Sá einstaki atburður gerðist á dögunum að bláókunnugur maður (Kristinn Viggóson) færði mér tvær flöskur af súper exótísku gosi. Hann hafði verið á siglingu um Karabíska hafið, pikkað upp tvær flöskur og dröslað þeim í gegnum svaðilfarir sínar alla leið til mín. Ég er svoleiðis gapandi hissa og ánægður með þessa vinsemd. Gosið er frá Sparkle Tropical Magic verksmiðjunni sem gerir út frá eyjunum St. Kitts & Nevis. Þar búa 53.000 manns og eru ábyggilega aldrei að hugsa um skuldaniðurfellingu.
Nú nú. Flöskurnar eru úr plasti og rúma 590 ml af gosi. Fyrst var tékkað á „Cream Soda“. Það smakkaðist eins og vatnsþynnt goslaust Póló. Hitt heitir „Sorrel“ og smakkaðist eins og einhvers konar kirsuberjagos, sætt, eldrautt og freyðandi. Það var mun skárra. Krakkar fengu að smakka og einn sagði að „Sorrel“ væri besta gos sem hann hefði smakkað á æfinni.
Eflaust er þetta mun betra í brakandi blíðviðri í Karabískahafinu. Mér sýnist þó að þeir þarna í St. Kitts & Nevis séu ekkert á leiðinni að hljóta alþjóðlegar viðurkenningar á sviði gosframleiðslu. Cream Soda fær eina stjörnu og Sorrel þrjár, en atvikið sjálft fær auðvitað fimm stjörnur, enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona svimandi exótískt gos.
Færðu inn athugasemd