Megas @70

7 Apr

Meistari Megas er sjötugur í dag. Einhvern tímann fannst manni sjötugt hræðilega mikið og sá bara fyrir sér gamla karla með staf, en núna, þegar maður sjálfur er að verða fimmtugur, þá er sjötugt bara eitthvað pís of keik. Það er fáránlegt að fara eitthvað að mæra hér Megas fyrir snilli sína, hann er og verður ein af landvættum dægurlagasögunnar: jafn augljós staðreynd og að segja að vatn sé blautt. Í tilefni dagsins ætla ég að kaupa nýju bókina, (Esenis tesenis tera) Viðrini veit ég mig vera, Megas og dauðasyndirnar, sem Óttar Guðmundsson skrifar og Skrudda gefur út. Ég ætla líka að birta þetta viðtal sem ég tók við Megas og var í bókinni Stuð vors lands. Svo ætla ég að smella einhverju góðu á fóninn.

0424-megas2 - mynd Árna Torfason
Megas: 
Ég dansaði. Svo sá ég að heimurinn var ekki þess virði að í honum væri dansað

Töffaraskapur og kaldhæðni fyrirfundust varla í íslenskri dægurtónlist fyrr en Megas mætti fyrir jólin 1972 og smælaði framan í heiminn frá hlandhúsinu við Skólavörðufangelsið. Á plötunni Megas var vissulega „þjóðlagatónlist“, en hún var nokkrum ljósárum frá þeirri léttu og rómantísku tónlist sem Þrjú á palli, Savanna, Ríó og fleiri höfðu verið að fást við. Enginn tók eftir nettum lagasmíðunum og fagmannlegu undirspilinu, allir störðu á textana, sem sérkennileg röddin sönglaði. Mannhelvítið hæddist að Jónasi, Jóni og landnámsmönnunum, og svei mér þá: Ef hann hæddist ekki bara líka að Guði sjálfum. Krakkarnir í Menntaskólunum og Háskólanum, sérstaklega þeir vinstri sinnuðu, tóku manninum opnum örmum og fóru strax að kalla hann Meistara, en kerlingar af báðum kynjum fussuðu og sveiuðu og kjaftasögurnar grasseruðu og gera líklega enn.
En þó Megas hafi komið með töffaraskapinn og kaldhæðnina og fyrstur poppara farið að syngja um eitthvað „að viti“, voru fáir sem fylgdu í spor hans. Íslenskir dægurlagatextar tóku engum stakkaskiptum því Megas var þá, eins og nú, aleinn í heiminum.

Presley og Laxness í steríó
Magnús Þór Jónsson var 27 ára þegar fyrsta platan kom út. Hann átti lög á lager í löngum bunum og hafði gefið út tvær sprittfjölritaðar textabækur með nótum að lögum sem sum komu síðar út á plötum. Elsta lagið á fyrstu plötunni, Gamli sorrí Gráni, hafði hann samið 11 ára gamall, 1956, árið sem Elvis fór að heyrast.
„Ég náði ekki fyrstu lögunum með Presley, en húkkaðist á hann við Don’t be cruel,“ sagði Megas, skömmu eftir aldamótin. „Um líkt leyti var Laxness að lesa Gerplu í útvarpinu og þetta var eins og steríó. Mjög magnað steríó. Ég heyrði Elvis í Kananum, en Laxness í Gufunni. Það hafði komið píanó á heimilið skömmu áður. Frændi minn var að flytja í smærra húsnæði og fékk að geyma píanóið hjá okkur. Ég hafði engan áhuga fyrst, en smitaðist af bróðir mínum sem fór að glamra á það og fékk sér síðar harmóníiku. Ég var í myndlist og út af þessari myndlistarástríðu vissi ég ekki fyrr til en ég kunni að skrifa nótur. Ég beytti öllum trixum til að komast hjá því að búa eitthvað til, prófaði m.a. að semja lög með því að spila nótur á hvolfi, en það gaf ekki góða raun. Ég barði saman lítinn menúett sem Einari bróður fannst skemmtilegur og fór og sýndi kennaranum sínum. Sá hló nú við og sagði að Mozart hefði getað gert svona þegar hann var fimm ára. Mér þótti það nú heldur hól en ekki, enda var ég þetta 11-12 ára og því bara sjö ára munur á okkur Mozart.“
Varstu eitthvað var við fyrstu tilraunir íslendinga til að rokka?
„Á 17. júní sá maður Skapta og Ragga. En þetta kom ekki í skólana, og maður komst ekki inn á neinn stað ellefu ára.“
Ekki einu sinni Gúttó?
„Ég hafði bara ekki áhuga á að fara á staði sem voru ekki með vínveitingar. Það var ekki fyrr en maður var kominn í annan bekk í gaggó að maður fór að lauma sér í „Húsið“, eins og Sjálfsstæðishúsið var kallað. Það var helvíti skemmtilegur staður. Borgin var líka fín og Storkklúbburinn. Manni tókst að laumast inn í skjóli troðnings, en síðar á fölsuðum skólapassa. Árið var þarna orðið 1961 og Elvis kominn úr hernum og orðinn eitthvað lollípopp. Ég snéri baki í poppmúsik um það leiti sem Elvis fór í herinn. Þegar Elvis var ekki til staðar var maður eins og föðurlaus.“
Og þá helltirðu þér út í klassíkina?
„Ja, ég fór þjóðlagaleiðina. Kunningi minn úr barnaskóla gaf mér handhæga stóra nótnabók með safni af klassískum lögum og þessum amerísku Evergreen-lögum eftir menn eins og Stephen Foster.“
Fylgdistu þá eitthvað með Savanna-tríóinu?
„Nei, það var ekki til neinn fónn heima. Og því spilaði ég þetta bara sjálfur upp úr bókinni góðu. En í Kananum var hillbilly þáttur með white-trash kántrí-tónlist, sem mér fannst gaman að. Fyrst af öllu hafði ég heyrt þátt með Hank Williams, sem Svavar Gests sá um. Þá hef ég trúlega verið átta ára því þátturinn var gerður skömmu eftir að Hank dó. Þá kolféll ég algjörlega, en áttaði mig bara ekki á því hvað þetta var. Þarna var guðleg rödd á ferðinni en ég skildi bara ekki hvað var að gerast. Ég fattaði geimið svolítið betur þegar Presley kom. Hank var sá fyrsti, en þar sem ég skyldi ekki þá hvað var að ske varð Presley hærra metinn. Það eina hryggilega við þessi ár var að myndirnar af Presley voru alltaf í svart/hvítu. Maður náði því ekki að bylta fatasmekknum yfir í bleikt og grænt og allar þær múnderingar sem hann var í. Maður hélt bara að þetta væri þessi grámyglulegi karlmannaklæðnaður sem þá viðgengst.“
Klæddirðu þig þá upp í stíl við goðið?
„Já já. Þá var í tísku að vera í of stórum jökkum og að vera í buxum sem voru kallaðar „rokkbuxur“. Ég veit nú ekki hvers vegna, því ég man ekki eftir neinum erlendum rokkara sem lét sjá sig í svoleiðis buxum. Þær voru svartar með hvítum saumi og ég eignaðist slíkar buxur og jakka, sem var reyndar grænn. En hann var of stór, sem var eðlilegt því maður þurfti að geta baðað út öngunum.“
Á dansiböllunum þá?
„Já, ég dansaði. Svo sá ég að heimurinn var ekki þess virði að í honum væri dansað.“

Lífsnauðsynlegar níðvísur
Úr Stephen Foster þróaðist smekkur Megasar yfir í Beethoven, og þegar hann fór í píanónám tók Bach við.
„Ég nennti ekki að ná langt í píanónámi, gat bara ekki hugsað mér að eyða tímanum í að æfa á hljóðfæri,“ segir hann og samdi því bara þess meira sjálfur. „Ég gerði nýja tegund af tónskala sem byggðist á því að ómstríð tónbil leystust upp í ögn minna ómstríð tónbil. Svo voru aldrei tveir taktar í röð í sama taktinum. Ég kallaði þetta „mishljóma samstæður“ og skrifaði kennslubók í þessari aðferðafræði.“
Kom hún út?
„Nei, hún var bara sett í skúffuna eins og svo margar aðrar góðar bækur, en hins vegar naut ég góðs af þessum hugmyndum þegar ég fór að semja tónlist seinna.“
Varstu móttækilegur þegar Bítlarnir komu?
„Nei, ég blés það allt saman af og trúði ekki á þá. Það var ekki fyrr en ’64, held ég, að ég gúdderaði þá. Kunningi minn hætti ekki fyrr en hann var búinn að ná mér á Bítlana, Stóns, Donovan og Dylan. Þegar ég heyrði plötuna Bringing it all back home (frá 1965) sagði ég að það væri útilokað að þessi maður hefði sjálfur samið snefil af þessari músik. Mér fannst Dylan sleiktur poppari, ekki ósvipaður Paul Anka, sem hafði bara verið valin út á útlitið og ég hélt að það væri bara auglýsingaatriði að segja að hann hafi samið allt efnið sjálfur. Ég varð fljótlega að bakka með þetta.“
Þarna fórstu svo aftur að semja lög, er það ekki?
„Jú, en nokkru áður hafði ég reyndar reynt mig við gamla íslenska-skalann og athugað hvort hægt væri að gera eitthvað við hann, sambærilegt við það þegar blúsinn og rokkið spratt af afró-skalanum. Íslenski skalinn er bara svo hægur að eftir endalausar tilraunir við að finna einhverja lausn á því vandamáli varð ég að sætta mig við að taka rokkið eins og það kom fyrir. Ég var síðan í girðingarvinnu austur í Gnúpverjahreppi og var eini Reykvíkingurinn. Sveitarógurinn grasseraði, ég fór ekki varhluta af því að vera málaði fuglinn þarna í sveitinni og sætti eins konar einelti. Ég samdi því níðvísur um vinnufélaga mína af lífsnauðsyn. Þarna var ég farinn að hlusta heilmikið á poppmúsik og heyrði af Donovan og Dylan að allt var leyfilegt. Upp úr 1966 fór ég að semja á gítar, enda komst ég ekki að píanói, og í þessum folk-rock stíl. Allir mínir kunningjar á þessum tíma voru þó að skrifa ljóð eða skáldsögur og maður gerði eitthvað að því líka, en hafði lagasmíðarnar með og var kominn í aðeins aðrar pælingar en í Gamla sorrí Grána.
Þótti þér ófínt á þessum tíma að fylgjast með íslenska poppinu?
„Nei nei, ég fór oft í Glaumbæ til að hlusta á Hljómana. Frá fyrstu tíð fannst mér þeir góðir músiklega séð. Textarnir voru þó ekki mikið fyrir mig, enda fengu þeir gamla karla til að semja þá fyrir sig.“
Steini Eggerts var nú ekkert gamalmenni…
„Nei, en Þorsteinn var bara svo alvörulaus og hugsaði helst um að hespa textunum af á sem stystum tíma. Stundum var hann bright og stundum var hann bullshit. En karlar eins og Ómar og Óli Gaukur voru að semja texta fyrir Hljómana og þeir textar voru í gamla stílnum og pössuðu hreinlega ekki. Á þessum tíma voru erlendir popparar farnir að fjalla um eitthvað sem þeir höfðu áhuga á, Kinks voru til dæmis fljótir að byrja að hæðast að öllu geiminu. Hljómarnir og hin íslensku böndin fylgdust kyrfilega með nýjungum í músik en misstu algjörlega af textunum. Þegar músikin fór að þenjast út í takt við tímana varð hún eins og helíumblaðra sem barnið missir út í geim. Textarnir versnuðu stórlega þegar poppararnir kveiktu loks á perunni að þetta gengi allt út á bróðurkærleika og frið. Þá urðu þeir fyrst vondir. Djöfulli ofsalega vondir.“
Umgengstu þessa bítlastráka eitthvað?
„Nei, ég var í allt öðrum geira. Ég gerði þó heiðarlega tilraun til að komast í grúppu. Var búinn að vinna tvo á mitt band án þess að þeir hefðu heyrt nokkuð eftir mig. Þetta voru Baldur Már Arngrímsson gítarleikari og Björn Björnsson trommari. Þeir voru á þessum tíma að stofna grúppu (líklega Blues Company) með Magnúsi Eiríkssyni og sennilegt er að hann hafi verið þessu mótfallinn. Ég skyldi vel að Magnús vildi ekki hafa annan kokk til að hræra í súpunni.“

Níðst á hinni klassísku menningu
Magnús var að vinna í Lansbankanum í lok 7. áratugarins og til að fela listiðkun sína fyrir öðru bankafólki tók hann upp listamannsnafnið Megas. Það dugði þó ekki til og hann var tilneyddur að hætta, en fékk reyndar þriggja mánuða „biðlaun“.
„Ég var þá farinn að koma fram. Í fyrsta skipti var ég í Norræna húsinu og snéri baki í áhorfendur. Það var til böns af lögum og ég spilaði mikið í heimapartíum. Konan mín var formaður Reykjavíkurdeildar Fylkingarinnar (baráttusamtök sósíalista) svo það var ansi gestkvæmt af fólki að skipuleggja hryðjuverk. Ég samdi örfá pólitísk lög eftir pöntun, en gerði í leiðinni grín að sjálfum mér og fyrirbærinu. Streit pólitískir textar eru það hallærislegasta sem til er og þessir væmnu vísnasöngvar sem komu seinna voru pein for ðe ass ‘n’ ðe íer.“
Og svo fórstu til Noregs og hjólin fóru að rúlla…
„Já, en árið þar á undan var ég reyndar búinn að ganga um í níðþröngum kjól í heilt ár, reykja Kool-sígarettur og skrifa með starandi augu texta sem aldrei ætluðu að enda. Ég fór svo til Noregs 1971 þegar frúin mín fór í nám. Ég ætlaði fyrst að vera heima, en hún sagði þá að sambandið væri búið. Ég elti hana því og skráði mig í háskóla í fag sem heitir „folkeminnevitskab“. Þegar ég áttaði mig á því að þetta væri bókmenntafræði gerðist ég næturvörður. Einhverju sinni kom fólk í heimsókn og konan mín spanaði mig upp í að gefa því test. Eftir testið vildi það endilega fá mig til að syngja á 1. des-hátíð stúdenta í Osló. Þetta fólk var allt rammpóltískt, Trottarar (Trotskístar) eða úr K.S.M.L (Maóistar). Sumt af þessu fólki var úr þeim hópi sem var nýbúið að yfirtaka Kristjaníu en var komið til Osló til að læra. Þó ég væri ekki með neinar pólitískar ábendingar var ég talinn baráttunni hagstæður. Ég söng því eitthvað holl af lögum 1. des og Guðrún Brunborg gekk út. Hún var móðir allra námsmanna í Osló, sveitungi konunnar minnar og við höfðum notið ómælds góðs af hennar störfum. En hún erfði þetta aldrei við mig; gerði sem sé greinarmun á ósómanum sem vall upp úr mér og mér sem eiginmanni námsmanns. Á þessum tíma voru komin mörg lítil sjálfsstæð útgáfufyrirtæki í Skandinavíu. Íslendingarnir þarna vildu gera eins og sú hugmynd kveiknaði að gefa út plötu með mér með félagslegu átaki. Það þurfti þó einkaframtakið til, því þetta hefði ekkert komist áleiðis í því hassmengaða ráðstefnuumhverfi sem ríkti þarna. Steingrímur nokkur Gunnarsson, sem lét þess aldrei ógetið að hann væri íhaldsmaður, hrynti plötugerðinni í framkvæmd. Hinir voru ekki einu sinni búnir að halda fund þegar hann var búinn að útvega hljóðfæraleikara og stúdíó. Þetta voru tveir norskir popparar sem voru hættir poppi og komnir í nám, einn var í tæknifræði en hinn í tannlækningum, og þeir lágu lengi yfir efninu. Svo var flautuleikari sem ég man ekki hvað var að læra. Þau unnu þetta allt í sjálfboðavinnu.“
Þú hefur þá haft úr góðum lagabunka að velja?
„Já og ýmis lög voru prófuð. Sum duttu strax út, sum voru tekin upp en gengu ekki, t.d. Ég á mig sjálf. Platan var tekin upp á 20 tímum, sem mér fannst dálítið mikið fyrir plötu sem var ekki nema um 40 mínútur. Steingrímur náði svo samkomulagi við aðalpressarann í Osló og ég var kominn með test-pressu um það leyti sem ég var að fara frá Noregi, í júní 1972. Svo stóð á að þetta kæmi út, því í fyrstu sendingunni hafði platan þvælst saman við aðra plötu sem hafði sama númer og var eitthvað norskt heimatrúboðspopp. Mér fannst platan heldur hafa breyst þegar ég setti hana á fóninn, bæði rödd og innihald. Það var reynt að fjármagna plötugerðina með því að láta fólk borga fyrirfram og platan var afgreidd í smærri hollum heldur en gengur og gerist. Eftir fyrsta vitlausa hollið, tók sinn tíma að leiðrétta pressunina og platan kom því ekki til landsins fyrr en um haustið.“
Hvernig voru svo viðtökurnar?
„Það komu tveir blaðadómar, báðir mjög neikvæðir. Þeir sem allra verst tóku þó plötunni voru poppararnir. Þeir löptu hver eftir öðrum að ég væri að níðast á hinni klassísku menningu Íslendinga, sem þeir höfðu náttúrlega manna minnst vit á. Steinar Berg var þá verslunarstjóri í Faco og hann er sagður hafa sagt; ef þið viljið eignast þetta djönk verðiði að kaupa það strax því þetta kemur aldrei aftur! Eftir einhverjum kanölum fékkst spilað af test-pressunni í umferðarátaksþætti fyrir Verslunarmannahelgina. Þá fullyrti kynnirinn að þetta væri líklega í fyrsta og síðasta skipti sem spilað yrði af plötunni. Það var alveg rétt því platan var bönnuð í heilu lagi í útvarpinu þegar hún barst loksins til landsins.“

Skothelt eins og venjulega
Þegar hann kom heim frá Noregi fékk Megas vinnu við Reykjavíkurhöfn.
„Ég hélt að þetta væri skrifstofustarf því það var kallað að vera „skrifari“. Mér varð því um og ó þegar ég var leiddur niðrá höfn og átti að klöngrast í lestum og gefa bílum áverkavottorð áður en þeir voru hífðir á land. Ég var með skematíska mynd af bíl í höndunum og átti að krossa við og skrifa útskýringar. Þetta tók smá tíma en karlarnir vildu strax byrja að hífa svo ég var hangandi í bílunum á leiðinni upp. Þessu linnti ekkert; þeir ætluðu greinilega að kýla mig niður svo ég sá mér þann kost vænstan að lesa yfir verkstjóranum þvílíkan ömmu-ríðingar-kafla að hann varð stúmm. Eftir það var enginn bíll hífður upp fyrr en ég var búinn að gefa grænt ljós. Starfið gat verið til sjö eða til tíu, en þegar ég kom heim fór ég að semja. Skifaði feiknin öll af lögum og kom mér upp rútínu. Ég sat heima og skrifaði lög við Passíusálmana þegar konan mín var upp á fæðingardeild að setja frumburðinn í heiminn. Á næstu páskum flutti ég það prógramm í fyrsta skipti í Súm-salnum með bandi skipað ungum menntaskólastrákum. Mig minnir að við höfum kallað okkur Megas og Plastpíslarbandið.“
Mér skylst að margir hafi viljað lemja þig á þessum tíma?
„Nei, nei, ég var ekki laminn, en það voru gerðar aðfarir að mér í rituðu máli. Ég þótti ekki alvarlegur þar sem ég gekk, en hugmyndin um mig var alvarleg. Ég var líka búinn að koma mér út úr öllum klíkum á þessum tíma, var búinn að skandilasera við ýmis tilefni. Mér tókst m.a. að flæma alla út af andófshátíð gegn Listahátíðarfyrirbærinu, sem var haldin í Norræna húsinu og átti að gera gys að snobbinu á Listahátíð. Ég gekk svo fram af þeim sem þar voru að allir gengu út fyrir rest, en fyrstur Árni Johnsen. Ég hafði samið sögu sérstaklega fyrir viðburðinn og fékk Magneu Matthíasdóttur til að lesa hana upp í lólítugerfi með tíkarspena. Þetta var klámsaga og þegar hún var búin byrjaði Magnea á henni aftur og breytti atburðarrásinni, brenglaði orðum og nöfnum, svo að lokum var þetta allt orðið mjög kaótískt. Magnea hafði leyfi til að impróvisera og kallaði því á eftir Árna þegar hann gekk út: „Ef þú þarft að pissa viltu þá ekki bara pissa hérna?“ Það þykir engum gaman að labba út undir slíku svo það varð bið á að fleiri færu. Þá tóku menn sig saman að fóru út í hópum og eftir það tæmdist salurinn fljótt. Fólk safnaðist saman í andyrinu til að hneykslast, en eftir dúk og disk hélt hátíðin áfram. Tveir neituðu að koma fram á eftir mér, en sá þriðji fór upp á svið og sagði að það væri erfitt að koma fram með alvöru list eftir svona nokkuð. Ég var snemma kominn út úr húsi þar sem hús voru til staðar á annað borð.“
Þér tókst nú samt að fá útgefanda fyrir rest.
„Verandi með eina plötu hélt ég að maður hefði aðgang að því að fá útgefanda, en það tók þrjú ár. Ég var með demó, bæði hljómsveitardemó og kassagítardemó, og leyfði mönnum að heyra, en það tók þá ótrúlega langan tíma að stynja nei-inu út úr sér. Ég var dreginn á asnaeyrunum fram og til baka. Meira að segja Hljóma-útgáfan, sem var nýstofnuð, lagði ekki í þetta. Þegar ég var búinn að tala við alla sem ég vissi af var Demant-útgáfan stofnuð og ég frétti að þeir hefðu áhuga. Ég talaði við Ingiberg Þorkelsson og hann vildi gefa út svipaða plötu og fyrstu plötuna. Ég sagði að það væri ekki nútíminn; nú vildi ég gera þá plötu sem stóð til að gera fyrst en var ekki hægt þá vegna fjárskorts. Nú vantaði mig trommur og rafmagnsgítara, allt þetta beisik rokk og ról. Ég vissi lítið hvað var að gerast í rokkinu svo ég bað útgáfuna um að velja handa mér þá músikanta sem voru bæði sæmilega vinsælir og kunnáttusamir. Jón Ólafsson, sem var inni í þessu Demant-dæmi, stakk upp á Júdas og þeir sögðu einum rómi þegar þeir heyrði demóin: Nú, þetta er kántrí! En ég naut Magnúsar Kjartanssonar. Ég gat ekki tjáð hvernig ég vildi hafa hlutina við annan en hann og svo þýddi hann hugmyndir mínar fyrir hljómsveitina.“
Þú varst aldrei þessu vant voða sætur fram á Millilendingu.
„Þetta var flower-power. Ég var farðaður alveg undir drep og vissi varla af mér vegna sjálfmedikasjónar.“
Breyttist viðhorfið eitthvað gagnvart þér í bransanum eftir þessa plötu?
„Það breyttist algjörlega, já. Nú fór gagnrýnin að vera: „Textarnir eru skotheldir eins og venjulega“, og punktur basta.“
Er þá jafnvel hægt að segja að þú hafir „komist inn“ á þessum tíma?
„Inn og inn, sko. Ég hef nú aldrei komist svo innarlega að það hafi ekki verið skammt út aftur. En jú, ég var tekinn inn og settur á einhvern stað þar sem ekki fór mikið fyrir mér. Nema hvað klámritin hömpuðu mér gífurlega, Gamli Nói og Samúel og hvað sem þau hétu, og þar birtist m.a.s. smásaga eftir mig. En gagnrýnin varð vinsamleg upp frá þessu, en alltaf af sömu tegundinni: „Skothelt eins og venjulega“. Ég varð því að vita nokkurn veginn sjálfur hvað ég var að gera, sem er hvort sem er það eina sem eitthvað vit er í.“
Svo kom Fram og aftur blindgötuna.
„Já, það leið ár og þá kom plata sem hefur reynst stoð og stytta geðsjúklinga, sérstaklega þessara manic-depressive, þó ég hannaði hana ekki með það fyrir augum. Platan var svo þung að þyngslin í henni átu upp depressjón geðsjúklingana.“
Þung? Það finnst mér nú ekki.
„Ja, hún er þyngslaleg, það er ekkert glaðlegt efni á henni. Þetta er allt saman höfnun og mislukkun og ekkert gengur upp og allt er ömurlegt.“
Þú varst líka hættur að vera sætur á umslaginu.
„Það varð að velja mynd sem var úr fókus. Þær myndir sem voru skýrar og skarpar þóttu of óhugnanlegar.“
Hvaða spilara varstu með þér þarna?
„Þeir komu úr Hljómsveit Pálma Gunnarssonar og Eik, tveir úr hvorri, og fleira fólk. Nú fór ég rúntinn og hlustaði á hljómsveitirnar. Mér leist best á Lárus og Þorstein úr Eikinni og Sigurð Karlsson trommara. Mér hafði svo lengi dreymt um að vinna með Pálma af því hann er bæði notalegur piltur og góður á hljóðfærið sitt. Söngurinn á þessari plötu var tekinn upp í einni lotu. Jónas R. Jónsson tók upp og þegar ég var búinn að syngja fyrsta lagið þá sagði hann: „Já, þetta var ágætt, en ég vil frekar heyra Megas syngja“. Hann sagði að ég væri kominn á einhverja middle-of-the-road stefnu og örvaði mig til að slá ekkert af. Ég taldi mig ekki vera að slá neitt af, en var í rauninni að því. Var kannski of mikið að hugleiða þá krítík sem ég hafði fengið utan úr bæ um raddbeytinguna. En Jónas vildi ekki heyra á það minnst. Tónlistin var mjög fín undir svo það var allt í lagi að hafa algjörlega hráa rödd ofan á.“

Sumir voru uppfullir af viðbjóði
Megas var kominn á skrið og hélt áfram að dæla út lögum, enda nóg til og stöðugt bættist í sarpinn.
„Það er svo skrýtið að ég hef einhvern veginn alltaf verið á sama punktinum. Á fyrstu plötunni voru bæði glæný lög og eitt frá 1956. Á Millilendingu og Fram og aftur blindgötuna voru aðallega ný lög, en svo voru dregin fram gömul lög á Bleikum náttkjólum, Gamli skrjóðurinn, Orfeus og Evridís og drögin að Við sem heima sitjum #45. Sá texti var köttaður út úr 15 erinda lyfjaupptalningu.“
Ég heyrði einhver staðar að fyrst hafi staðið til að Þokkabót væri með þér á Náttkjólunum.
„Jú, það er eins og mig minnir það þegar þú nefnir það. Ég mætti held ég á æfinu hjá þeim, en það kveiknaði ekkert. Þeir í Spilverkinu kunnu sig vel og voru hvers manns hugljúfi og það var yndislegt að vinna með þeim. Og svo fríkuðu þeir svo skemmtilega út, litu kannski á það þannig að fyrst þeir væru ekki ábyrgir fyrir þessari plötu gætu þeir leyft sér hvað sem er. Platan var upphaflega mun lengri, en þá áttaði útgefandinn sig á því að það var komið talsvert yfir 20-mínútur á hvorri hlið. Kalli Sighvats hafði tengt öll lögin saman með hammondspili og það var allt skorið í burtu, svo og heilt lag, sem búið var að taka upp. Ég ætlaðist til að Jón (Ólafsson) gæfi plötuna út í þessari upprunalegu útgáfu þegar platan var sett á disk, en þá hefði þurft að gera nýjan master og hann sá ekki ástæðu til að sólunda í þann aukakostnað.“
Hvaðan kom pönkið á plötunni?
„Það var alveg sambærilegt við diskóið á Fram og aftur blindgötuna (í laginu Gamla gasstöðin við Hlemm). Það var okkar versjón af diskói, við vorum að gera gys af því. Við vorum ekki beinlínis að gys af pönkinu í Paradísarfuglinum, en til að mynda þá fór Bjólan á trommur í laginu og spilaði riff sem hinir færustu trommarar hafa reynt að ná sem nákvæmlegast eins og hann, sem ekkert kunni. Þetta var eiginlega hið últímeit pönklag því menn voru að gera það sem þeir kunnu ekki. Menn þekktu ekkert til pönktónlistar á þessum tíma, hún var álitin einhver subbuskapur sem var bara til í útlöndum. Ég hafði aðeins heyrt óminn af Sex Pistols og vissi að þetta var afturhvarf til gamla rokksins og það var mér mjög að skapi. Það var líka smá pönk í Við sem heima sitjum #45, þó það væri kannski meira sækadelískt pönk. Ég held að sá texti myndi fara meira í pirrurnar í fólki ef það kæmi út í dag – „Verið fullsæl með ykkar spítt og hass,“ myndi ekki ganga núna.“
En þetta gekk þá?
„Sumir voru náttúrlega uppfullir af viðbjóði. Það var gerð sjónvarpsauglýsing fyrir plötuna sem þótti mikil svívirða, en náði þó að renna í gegn tvisvar áður en þjóðin rak upp öskur. Við Spilverksmenn fengum að finna okkur einhver gerfi og lékum svo af fingrum fram á sviði Iðnó. Þar var verið að sýna Skjaldhamar eftir Jónas Árnason. Skömmu síðar hitti Jónas Spilverkið í Laugardalslauginni og spyr: „Hvernig í ósköpunum datt ykkur í hug að taka þátt í svona ógeðslegu athæfi?“ Auglýsingin byrjaði þannig að ég var að hommast með Agli. Bjólan var með nautshaus, Valgeir var að glamra á gítar í hjálpræðisherskerlingarbúningi og ég var með hóf og prestskraga. Auglýsingunni lauk þannig að ég tók upp sprautu og sprautaði framan í linsuna. Við vorum bara að leika okkur og þetta var bara auglýsing. En það fóru engar forvarnarnefndir í gang, eins og myndi væntanlega gerast í dag.“
Þú varst kannski bara búinn að teygja svona rækilega á þanþoli landans?
„Jú, ég hafði náttúrlega gert Jóhannes Skírara að niðurkoðnuðum dópara einhvers staðar í holu, en ég held að enginn hafi skilið þann texta. Menn skildu nú takmarkað hvað var í gangi svo ég er ekki viss um að það hafi verið eitthvað þanþol sem jókst. Fólk sagði bara: „Það er sama dellan sem kemur út þessari átt og það skiptir ekki máli hversu drastískt það er.“

Gamall og þreyttur, en hress að öðru leiti
Iðunn gaf út Á bleikum náttkjólum og tvær næstu plötur; barnaplötuna Nú er ég klæddur og kominn á ról og tvöföldu tónleikaplötuna, Drög að sjálfsmorði – „eða „DAS“, sem er nafn á methidrín-tegund,“ segir Megas.
„Ég var aldrei sáttur við að platan væri tekin upp á tónleikum og hefði viljað gera hana í stúdíói. En ég varð að kyngja þessari aðferð, því annars hefði hún líklega aldrei komið út. Það var mikið álag á mér enda var þetta allt tekið í einu teiki. Ég hafði enga smugu til að hvílast, lögin buðu ekki upp á það. Þetta voru tvennir tónleikar sama daginn og miðað við álagið á mér var útkoman ágæt.“
Söngstu textana af blöðum?
„Já, ég gat ekki munað þesasa texta fyrir fimmeyring, mundi varla eftir æfingunum. Það er ógjörningur að muna svona langa og samhengislausa texta. Þar sem platan hét Drög að sjálfsmorði miskyldi fólk þetta og hélt að ég hefði kálað mér.“
Hvernig var sú tilfinning að vera dauður?
„Ég var nú lítið var við hana, enda hélt ég mig öndergránd. Kunningi minn sagði að ég yrði að sanna að ég væri ekki dauður og því hélt ég tónleika í Óðali, sem ansi margir komu á. Þessum sögum lægði eftir þá tónleika. Ég tók rosalega vinnutörn á þessu tímabili og skrifaði og skrifaði eins og óður væri þar til ég var svo yfirkeyrður að ég fór í hressingarvist í Reykjardal. Þaðan á Sogn þar sem ég hugsaði málin og ákvað að það væri engin önnur leið en að byrja aftur og á algjörri mínímal-tilvist. Nú gaus upp hjá mér mikill tónlistaráhugi því nýbylgjan hafði skollið á. Ég hafði ekki fylgst mikið með tónlist á 8. áratugnum, fannst hljómsveitir yfirleitt rústa möguleikanum á að gera eitthvað gott og eftirminnilegt með þyngslum og væntingum. Fleygið sökk yfirleitt í kaf áður en það var komið út á rúmsjó.“
Smitaðist þú aldrei af meik-grillunum sem poppararnir gengu með?
„Nei, ég var blessunarlega laus við alla ástríðu í þá átt og gerði það sem mig langaði til að gera; ekki það sem ég hélt að aðrir myndu hampa mér fyrir. En ég tók sem sagt við mér þegar nýbylgjan kom og var í Félagsstofnun, Tjarnarbíói og þar sem eitthvað var að ske og hlustaði mér til mikillar ánægju, gamall og þreyttur, en hress að öðru leiti.“
Svo drógu Morthens-bræður þig í geimið aftur.
„Einmitt. Bubbi hermdi upp á mig loforð. (Fatlafól og Heilræðavísur eftir Megas komu á Fingraförum Bubba 1983.) Svo var Tolli að útskrifast úr myndlistarskólann og hafði fengið það samþykkt að lokaverkefnið væri hljómplata. Hann fékk mig til að vera lukkutröll því hann hafði aldrei í stúdíó komið áður. Annar helmingur plötunnar var bara hann á kassagítar, en hinn var hljómsveit sem síðar var kölluð Íkarus. (Plata Tolla hét The Boys from Chicago og þar átti Megas lagið um Krókódílamanninn.) Það var sama liðið og var síðan á plötunni Rás 5 til 20, og þá var ég bara einn af bandinu. Þessar plötur komu 1983 og 1984, en árið þar á eftir vann ég með Kuklinu og Hitt leikhúsið gaf út heildarkassann. Ég vildi líka gefa út nýja plötu og þá hófst enn eitt streðið að fá einhvern til að gefa hana út. Ég hafði það loksins í gegn að Hitt leikhúsið gaf út Í góðri trú. Það var búið að gera aðra útgáfu af plötunni með helmingnum af Sykurmolunum, sem var mun hrárri plata en sú sem kom síðan út. Þá hafði Tómas Tómasson pródúserað plötuna, of-pródúserað vildu margir meina.“
Og þarna varstu faktískt kominn af stað aftur.
„Það stóð nú ekki til, en á þessum tíma var þetta ísí monní, auðvelt að fá tónleika og ágætlega borgað.“
Hvenær hefur þér fundist þú hafa haft mestan byr í seglunum?
„Ja, við Bubbi fórum að koma fram saman á þessum tíma – ég fyrst og svo hann, eða hvernig sem það var – og það var undanfari þess að drottnandi authoritet samþykkti mig. En ég hafði ekki sérstaklega gott bragð í munninum á meðan þessu stóð. Ég var einhvern veginn bara að halda mér sýnilegum á yfirborði sjávar, í staðinn fyrir að kafa oní undirdjúpin eins og mér langaði til að gera. Ég hafði byr á meðan Loftmyndin var að seljast, en eftir jólin þegar runnið var af fólki, leit það aftan á plötuna og sá að ég hafði aldeilis tekið það í rassgatið. Eftir uppgjörið á Loftmynd, sem seldist í rúmlega 6000 eintökum, gat ég ekki sætt mig við frekara samstarf við Grammið. Byrjendur í hagfræði hefðu hlegið djöfullega ef þeir hefðu séð það uppgjör. Á þessu áttaði ég mig þó ekki fyrr en ég var búinn að spila inn á Höfuðlausnir, sem seldist lítið enda hvarf upplagið og sennilega minnst ofan í kaupendur. Þá kom Bubbi til mín um vorið 1988 með ægilegum bægslagangi og vildi bjarga Gramminu frá gjaldþroti. Áfergjan í Bubba var ögn smitandi svoleiðis að ég tók því þátt í Bláum draumum. Við ætluðum fyrst að gera tólf Fatlafól og rútubílast með þau út og suður, en þá hafði danski hljómborðsleikarinn Kenneth Knudsen verið fenginn í verkefnið og okkur fannst ómögulegt annað en að nýta hann. Svo kom platan og floppaði; seldist ekki nema í 6000 eintökum, en Bubbi var vanur að selja a.m.k. helmingi meira. Þá fékk ég heyra það, að það væri allt mér að kenna og laginu Litlum sætum strákum. Það hafði enginn þorað að segja neitt þegar verið var að taka það lag upp og ég ætlaði fyrst ekki að setja það á plötuna; ætlaði bara að gera gott teik af því og eiga handa vinum og vandamönnum. En þegar ég heyrði útkomuna fannst mér það glæpur gegn mannkyninu að lúra á svona lagi. Þetta er enn eina lagið sem er í kurteislegu banni í útvarpinu af því að barnastofa fór fram á það. Því var haldið fram að öll misnotkun á börnum væri þessu lagi að kenna.“
Og leiðin hefur kannski ekki legið mikið upp eftir þetta?
„Nei, ekki nema að mér hefur fundist þetta verða betra og betra hjá mér. Þetta hefur verið dálítið kosnaðarsamt, en ég meina; hvað leggur maður ekki á sig til að ná árangri? Það er að segja, árangri sem maður mælir út frá sjálfum sér. Venjulegast er leiðin að senda menn á toppinn með hæpi og peningum, en mér hefur reynst happadrýgra að vinna mig hægt og bítandi áfram og leggja mig fram. Vera ekki endilega að pæla í því hvað aðrir vilja heyra heldur hvað manns eigin munnur vill segja.“

Helstu plötur Megasar

1972 Megas
1975 Millilending
1976 Fram og aftur blindgötuna
1977 Á bleikum náttkjólum (með Spilverkinu)
1978 Nú er ég klæddur og kominn á ról
1979 Drög að sjálfsmorði
1986 Í góðri trú
1987 Loftmynd
1988 Höfuðlausnir
1988 Bláir draumar (með Bubba Morthens)
1990 Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella
1992 Þrír blóðdropar
1994 Drög að upprisu (með Nýdönsk)
1996 Til hamingju með fallið
1997 Fláa veröld
2000 Svanasöngur á leiði
2001 Haugbrot
2001 Far þinn veg
2005 Hús datt (með Súkkat)
2007 Frágangur (með Senuþjófunum)
2007 Hold er mold (með Senuþjófunum)
2008 Á morgun („kóverplata“ með Senuþjófunum)
2009 Segðu ekki frá (Með lífsmarki) (tónleikaplata með Senuþjófunum)
2011 (Hugboð um) Vandræði (með Senuþjófunum)
2011 Aðför að lögum
2012 Megas raular lögin sín
2013 Jeppi á fjalli (Megas og Bragi Valdimar Skúlason)

(Mynd af Megasi: Árni Torfason)

Eitt svar to “Megas @70”

  1. Gunnar Davíðsson apríl 7, 2015 kl. 7:56 f.h. #

    Gaman að lesa þetta skemmtilega viðtal á stórafmæli Magnúsar. Svo verður væntanlega líka gaman að lesa bókina, það hefur vantað svoleiðis efni lengi. Plötulistinn er „helstu plötur“ svo það er svosem ekki skrýtið að vanti smá, til dæmis litlu plötuna og tónleikaplöturnar með senuþjófunum „Rangsælis um Ísland“ og „Í bræðslunni“ sem komu út einungis að ég held í rafrænum útgáfum 2009 (eins og „Með lífsmarki á Nasa“).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: