Aðeins meira um sjaldgæfu plötuna

2 Mar

Óhætt er að segja að bloggið hér að neðan um hina fáheyrðu og sjaldgæfu plötu Utangarðsmanna hafa vakið athygli. Málið var tekið upp víða og stundum lögð smá rannsóknarblaðamennska í greinarnar. Ég skilaði plötunni til eiganda síns í Notað og nýtt í morgun og biðu þá tveir eftir að fá að handleika og skoða plötuna. Nokkur tilboð hafa komið, það hæsta upp á 100 þúsund kall.

Mike Pollock og Bubbi kannast lítið sem ekkert við málið og ekki Steinar Berg heldur. Sá sem gleggsta mynd virðist hafa af þessari dularfullu útgáfu er Jónatan Garðarson sem starfaði hjá Steinum á þessum tíma (1981). Hann skrifaði mér skömmu eftir að fréttirnar bárust:

„Málið er ekki alveg eins og Steinar og Bubba minnir. Það var Arnar Hákonarson, sem var með fyrirtækið Islandska Original Produkter, sem hjálpaði okkur hjá Steinum við að skipuleggja spilamennsku Utangarðsmanna í Svíþjóð. Guðmundur (pabbi Kalla Bjarna, sem er skrifað um í þessari Vísis-frétt) gerði slíkt hið sama í Noregi. Arnar var að flytja inn varning frá Íslandi en gaf líka út plötur, þám kvikmynatónlistina Escape from New York. Hann stofnaði Hot Ice útgáfuna í Svíþjóð og gaf út 45RPM á ensku í ágúst 1981. Það var PolyGram sem sá um dreifinguna, sama fyrirtæki og dreifði Þursaplötunum í Svíþjóð og hinum Skandinavíulöndunu. Það átti síðan að gefa út Radioactive með Outsiders og platan var sett í prufupressu. Það bárust eintök hingað til lands til samþykkis og ég fór með eitt eintak í diskótekið í Hollywood, sem fékk smá spilun en síðan ekki söguna meir. Platan kom út í takmörkuðu upplagi í Svíþjóð en þar sem Utangarðsmenn voru hættir var ekki ástæða til að gera neitt fleira. Platan er merkt Hot 1000, semsagt fyrsta stóra platan sem Hot Ice gaf út í Svíþjóð. Guðmundur í Osló kom ekki neitt að þessu máli og er alsaklaus af útgáfupælingum, en Arnar Hákonarson, sem lést allt of ungur, var ofurhuginn sem ætlaði að hjálpa okkur við að gera Utangarðsmenn að stórstjörnubandi í Skandinavíu.“

Jónatan segir að platan hafi komið út í „Mjög takmörkuðu upplagi,“ sem ég leyfi mér að efast um að sé rétt, amk þangað til ég sé eintak af plötunni! Fyrirtæki Arnars Hákonarsonar, Islandska Original Produkter, gaf vissulega út 7-laga EP plötu með Utangarðsmönnum (í sama umslagi og 45 rpm sjá hér)  og útgáfan IOP gaf líka út „Sönn ást“ með Björgvini á ensku á 7″ (sjá hér). Svo er test pressan af As Above (sem ég fann líka í Notað á nýtt) með Þey líka frá Arnari í Svíþjóð, en sú útgáfa leit aldrei dagsins ljós, ekki frekar en Utangarðsmannaplatan Radioactive (þótt Jónatan haldi öðru fram!)

Umræða hefur skapast um málið á facebook-vegg Arnars Eggerts þar sem menn segja það nánast óhugsandi að þessi plata hafi komið út – það hefði þá verið almenn vitneskja um málið, eitthvað um þessa plötu á netinu, eða einhver sem gæti komið með eintak af henni til að taka af allan vafa. Þar til annað kemur í ljós, leyfi ég mér því að fullyrða að eintakið sem dúkkaði upp á Smiðjuveginum er eina eintakið sem til er af plötunni.

Fréttamaðurinn Baldvin Þór Bergsson sem býr í Stokkhólmi fór á vettvang og skrifar á facebook-vegg Arnars Eggerts: „Ég talaði við hann Stefan hjá Nostalgi palatset sem er mikill snillingur. Hann kveikti strax á Utangarðsmönnum en kannast ekkert við Bubba. Nema hvað, hann mundi eftir EP plötunni og hélt greinilega að ég væri að tala um hana. Átti íslensku útgáfuna af Geislavirkir en ekki þá ensku. Varðandi EP plötuna sagði hann að hún væri alls ekki sjaldgæf í Svíþjóð og hann hefði verið með mörg eintök af henni í gegnum tíðina. Þannig að ráðgátan um Radioactive leysist ekki hér.

Smá viðbót. Miðað við hvað hann vissi mikið um Utangarðsmenn, útgáfuna í Svíþjóð og EP plötuna myndi ég gera ráð fyrir að hann þekkti Radioactive ef hún hefði farið í einhverja dreifingu.“

Svona standa málin núna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: