur feikna vinsælda í leikhúsum erlendis og kvikmyndin sló í gegn. Væri ekki þjóðráð að fá Einar Kára eða annan slíkan snilling til þess að semja handrit að söngleik þar sem helstu dægurperlur Gunnars eru í lykilhlutverki?

  • drgunni apríl 8, 2015 kl. 2:24 e.h. #

   Allavega easy money.

   • Steinn Skaptason apríl 8, 2015 kl. 3:17 e.h. #

    Atriði 3. Umbarumbamba plöturnar fundum við sumarið 1978 en ekki árið 1980. Ég kannast ekki við það að við Birgir, Kristinn og Trausti hefðum notað þæessar plötur sem skotskífur, veit ekki hvað þeir Halldór og sigurbjörn gerðu við sín eintök.

    Atriði 9. Lögin Manitoba og Reykjavík voru nokkuð vinsæl á þessari plötu og voru spiluð oft í Ríkisútvarpinu í gamla daga árið 1975. Platan var ekki alveg týnd.

   • drgunni apríl 8, 2015 kl. 6:03 e.h. #

    Sagan er samt betri með skotskífunum 🙂

 3. Steinn Skaptason apríl 8, 2015 kl. 8:02 e.h. #

  Jú, meira rokk í því 🙂

 4. Ari Eldjárn apríl 8, 2015 kl. 11:56 e.h. #

  Mér hefur alltaf líka þótt það sturluð staðreynd að Gunni hafi pródúserað barnaplötuna Eniga Meniga og spilað á flest hljóðfærin!

  • drgunni apríl 9, 2015 kl. 4:15 f.h. #

   Svakalegt run hjá honum á þessum tíma, Eniga Meniga, Vísnaplöturnar, Þú og ég og haugur í viðbót… á einhverjum 3-4 árum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: