Fríða frænka verður kaffihús

1 Feb

Hin frábæra antíkverslun Fríða frænka hættir starfssemi í byrjun apríl. Í staðinn opnar kaffihús í þessu gamla húsi við Vesturgötu 3. Sá sami og nú rekur kaffihúsið Stofuna á Ingólfstorgi mun reka nýja kaffihúsið.

Fríða frænka hóf antík-starfssemi í húsinu í apríl 1981 og því verður búðin 33 ára þegar hún hættir. Ég man vel eftir sjónvarpsauglýsingu búðarinnar frá fyrstu árum hennar því slagorðið var mjög pönkað og gott: „Gamalt drasl á okurverði!“

Nú er 30% „útrýmingarafsláttur“ á öllu í Fríðu frænku.  Ég reyni að standa mig í stykkinu sem listaverkasafnari og gerði mjög góð kaup:

freym
Lituð ljósmynd af Ólafsfirði eftir Freymóð Jónsson, aka 12. september, listamann, lagahöfund og bindindismann. Listaverksafn mitt einkennist að nokkru af svokölluðum naive málurum, en einnig „sérhæfi“ ég mig í verkum poppara og Freymóður fellur í þann hóp. Meðal annarra poppara sem ég á verk eftir má nefna Megas og Gylfa Ægisson. Og vantar þá bara Rúnar Þór upp á til að eiga GRM komplett. Myndina eftir Freymóð fékk ég á 700 kr.

dynjandisfoss
Þessi sækadelíska mynd af Dynjandisfossi í Dynjandisá er eftir „B. Þorlákss“. Fékk hana á 3.500 kr. Hef ekki hugmynd um hver „B. Þorkákss“ er, en það er væntanlega einhver minni spámaður en sá frægi Þórarinn B. Þorláksson. Gaman væri að vita ef einhver veit hver „B. Þorlákss“ er!

thingv
Nú hafa verk „naivista“ verið í tísku sl. ár. Næsta tískufaraldur tel ég vera „kitsch“ málverk svokallaðra frístundamálara/alþýðumálara sem máluðu aðallega íslenskt landslag. Myndir þeirra þóttu góðar tækifærisgjafir á síðustu öld og hanga eflaust uppi víða. Ég er ekkert sérlega vel að mér í þessum kitsh meisturum en þeir bera sumir viðurnefni eins og „blankalogn“ og „metramálari“ af því það er alltaf logn í myndunum þeirra eða þeir máluðu myndir í „metratali“.

Helsti meistarinn í þessum bransa er Jóhannes Frímannsson, sem merkti myndirnar sínar einfaldlega “Jóhannes”. Ég á eina gullfallega mynd af Herðubreið eftir Jóhannes og keypti þessa af Þingvöllum í Fríðu sem innflutningsgjöf fyrir vini. Þess vegna gef ég ekki upp verðið en það var hagstætt. Þess má geta að það eru svona 6-8 myndir eftir Jóhannes til í Fríðu frænku núna, bæði málaðar á plötu og striga – frábær fjárfesting til framtíðar, segi ég.
joh-herd
Ég veit eiginlega ekkert um Jóhannes og hef ekkert fundið um hann á netinu nema eitt svar við Spurningu dagsins. Ég væri til í að heyra eitthvað um hann ef einhver veit eitthvað – og eins um aðra í sömdu deild. Hér er költ í uppsiglingu!
945838_10201618891901024_1777004889_n

4 svör to “Fríða frænka verður kaffihús”

  1. Sif Karlsdóttir febrúar 1, 2014 kl. 1:45 e.h. #

    Jóhannes er ömmubróðir minn, uppalinn fyrir austan fjall. Get forvitnast um allskonar ef þú vilt.

  2. Helga R. Einarsdóttir mars 15, 2014 kl. 2:47 e.h. #

    Það má finna fróðleik um mynd eftir Jóhannes, reyndar nærri því þá sömu og þú keyptir, á blogginu mínu…. ammatutte.blog.is . Jóhannes er þjóðsagnapersóna á mínu heimili og ég þekkti reyndar bróður hans, sem bjó hér. kv. HRE

  3. Þengill Ólafsson janúar 10, 2016 kl. 10:51 e.h. #

    Jóhannes Frímannsson var bróðir hans pabba. Mig langar gjarnan að safna myndum eftir hann þó það væri ekki nema ljósmynd af myndunum.

Skildu eftir svar við Sif Karlsdóttir Hætta við svar