Sarpur | janúar, 2014

Forpokaðir frethólkar fortíðar sameinist!

18 Jan

Gamalt fólk eins og ég er margt ægilega mikið að passa sig að verða ekki gamalt fólk sem hnussar yfir uppátækjum ungmenna. Við höfum líka vítin til að varast þau, forpokaða frethólka fortíðar (fff) sem hneyksluðust á djassinum, rokkinu, bítlunum, hippunum, diskóinu, pönkinu, reifinu, jú neim itt. Þess vegna voru framsækin gamalmenni voðalega glöð þegar þetta Vine drasl kom upp, að loksins væri komið fram eitthvað unglingadót sem gamalt fólk væri ekkert inn í. Enginn þorði að láta styggðaryrði falla um vinedraslið af ótta við að vera talinn fff. Kannski er til eitthvað sniðugt vine en ekki hef ég séð það. Og þessi Bieber lúkkalæks sem voru að flækjast hérna eru álíka fyndin og munnþurrkur. Ég mótmæli því harðlega að íslensk unglingafjöld hafi ekki betri húmör en þetta!

Það er algengt í umræðu gamlingja að tala um tæknibreytingar síðustu ára. Mér finnst ég alltaf vera að heyra einhvern segja „já, þetta var náttúrlega allt öðruvísi áður en internetið kom“ og svo er einhverju gamalmennadóti velt upp; faxtækjum, ritvélum og öðru úrsérgengnu drasli. Gamlingjar eru líka duglegir að  tala um þá framþróun í matargerð sem orðið hefur á Íslandi. Það er óhætt að segja að maður man tímana tvenna bæði í því og tækninni. Maður er eins og eldgamla fólkið sem segir oft frá því þegar það fékk epli á jólunum, nema maður rifjar upp þegar maður smakkaði fyrst mexíkóskan mat, indverskan mat, kíví og túnfisk.

Ég les það í pdf Fréttablaðsins (ég er það framsækinn, sjáðu til,  að ég er hættur að fá pappírseintakið sent heim) að Páll Rósinkrans er fertugur í dag. „Það er glatað að eldast“ segir hann í fyrirsögn, sem er fersk hreinskilni því yfirleitt er fólk eitthvað að malda í móinn með þetta og ljúga því að sjálfum sér og öðrum að það sé eitthvað gefandi og eftirsóknarvert að eldast og hrörna. „Mér líður þokkalega. Ég er aðeins farinn að velta fyrir mér dauðanum en ekkert alvarlega. Það er samt frekar glatað að eldast. Ég reyni bara að anda djúpt enda ekkert við þessu að gera,“ bætir Páll við og má taka undir hvert orð. Það sem mér finnst annars „skemmtilegast“ við dauðann er að hann leggst jafnt á alla. Frekar glatað ef ríkt fólk gæti keypt sig frá dauðanum (sem það getur þó etv með betri heilbrigðisþjónustu og stundum í vísindaskáldssögum).

Það er um að gera að heiðra Pál afmælisbarn með eins og einu lagi með Jet Black Joe. Mér fannst bandið ná hátindi sínum á annarri plötunni, hinni tilraunakenndu You Ain’t Here. Textinn á líka vel við á þessum tímamótum.

Ég í Rolling Stone

17 Jan

Ég hef sannast sagna alltaf viljað bera hróður Íslands í rokkinu út fyrir landssteinana. Þegar ég var 19 ára, árið 1984, ljósritaði ég smá hefti á ensku sem hét Gorilla Ice Cream og sendi til útlendinga sem ég var kominn í samband við. Ég hafði nokkru áður fattað hvað „fanzine“ væri og var farinn að panta og skiptast á svona blöðum og tónlist við allskonar lið út um allan heim. Þetta var gríðarlega spennandi og hélt í manni „listrænu“lífi á meðan ekkert heyrðist nema eitthvað eitís sorp á Rás 2 (sorp sem mér finnst nú kannski ekki alveg jafn mikið sorp í víðsýninni í dag) og eiginlega engin bönd hérna voru að gera eitthvað af viti (fannst mér þá). Í Gorilla Ice Cream var fjallað um Oxzmá, Kukl og eitthvað fleira og náttúrlega S.H.Draum. Ég sendi líka svokölluð „scene report“ í pönkblaðið Maxinum Rock n Roll. Hér er ein slík sending frá 1987:
maxrnr1987
Þessari kynningarstarfssemi hefur maður haldið áfram í ýmsum myndum. Bókin BLUE EYED POP – THE HISTORY OF POPULAR MUSIC IN ICELAND, sem er remix af Stuð vors lands á ensku, kom út á síðustu Airwaves. Öðlingurinn David Fricke, senior ritstjóri á Rolling Stone, skrifaði um þessa bók nýlega og ég er vitaskuld gríðarlega ángður með það.
Blue Eyed Pop: The History of Popular Music in Iceland by Dr.Gunni (Sogur) 
When I went to Iceland in 1988 to interview the Sugarcubes, the arctic nation’s first, international rock stars, I quickly found out they were not a Year Zero phenomenon. Iceland had a long history of warping American and British pop to its own, compelling ends. Dr. Gunni, a musician and journalist, goes all the way back to his country’s wax-cylinder days but hits a gripping, detailed stride in his tales of drinking and striving by, among others, Sixties garage-beat pioneers Hljómar, the Cream-like Ödmenn and the Eighties dada-punk band Kukl (with a very young Björk). Blue Eyed Pop, first published in Icelandic in 2012, has no discography, but Dr.Gunni has curated a soundtrack of playlists.

Elvis kemur!

14 Jan

Elvis Presley syngur í Hörpu 24. apríl. Átta manna band leikur undir skjávarpa Kóngsins, bakraddasöngvarar og svaka sjó. Eins og sést hér að ofan í kynningamynd fyrir fyrirbærið eru aðdáendur í skýjunum. Elvis söng annars lítið utan Bandaríkjanna (kannski aldrei?) og var holað niður í Las Vegas síðustu árin af hinum illa Ofursta. Það er því ekki seinna vænna að Kóngurinn sé að koma til Evrópu. Þótt korní sé held ég að þetta sé bara eitthvað sem maður verður að upplifa, í nafni rokksins!

Einu sinni var Elvis glænýr, ferskur og síðast en ekki síst sprelllifandi. Dagblaðið Tíminn var með puttann á púlsinum í október 1956 og sagði frá uppgangi kappans.
presl1
elv2
elv3
elv4
elv5

Ekki fylgir sögunni hver skrifar þetta. Ég myndi giska á Indriða G. Þorsteinsson, sem skrifaði í Tímann á þessum tíma, m.a. mjög skemmtilega um rokktónleika Tony Crombie og félaga tveimur árum síðar.

Lambatittlingur í gapastokki

14 Jan

Egill Helgason skrifar grein um menningarlífið á sunnudaginn. Eins og hann, man ég vel eftir því þegar minna var um að vera í Reykjavík. Þetta er sem betur fer mikið að skána og maður má eiginlega hafa sig allan við í menningarneyslu. Framundan er til dæmis Frönsk kvikmyndahátíð og margt spennandi þar. Stefni á að sjá allavega 3 myndir og má annars hundur heita. 

Það telst til tíðinda að sýnd sé ópera eftir meistara Gunnar Þórðarson. Ragnheiður fer á svið Hörpu í mars, á fullu gasi í þetta sinn, en ekki í tónleikaformi eins og í Skálholti í sumar. Möst sí, myndi ég halda.

IMG_5200
Eintómir snillingar skipa hljómsveitina AdHd: Óskar og Ómar Guðjónssynir, Davíð Þór Jónsson (sem sést hér að ofan, hugsanlega með Róberti Redford) og Magnús Trygvason Eliassen. Hljómsveitin heldur tónleika í Gamla bíói mánudaginn 27. janúar (miðasala). Það voru bara einir tónleikar með þeim í fyrra (á Jazzhátíð Reykjavíkur). Bandið er á Evróputúr núna og lýkur þeirri yfirreið sem sé með þessum tónleikum í Gamla bíói. Skömmu síðar hefjast svo upptökur á fimmtu plötunni.Hvítsálarhljómsveitin Dusty Miller efnir til útgáfutónleika í tilefni útgáfu þeirra fyrstu plötu, Music by Dusty Miller. Platan er komin í allar betri plötubúðir og í sölu á tónlist.is. Þetta er búið að vera ansi löng fæðing og því verður öllu tjaldað til á tónleiknum. Tjarnarbíó 1. feb og miðasala hafin hér.

gapast
(Samsett mynd: Ritstjórn)
Talandi um menningu. Nafnalisti listamannalauna var tilkynntur í gær. Jafnharðan var reistur hinn sívinsæli gapastokkur á DV þar sem óríkisstyrkt alþýðan fékk að henda nokkrum úldnum túmötum í listamennina (aka afætur (eða alætur, eins og einn fundarmanna skrifaði í æsingi sínum)). Þetta gamalkunna glamr er alltaf jafn skemmtilegt og álíka árvisst og þorrinn.

sursadir-tittlingar
Talandi um þorrann. Ég er á báðum áttum með þessa súrsuðu lambatittlinga sem nú er boðið upp á. Þeir eru sagðir vera „skemmtileg nýjung“. Ég er allur fyrir nýjungar í matargerð og hef metnað til að smakka allt. Að slafra í sig lambatittlingum er þó jafnvel of kreisí fyrir minn smekk, sérstaklega þar sem mér sýnist tittlingarnir vera í heilu lagi í pakkanum, en ekki dulbúnir í hlaupi eins og pungarnir. Aldrei að vita samt…

Bretar á balli í Reykjavík 1810

13 Jan

Glögga gestsaugað. Það hefur löngum horft á okkur eyjaskeggja með glögga gestsaugað í pung. Við erum auðvitað viðkvæm fyrir þessu, enda almenn trú að hér í nafla alheimsins búi rjómi jarðarkringlunnar og allt í útlöndum sé glatað frat. Fyrr á öldum var eyjan jafnvel einangraðri en núna og eyjaskeggjar jafnvel enn meiri eyjaskeggjar. Gaman er að glugga í bókina Travels in the island of Iceland during the summer of the year MDCCCX, sem Sir George Stewart Mackenzie skráði. Hér flæktist hann um með læknunum Holland og Bright fyrir rúmlega 200 árum, 1810. Þetta voru náttúrlega snobbaðir yfirstétta-Bretar sem glottu yfir afdalamennskunni hér. Félagarnir skelltu sér á ball í Reykjavík. 
ball1810

Bókin liggur í heild á netinu. Kannski spurning um að lesa bókina áður en Framsóknarflokkurinn fær lögbann á hana?

„Eurovision skiptir engu máli“

12 Jan

Datt inn í ágætan þátt um íslenskunám útlendinga og almennt um útlendinga á Gufunni, Útlensk íslenska. Eins og ítrekað hefur komið í ljós er gestsaugað glöggt. Lokaorð þáttarins, sem koma frá einum viðmælandanum, Jeffrey, eru mjög lýsandi fyrir okkur: „Íslendingar eru alltaf að segja mér að hvað Ísland er mikil paradís. Flottasta land í heimi, fallegustu konurnar, sterkustu mennirnir, hreinasta vatnið og ég veit ekki hvað. En svo spyrja þeir mig: Afhverju komstu hingað?“


„Þetta er bara tsí trallala europopp og við viljum eyða peningunum okkar í eitthvað meira öppskeil“, segir einhver markaðsmaður frá Serbíu í fréttinni hér að ofan (Kryppan vísaði á). Mikil afföll eru nú í Eurovision og hvert landið af öðru dregur sig úr keppni. Það er kreppa og mörgum finnst sirkusinn ekki skipta neinu máli í hinu stærra samhengi. Hugsanlega eru margar austantjaldsþjóðir bara orðnar eitthvað fúlar því sl. 4 ár hafa eintómir vesturlandabelgir unnið, Noregur, Þýskaland, Svíþjóð og Danmörk. Fyndið er að heyra Serbann hér að ofan tala um klíkuskapinn á meðal Norðurlandaþjóða þegar kemur að stigagjöf.

Ísland er sprellfær þrátt fyrir svokallaða kreppu og ætlar enn að reyna að klára það sem við byrjuðum á 1986. Tíu lög hafa verið valin til að bítast um farmiðann til Danmerkur:
eurov14log
Keppnin verður snörp í ár. Tvö undanúrslitakvöld með 5 lögum fara fram 1. og 8. febrúar, og sigurlagið verður svo valið þann 15. Ég hef náttúrlega ekki heyrt neitt af þessu en svona fyrirfram gæti ég trúað því að mér fyndist Pollapönklagið best. Gunna Dís, Ragnheiður Steinunn og Hraðfréttastrákar munu halda uppi stuðinu á meðan snilldin rennur hjá, en síðan mun Felix Bergsson stjórna Alla leið og kynna enn meiri Eurovisionsnilld. Keppnin í Danmörku fer svo fram 6., 8., og 10 maí, þegar nýjasta tromp Evrópu í poppi verður valið. 

 

Glott og Spévísi

11 Jan

Þorsteinn Guðmundsson og konan hans, Elísabet Anna Jónsdóttir, standa að útgáfu tímaritsins GLOTTS. Þetta er svaka gott blað með allskonar skemmtilegu efni eins og dónakrossgátu, auglýsingum og efnisinnihaldslýsingu. Þorsteinn sjálfur skrifar besta viðtal sem ég hef séð við íþróttamann (viðtöl við íþróttafólk eru annars alltaf ömurlega leiðinleg (allavega fyrir fólk sem hefur ekki áhuga á íþróttum)). Grípum niður í viðtalið við Hannes fótboltamarkvörð:
glott-hannes
Meðal annars efnis í Glott 1: Ari Eldjárn skrifar pistilinn Mamma mía, móðir mín; Glott stelpan er á sínum stað; Fyrsti kafli Kristján Gísla og morðið á líkamsræktarstöðinni eftir Halldór 48 ára; Bitin í rassinn eftir Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur; Ég er vitlaus og ég míg á mig, eftir mig.

sspé
Sjálfsprottin Spévísi – Hver ertu í dag?
Hljómsveitin Sjálfsprottin Spévísi hefur gefið út fyrsta diskinn sinn sem er helvíti fínn. Þetta er band frá Akureyri en nú hafa meðlimirnir flutt í bæinn til að meikaða. SSSpé spilar melódískt rokk á íslensku með alveg slatta af popppönkuðu íblöndunarefni. Textaframburður er til fyrirmyndar en samt eru allir textarnir í tvíriti í mjög metnaðarfullum umbúðunum. SSSpé minnir stundum á 200.000 naglbíta og gott ef ekki færeyska pönkbandið 200 líka. Stundum á The Clash og Green Day. Eins og ég segi: Helvíti fínt efni hér á ferð og hana nú!Maggi Eiríks og aðrir ínældir popparar

9 Jan

b3146eceee2454
Vinsælt er að dissa Fálkaorðuna. „Er nú ekki alveg óþarfi að verðlauna fólk fyrir að vinna vinnuna sína,“ segir orðulaus almenningur alveg hundfúll. Búið er að næla á fólk síðan 1921, bæði Íslendinga og útlendinga (aðallega sendiherra). Það má sjá hina ínældu hrúgu á heimasíðu forsetans. Orðurnar eru mismerkilegar,  flestir fá „riddarakross“, en sumir enn merkilegri fá t.d. „Stórkross með keðju“ eða „Stórriddarakross með stjörnu“. Þetta er nú meira helvítis húmbúkkið! (segi ég þar til annað kemur í ljós).

Í seinni tíð hafa popparar byrjað að fá Fálka. Ínældir popparar eru Þórir Baldursson (2013), Ragnhildur Gísladóttir (2012), Björgvin Halldórsson (2011), Helena Eyjólfsdóttir (2010), Ingibjörg Þorbergs (2008), Ólafur Gaukur Þórhallsson (2008), Björn R. Einarsson (2007), Ragnar Bjarnason (2005), Bubbi Morthens (2003), Gunnar Þórðarson (2002), Björk Guðmundsdóttir (1997) og Haukur Morthens (1992).

Eins og sést má í seinni tíð búast við að einn poppari fái Fálka á hverju ári. Sá nýjasti er Magnús Eiríksson sem er að sjálfssögðu gríðarlegur verðugur þess að fá Fálka fyrir „framlag til íslenskrar tónlistar“ eins og það er kallað. Maggi er hvílíkur snillingur eins og allir með hálfa heyrn vita og úr heilabúi hans hafa komið mörg þeirra leiftrandi popplaga sem skilgreina okkur sem Íslendinga.

Löngu áður en Magnús kom með Mannakorn og aðra snilld í framhaldinu um miðja sjöuna, var hann í bítla og ballbandinu Pónik og Einar. Með þeirri sveit komu fyrstu lögin hans út, samtals fimm á tveimur 4-laga 7″ EPum. Þetta er efni sem fáir þekkja og um að gera að bæta úr því.

ponikogeinar

Pónik og Einar – Jón á líkbörunum

Pónik og Einar – Viltu dansa

Pónik og Einar – Herra minn trúr

falkinn-ponik65

Um Pónik og Einar segir svo í bók minni Eru ekki allir í stuði (útg. 2001): Nokkrir ungir menn með Magnús Eiríksson gítarleikara í fararbroddi stofnuðu Pónik árið 1964. Þegar Einar Júlíusson hraktist úr Hljómum, hljómsveitinni sem hann hafði stofnað, bauðst honum að fara yfir í Pónik, sem varð góð lyftistöng fyrir alla. Meðlimir Pónik voru um tvítugt en Einar aðeins eldri. Þó meðlimirnir væru í fastri vinnu spilaði hljómsveitin mikið á böllum, mjög oft í Keflavík, þó flestir meðlimanna væru búsettir í Reykjavík. Sveitin hitaði upp hjá Brian Poole & The Tremeloes og ávann sér slíkar vinsældir árið 1965 að hún hafnaði í öðru sæti á eftir Hljómum í vinsældakosningum Fálkans. Sjálfur var Einar var kosinn besti söngvarinn. Í því tilefni ræddi vikuritið við bandið, m.a. um stelpur og aðra æsta aðdáendur.

Fálkinn: Er mikið um það, að aðdáendur ykkar biðji um eiginhandarskrift?
Magnús: Já, ég er nú hræddur um það. Ég hef meira að segja orðið svo frægur að skrifa á magann á einni stelpunni.
Sævar Hjálmarsson: Ja, ég hef nú aldrei komist lengra en að skrifa á handlegginn á þeim.
Úlfar Ágúst Sigmarsson: Hljómsveitarstjórinn verður að hafa forréttindi.
Fálkinn: Hver er mesta kvennagullið í hljómsveitinni?
Úlfar: Það er Sævar. Dömurnar fá næstum því aðsvif, þegar hann sendir þeim sitt töfrandi augnaráð.
Sævar: Þetta er fráleitt. Það er enginn vafi á því að Einar á mestan sjensinn af okkur.
Magnús: Já, Einar er mesta kvennagullið. Þær snarfalla fyrir ómótstæðilegum persónutöfrum hans, að maður tali nú ekki um spékoppana.
Fálkinn: Hafið þið þurft á lögregluvernd að halda vegna óláta á dansstað?
Sævar: Það var eitt sinn, er við vorum að leika 17. júní í Keflavík, að maður um fimmtugt, vel við skál, æðir upp á hljómsveitarpallinn og sló til Magga, en honum hefur ekki þótt hann árennilegur, því hann snéri sér strax að mér all ófrýnilegur ásýndum. Mér leist nú ekki á blikuna og hörfaði undan, en í því leggur Einar frá sér hljóðnemann og hjólaði í kallinn. Ekki varð þó neitt um meiri háttar slagsmál, því brátt kom lögreglan og dró kauða burtu.

Pónik í London
Pónik var ein af hljómsveitunum sem Jón Lýðsson ætlaði að gefa út þegar hann stofnaði hljómplötuútgáfuna UF hljómplötur (UF = ungt fólk). Jón hafði uppi fremur stórar hugmyndir og sendi Pónik til London í október 1966 til að taka upp átta lög fyrir tvær 7″ plötur. Ferðin stóð yfir í tæplega viku og var mikið ævintýri, enda höfðu tveir meðlimanna ekki komið til útlanda fyrr. Upptakan á öllum lögunum tók rúmlega dagstund. Í Maximum Sound hljóðverinu höfðu Kinks og Paul McCartney verið skömmu áður, en á meðan Pónik tók sér hlé frá upptökum kom hljómsveit frá Vestur Indíum og með henni aragrúi vina og vandamanna. Sveitamennirnir íslensku urðu forviða yfir þessum exótísku menningarstraumum.

Magnús: Þetta var furðuleg samkoma og músikin svo rammfölsk, að annað eins höfðum við ekki heyrt. Varst var þó, hve aumingja fólkið lyktaði ferlega. Kvað svo rammt að því, að Einar gekk með ilmvatnsglas um salinn þveran og endilangan eftir á og úðaði í öll horn.
Magnúsi fannst að auki Carnaby Street „skelfing ómerkileg“ gata og Pónik fann þar engin föt við sitt hæfi. Betra fannst strákunum að versla á Oxford Street. Þeir litu einnig inn á Whiskey A Go Go klúbbinn, en urðu ekki hrifnir, heldur hálf fúlir af því að tónlistin var svo hátt stillt. „Þessi reynsla okkar verður sennilega til þess að við förum að hafa nánara eftirlit með mögnurunum okkar“.
UF kom fyrri smáskífunni út í febrúar 1967. Þrátt fyrir að á plötunni væri íslenskun á vinsælu lagi úr myndinni The Sandpiper, „The Shadow of your smile“, og vafasamt lag eftir Magnús sem var bannað í útvarpinu, „Jón á líkbörunum“, dó platan í fæðingu. Seinni skammturinn kom ekki út fyrr en rúmu ári síðar. Þá hafði Tónaútgáfan á Akureyri keypt útgáfuréttinn af Jóni. Sú plata gekk aðeins betur, enda varð eitt lagið vinsælt, „Léttur í lundu“, sem Karl Hermannsson, sá sem hafði verið örstutt með Hljómum, samdi. Öll hin lögin voru eftir Magnús, sem var hættur í Pónik þegar platan kom út. Hann hafði viljað fara aðrar leiðir en Einar söngvari og aðrir í hljómsveitinni.

Reyndu aftur, ævisaga Magnúsar sem Tómas Hermannsson skrifaði og Sögur útgáfa gaf út árið 2009 er svo best heppnaða ævisaga íslensks poppara sem komið hefur út. Hafirðu ekki lesið hana mæli ég eindregið með því að þú gerir það.

Drullusama Íslendingum

8 Jan

Í gamla daga þorðu menn að segja löndum sínum til syndanna og reyna að hafa vit fyrir þeim. Nú þorir því enginn af ótta við að fá fólk upp á móti sér í kommentakerfum, eða að einhver bendi á móti og spyrji; Nú, ert þú eitthvað betri?

Þórbergur og Laxness voru  alltaf með einhverjar blammeringar og umvandanir, t.d. Laxness í Alþýðubókinni í kaflanum „um þrifnað Íslendinga“. Í dag eru landsmenn orðnir aðeins þrifnari en á þessum tímum sem Þobeggi og Laxi voru að skrifa, en betur má ef duga skal. Hvers lags fávitagangur er það til dæmis að þrífa ekki mannaskítinn eftir sig á almenningsklósettum?

Nú er ég ekki að fara fram á að við tökum Japani okkur til fyrirmyndar í hreinlæti. Þar eru framsæknustu klósett heims og vegna þrengsla leggja Japanir áherslu á lyktarlausan skít með sérstökum pillum. Vilji fólk kúka lyktarlausu getur það til að mynda pantað sér Odafree.

Ég er nú bara að fara fram á að menn (vonandi er ástandið skárra á kvennaklósettum) skilji ekki mannaskít eftir sig út um alla skál. Maður er (ó)hreinlega alltaf að lenda í þessu; að koma á klósett þar sem á móti manni tekur óþrifinn mannaskítur  í skálinni með tilheyrandi óþefi. Hvaða egómanísku górillur eru hér á ferð? Til hvers halda þær að klósettburstinn við hliðina sé?

Versta tilvik sem ég hef lent í var á klósettinu í Krónunni, Lindum. Ég ætlaði í sakleysi mínu að pissa (sjálfur kúka ég aldrei á almenningssalernum) og þurfti að bíða þar til einhver feitlaginn maður kom skömmustulegur út. Það var hreinlega eins og skítasprengja hefði verið sprengd þarna inni, svoleiðis búið að hrauna yfir allt, ekki bara í klósettið heldur upp um alla veggi líka. Ég skil ekki hvernig maðurinn fór að þessu. Ég var nú ekkert að hlaupa á eftir hinum seka heldur hljóp ég blágrænn út og hélt í mér á næsta klósett.

Fyrst ég er byrjaður á þessu get ég bætt við annarri skitu, þeirri að spyrja hvað Íslendingar hafa almennt á móti því að nota stefnuljós. Í umferðinni speglast siðferðisástand þjóðarinnar (sama siðferðisástand og olli hruninu). Miðað við hversu fáir gefa stefnuljós, taka tillit til gangandi og hjólandi, eða bara annarra ökumanna þá er eitt ljóst: Flestum Íslendingum er drullusama um alla nema sjálfa sig.

Eygló Harðardóttir og U2

6 Jan

Ég er glaður að hafa ekki hugmynd um hvaða strákar þetta eru sem trylltu allt í Smáralind í gær. Fínt að krakkar séu að spá í einhverju öðru en gamall fauskur eins og ég. Alltaf smá trist þegar ungir krakkar hlusta bara á Doors og Led Zeppelin, svona eins og ég hefði bara hlustað á Doris Day og Bing Crosby en ekki XTC og PIL þegar ég var 12 ára. Kannski smá leiðinlegt samt að það sé ekki meiri dýpt í þessu Vine-kjaftæði en raun ber vitni.

Interpol og Portishead eru fyrstu böndin sem tilkynnt eru á ATP í ár. Portishead er gott stöff, Interpol minna gott. Svo á eftir að tilkynna um aðalnúmer sunnudagskvöldsins, sem ég held að vera einhver bomba. Það leiðinlega er að ég missi af þessari gæðahátíð í ár því ég verð fyrir austan á annarri gæðahátíð, Eistnaflugi.

Það eiga margar fleiri bombur eftir að falla í ár og ég spái því að nokkur risanúmer muni spila hérna. Afhverju heldur fólk að Bono hafi verið að flækjast hér? Og það er ný U2 plata á leiðinni. Og leggið nú saman 1+1. Ekki það að ég myndi tíma að borga mig inn á U2 enda hef ég aldrei nennt því bandi. Hundleiðinleg hljómsveit – og ég nenni ekki að rífast um það.

Eygló Harðardóttir kynnir í samstarfi við vini sína í Norrænu ráðherranefndinni: The Nordic Playlist. Þetta virðist vera samnorrænt átak til að plögga norrænni músík á alþjóðavísu. Bara hið besta mál. Við erum alltof upptekin af USA og UK þegar við ættum að líta okkur nær. Ásgeir Trausti og Emilíana eru fulltrúar okkar á fyrsta pleilistanum. Mér sýnist að það verði vikulega eitthvað nýtt. Fín leið til að hafa putta á norrænum popppúlsi, þótt þessi fyrsti skammtur hljómi því miður allur eins og bakgrunnspopphjakk í tískubúð í hvaða stórborg sem er. Má biðja um meiri dýpt?

Fór á The Secret Life of Walter Mitty, sem væri nú enn meira óspennandi ef Ísland væri ekki í henni. Frekar slappt stöff bara, ófyndið, langdregið og fyrirsjáanlegt, þótt gaman hafi verið að sjá íslenska leikara og landslag. Svo fær þetta svaka aðsókn á meðan enginn nennir á íslenskar myndir… Týpískt!  Það sem mér fannst eiginlega merkilegast í myndinni var spurningin hvar náði Stiller í alla þessa grænlensku aukaleikara? Tek þó fram að mér finnst Stillerinn frábær gaur. Einkunn: 2/5