Sarpur | október, 2014

Ný músík hey já

23 Okt

By-Orri-Jónsson_3
Trommarinn Óli Björn – ÓBÓ – sem spilaði sem unglingur með Yukatan og Unun, og gerði sig síðar gildandi með allskonar fólki eins og Sigur Rós og E. Torrini, er nú kominn í sólóið, sem ÓBÓ, og gefur út fyrstu plötuna sína INNHVERFI hjá þýsku Íslandsvinunum hjá Morr í nóvember. ÓBÓ ætlar að spila slatta á Airwaves. Eitt lag er komið á netið, það heitir Rétt eða Rangt:


OyamaBySigridurElla
Í nóv kemur líka fyrsta stóra platan með skóglápsbandinu OYAMA, en „þröng“skífa kom út í fyrra. Það er 12 tónar sem gefa hið 9 laga ljúfmeti út – platan heitir COOLBOY. Í fréttatilkynningu segir m.a.: Hljómsveitin samdi við 12 Tóna á Íslandi og Imperial Records í Japan um útgáfu á plötunni. Coolboy kemur út 20. október í Japan og 3. nóvember á Íslandi, en nú er hægt að forpanta plötuna á vefsíðu 12 Tóna. Coolboy samanstendur af níu nýjum lögum sem tekin voru upp í Sundlauginni og Studio 1. Oyama fengu Pétur Ben inn í ferlið sem pródúser og Coolboy var mixuð af Magnúsi Øder Kristinssyni og masteruð af Glenn Shick. Platan samanstendur af níu lögum sem kynna til sögunnar breyttar áherslur í hljóðheimi sveitarinnar auk þess sem hún er lituð meira af mismunandi tónlistarstíl þeirra mismunandi einstaklinga sem skipa sveitina. Hér má heyra fyrsta lag plötunnar – “Old Snow” – sem gefur tóninn fyrir það sem koma skal:

OYAMA er einmitt með gigg í kvöld á Húrra ásamt BOB (BEWARE OF BOB ný plata væntanleg) og MC Bjór og Bland. Hlustum meira:

Haustlitaferð

22 Okt

Að baki er eðalferð. Flaug til Boston þar sem ég gisti hjá Bryan vini mínum. Á sunnudegi var stíft keyrt í túristapakka. Sigldum út á haf til að vafra um á Georges eyju, fyrrum fangelsis- og geðsjúkrahúss-eyju. Það var stuð.
2014-10-12 14.02.51
Í miðbænum fórum við á Frostbar, túristagildraðan ísbar til að drekka lélegan kokkteil í ískulda í úlpu. Kíktum í eðalbúðina Newbury Comics. Megastuð á matarmarkaði. Svo var þetta bara gott labb um alla borg. Líst vel á Boston. Hafði ekki komið þarna almennilega áður, en svo allri sanngirni sé gætt þá er New York ennþá uppáhaldsborgin mín. Þangað fór ég einmitt næst til að gista á kakkalakkabúllunni Westside YMCA og vafra um borgina. Flóttamaðurinn KJG var auðvitað fastur liður. Átlega séð var Serenipity 3 áhugaverðasti staðurinn. Þar er boðið upp á sjálfsmorðs-skammta af eftirréttum, t.d. þessum sem heitir „Can’t Say No“ Sundae:
2014-10-14 17.51.17
Auk þess að vafra stóreygður um borgina fór ég í heil þrjú skipti í bíó, enda hið ágæta listabíó Lincoln Center við hliðina á kakkalakka-Ymca. Boyhood, nýjasta mynd Richard Linklater er ansi skemmtileg og ferskt að sjá alla eldast um 12 ár (þetta er leikin mynd tekin yfir 12 ára tímabil). Söguþráðurinn kannski ekkert dýpri og inntakið ekkert byltingakenndara en í einhverri sjónvarpsmynd, en samt mjög eftirminnileg ræma (4). The Skeleton Twins með Bill Hader og Kristin Wiig er alveg fín framan af, en mér fannst hún alveg kála sér á síðustu mínútunum í allt-endar-vel blöðruskap (2). Svo fór ég á frönsku myndina La Chambre Bleue (The Blue Room), en svaf svo harkalega að ég er ekki dómbær. Sýndist þetta samt vera alveg fínt.

Aðaltilgangur ferðarinnar var að troða upp á miklum Íslendinga-fögnuði í Connecticut, Iceland Affair. Þetta er algjört sólóatriði Gerri Griswold, sem er gríðarlegur Íslandsnöttari og orkubolti. Íslendinga-dagurinn skiptist í tvennt. Um daginn voru fyrirlestrar í einskonar félagsheimili í Winchester þar sem ég m.a. hélt tölu um sögu ísl. poppsins. Íslenskir hestar og hundar vöfruðu um tún, lopapeysur og bolir voru til sölu og í kjallaranum var hægt að fá pulsur með öllu, hraun, harðfisk og ég veit ekki hvað. Góður var stemmarinn og fyrirlesturinn hitti í mark hjá fullum kofa. Hér erum við Gerri á vettvangi:
10403371_10205010390678115_512268027578152744_n
Um kvöldið var svo gigg í Infinity Hall í Norfolk. Á efnisskránni: Björn Thoroddsen, Lay Low og Agnes, Kristjana Stefáns, Myrra Rós og Júlíus, Snorri Helgason og Svavar Knútur. Troðfullur kofi og allir að spila með öllum. Ekki þótti gott að láta mig sleppa við Prumpulagið svo ég fór upp á svið í uppklappinu og stjörnufans renndi í prump-epík:
10451701_10204437357885336_266462729018045110_n
Nýja England er hreinlega stórfenglegt á þessum tíma árs, haustlitirnir sturlað töff og náttúrufegurð mikil. Á búgarði Gerríar má finna ýmis hress kvikindi, t.d. svínið Abe R Ham, sem stillti sér upp með okkur Snorra Helgasyni.
10698478_10204297738458064_6541423740991253496_n
Frábær ferð!

Í músikk er þetta helst

11 Okt


Spéfuglarnir í Pink Street Boys eru um þessar mundir taldir helsta ógn stöðugleikans í íslenska peppinu. Þeir eru svo góðir að þeir verða (vonandi) aldrei spilaðir á præmtæm. Nýbúnir að skrölta í gegnum Trash From The Boys, heila kassettu hjá Ladyboy Records en strax farnir að hóta næstu plötu. Búnir að gera viddjéo við nýtt lag, Evel Knievel, en það lag verður einmitt að finna á safndisk Erðanúmúsík, Snarl 4, sem kemur út í byrjun nóvember. Það verður sneisagóður safndiskur með eintómu eðalöndergránd efni.

a2831735667_10
Upp úr 1981 var Vonbrigði ein kúlasta njú veif sveitin í bænum. Að mínu mati náðu þeir aldrei alveg að koma kúlinu á plötuna Kakófíníu, fríkuðu of mikið út þegar þeir komust í hljóðver og fóru að hlaða á lögin og stúdíóast full mikið með þau. Læf voru þeir megakúl. Í hráum og lifandi upptökum sem Kjartan Kjartansson gerði með þeim í Hanagali stúdíós náðist ómengaður kjarni Vonbrigða fram og því er það ekki seinna vænna að nú, 1/4 öld síðar, hefur hin spræka Synthadelia Records, gefið út 18 laga skronsterið HANAGAL þar sem 90% landi kaldastríðsnjúveifsins rennur eins og pjúra gull. Fjögur af þessum lögum voru á 7″ EP plötunni með þeim. Ef ég hefði einhvern tímann sniffað lím myndi eflaust sætur límangan bera við vit mín þegar ég hlusta á þessa fögru snilld.

Ekki kaupa mat af Satani

9 Okt

arnalaktos
Nú virðist geysa einskonar andóf í mjólkurkælunum því einhverjum hluta almennings er misboðið. Vörur frá MS og Emmess-ís eru frá satanískum fákeppnisræflum og enginn með snefil af sjálfsvirðingu kaupir af þeim. Í staðinn eru öndergránd merkin Arna, Bíóbú, Kjörís og Kú komin í tísku og fólk snýr öllu við í kælunum til að sparka í helvítis Framsókn og Mjólkurmafíuna.

Fyrst fólk er orðið svona meðvitað er kannski í lagi að hugsa út fyrir landssteinana. Mjólkurmafían er nú kannski bara kósí við hliðina á snarviðbjóðslegum erlendum súperfyrirtækjum eins og Nestlé, Monsanto og Chiquita. Já þegar þú færð þér Chiquita banana ertu óbeint að styðja menn sem ætluðu að kála mannvininum Hugo Chavez.

Það er sem sé vandlifað. Eru skórnir þínir af pyntuðum nautgrip? Lést einhver við vinnslu kaffibollans þíns?

Tja, allavega gott að byrja á að svelta MS en svo er það bara sjálfsþurftarbúskapur og Frú Lauga, æ gess.

lffe6

10 bestu sundlaugarnar

4 Okt

Það er fínt að fara í sund og á Íslandi er fullt af fínum sundlaugum. Ég hef ekki farið í þær allar svo þessi listi er ekki tæmandi. Á Vestfjörðum er fullt af góðum laugum en minna á Austfjörðum. Ég hef farið í margar sundlaugar fyrir austan og engin þeirra var mikið yfir meðallagi. Baðverðir þurfa ekki að koma með heykvíslar heim til mín þótt þeirra laug vanti á listann. Þetta er allt spurning um persónulegan smekk. Hér koma laugarnar: 20090417142441672832sund_m BOLUNGARVÍK Það sem gerir Bolungarvík að topplaug er góður heitur pottur, sauna og hvíldaraðstaða. Rúnturinn er því að sjóða sig í potti, sjóða sig í sauna, leggjast funheitur á legubekkinn, kæla sig og svo allt upp á nýtt nokkrum sinnum. Þá næst alsæla. Sundlaugin sjálf er inni og fín til svamls og nýlega var settur upp vaðpollur. sundlaugin_sudureyri SUÐUREYRI Næs laug, næs pottar og toppurinn er að kaupa ís eða klaka til að sleikja ofan í potti. reykjanes-sundlaug REYKJANES Í ÍSAFJARÐARDJÚPI 50 x 12.5 af mátulega volgu vatni gerir þessa að stærsta heita potti landsins. Stórfenglegt útsýni og góður stemmari. 5910158092_44b5eac0cc_z HOFSÓS Eitt besta dæmið um brauðmolahagfræðina er nýja glæsilega hipp og kúl sundlaugin á Hofsósi. Stórkostlegt útsýni um Skagafjörð. MG_5665 ÞELAMERKURSKÓLI Volg laug, barnvæn mjög, góðir heitir pottar og massanæs filingur. satellite-pool-seljavallalaug SELJAVALLALAUG Þessi er frægasta túrista laug landsins, víðfræg úr auglýsingum. Stórflott í fjallahring og maður þarf að klöngrast upp að henni. 4f757b8a321c3 HVERAGERÐI aka Laugaskarð. Stór og góð í klassískum anda. Pottar næs og gufubað sallafínt. Magnús Scheving er tíður gestur vegna kalda pottins sem er þarna. Nú eru kaldir pottar komnir víðar svo kannski fer heimsóknum Magnúsar fækkandi. Arbaejarlaug ÁRBÆJARLAUG Allt vaðandi í pottum og dóti. Gömul uppáhaldslaug og alltaf klassísk, ekki síst vegna góðrar útiaðstöðu til fataskiptinga. vesturbaejarlaug_001 VESTURBÆJARLAUG Eftir endurbætur og nýja súpertöff potta fer þessi klassík í stjörnuflokk. img_1947 SELTJARNARNES Pottafjöld og saltvatn í laug. Hér er allt sem góðri laug sæmir. Við Íslendingaræflarnir erum kannski þorskhausar á mörgum sviðum en á sundlaugasviðinu erum við best.

Tónleikar og útgáfa

3 Okt

Í kvöld spila ég í fyrsta skipti í Bæjarbíói, Hafnarfirði, til upphits fyrir Prins Póló. Ég hyggst spila sex ára gömul mótmælalög, 25 ára gömul trommuheilahávaðalög, eitt glænýtt lag sem heitir RASSAR Í SPANDEX (það verður á safndiskinum Snarl 4 sem kemur út fyrir Airwaves) og eitthvað svona. Á morgun, laugardag kl. 14, spila ég svo aftur á svokölluðum Ungmennatónleikum og verð þá með svokallað ungmennaprógramm. Ægilega gaman. MIÐASALA!

Já ERÐANÚMÚSÍK er sem sagt að gefa út safndiskinn SNARL 4 – SKÆRT LÚÐAR HLJÓMA fyrir Airwaves. Þetta verður 25-30 laga safndiskur með því allra heitasta og loðnasta í íslensku öndergrándi, pönki og almennilegheitum í dag. Þetta verður fyrsta SNARLið í 23 ár.