Það er vandlifað í fyrsta heiminum og alltaf eitthvað nýtt til að hafa móral yfir. Fyrir hrun var ekki þverfótað fyrir kolefnisjöfnun. Það var nýja friðþægingar-lausnarorðið og tryggði góða samvisku í helvítis óhófinu. Svakalega var enginn að spá í kolefnisjöfnun þegar hrunið skall á.
Nýjasta nýtt (eða ekkert svo nýjasta nýtt, heldur bara mikið í umræðunni um þessar mundir) er aðbúnaður dýra, þá helst þeirra dýra sem fæðast og deyja í einskonar útrýmingabúðum svína og kjúklinga. Sá sem stígur þarna inn verður ekki samur, segir fólk, og allskonar viðurstyggileg videó sveima um veraldarvefinn. Ég er bara of mikil neyslugylta (Steini Sleggja fann þetta orð upp) til að pína mig til að horfa á svona horror. Vil ekki hafa þetta í hausnum þegar ég slafra í mig fitugum KFC kjúklingabita. Svona er ég mikill viðbjóður, hreinlega á pari við barnaníðinga, skv. Morrissey, en fáir ganga lengra en hann í fordæmingu á kjötætum.
Mér blöskraði þó þegar ég horfði á Gísla Martein og konurnar í settinu töluðu um alla vansköpuðu kjúklingana sem eru teknir frá og fara beint í hökkun og enda sem kjúklingabitar, nuggets. Ég er ekkert svo viss um að ég sé að fara að graðka í mig nuggets á næstunni.
Þær töluðu líka um að einu kjúklingarnir á landinu, sem ekki hafa gengið í gegnum helvíti á jörð, komi frá Danmörku og fáist í Fjarðarkaupum. Ég hringdi og þar sögðu þeir mér að einn svona halelúja-kjúklingur, 1.2 kg. kosti 2.898 kr. Það hlýtur að fylgja með nafn á hænunni (Mia) og mynd af henni að vappa frjáls og glöð um danskar grundir. Tja, ég er ekkert svo viss um að ég sé að fara að flengjast í Hafnarfjörð (frábær bær samt og alltaf gaman að koma þangað) fyrir þennan díl. Ætli ég lifi ekki bara í myrkrinu áfram, óforskammaður viðbjóður.
Helvítis hænur eru hvort sem er algjör fífl. En helvíti góðar á bragðið (rétt kryddaðar).
Færðu inn athugasemd