Skagafjörður er frábær!

23 Júl

2014-07-21 17.53.27
Við Birgir skruppum til Skagafjarðar. Þar er umhorfs eins og á plötuumslagi með Helga Björns og Reimönnum vindanna, fnæsandi hestar um allar trissur. Þetta sáum við á öðrum degi því á þeim fyrsta sáum við bara þoku. Í brauðmolasundlauginni á Hofsósi sáum við því miður ekki hið fræga útsýni yfir Skagafjörðinn heldur bara þoku. Á Sauðárkróki átum við á Kaffi Krók (ég fékk ágætan skammt af grilluðum kótilettum) og helltum aðeins í okkur á Micro Bar & Bed þar sem Hugleikur er upp um alla veggi og hægt er að kaupa 80 tegundir af bjór, þ.á.m. ýmsar tegundir af
Gæðingi, lókal stöffinu. Svo að sofa í tjaldi.

2014-07-21 10.28.21
Þokan farin um morguninn. Morgunmatur í bakaríinu og svo litið í Verslun H. Júlíussonar þar sem Bjarni Har ræður ríkjum. Búðin  hefur verið starfandi síðan 1919 og þar er stórglæsilega fornlegt innandyra. Tveir lókal meistarar voru á svæðinu, bara til að rabba um daginn og veginn sýndist manni, og var þessi upplifun öll hin stórfenglegasta. Birgi bauðst m.a.s. vinna við að tala ensku við erlenda gesti og ég var næstum búinn að kaupa gúmmískó, en þeir voru bara til í 44.

2014-07-21 15.37.13
Yfirlýst markmið ferðarinnar var að labba á Mælifellshnjúk (1147 m), eitt besta útsýnisfjall landsins að sögn. Leiðin er stikuð og sóttist vel. Á leiðinni fundum við Finn Ingólfsson, sem var að koma niður í ferðahópi. Við gleymdum umsvifalaust að við hötum Finn Ingólfsson og buðum góðan daginn. Birgir hafði á orði hvað hann væri orðinn massaður, líklega til að geta varið sig í eftirköstum hrunsins. Helvítis þokan var lögst á aftur svo við sáum ekki þetta magnaða útsýni, sjö jökla og 70 sýslur eða hvað þetta er, en frábært labb engu að síður.

2014-07-21 18.36.53
Við vorum með lókal skúbb um leynilaug á bakvið foss, Fosslaug, sem var hreinlega unaðsleg. Þetta er svo mikil öndergránd laug að hennar er ekki getið í heitu lauga bókinni sem ég á. Rétt hjá er líka Reykjafoss sem er glæsilegur foss. Grettislaug er víst orðin of kommersíal, búið að byggja við hana og byrjað að selja inn, svo þessi var málið. Átum síðan á Bakkaflöt (Tómatsúpu), en þarna gengur allt út á river rafting, að flengjast niður gráar og straumþungar Jökulsárnar, sem er eitthvað sem ég mun aldrei þora.

2014-07-21 21.43.31
Næst lengst inn í dal til að tékka á Bakkakoti, torfbæ sem pabbi ólst upp á í rafmagns- og þægindaleysi. Þar voru ræturnar vökvaðar og reynt að lífða staðinn við í huganum; fara aftur um 80 ár og ímynda sér krakka á hlaupum og stritandi fólk.

2014-07-21 22.00.15
Rétt hjá rennur Jökulsá vestri. Þar á bakkanum er heit uppspretta þar sem amma og kó þvoði fötin. Það var allt eitthvað svo mikið mál í gamla daga, engin þægindi, en á móti kom að fólk virðist ekki hafa verið að stressa sig neitt á einhverju kjaftæði. Geðlyfjanotkun því minni en nú.

2014-07-21 22.07.18
Gamall Chesterfield sófi er þarna líka og má muna fífil sinn fegurri (þótt fíflarnir í honum hafi reyndar verið mjög fagrir).

Sauðárkrókur og Skagafjörður er alveg hreint frábært stöff (þrátt fyrir hesta og Skagfirðinga (sem voru reyndar allir mjög elskulegir)) og maður er endurnærður og upprifinn eftir þessa fínu ferð.

Eitt svar to “Skagafjörður er frábær!”

  1. Jens Guð júlí 23, 2014 kl. 11:13 e.h. #

    Búðin hans Bjarna Har heitir Verslun H. Júlíussonar, oftast kölluð Halli Júl. Á unglingsárum mínum var engin Vínbúð í Skagafirði. Þá var kíkt til Halla Júl. Þar var líka hægt að kaupa vín útan afgreiðslutíma. Einn fegursti staður Skagafjarðar er Hólar í Hjaltadal. Einkenni hans er hlaðin steinkirkja úr rauðgrjóti Úr Hólabyrðu (með glæsilegri altaristöflu keyptri í Hollandi) og stakur turn úti á túni. Þarna er allt hlaðið sögu. Til að mynda er turninn reistur á leiði síðasta kaþólska biskups yfir Íslandi, Jóns Arasonar (honum var slátrað ásamt haustlömbum eitt árið).

    Ég ólst upp í Hólakirkju og gerði margt sprellið. Fokkaði í kirkjuklukkunum, framkallaði draugagang sem rataði í bandaríska fjölmiðla (óupplýst mál), eyðilagði útvarpsútsendingu frá messu í Hóladómkirkju o.s.frv.

    Rétt innan við Hóla í Hjaltadal er frumstæð útilaug á Reykjum og notalegur náttúrulegur heitipottur, svokölluð biskupslaug.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: