Ekki í fyrsta né síðasta skipti sem það er svínað á poppurum, en tíðindum sætir að um er að ræða Ágætis byrjun Sigur Rósar, plötu sem tvisvar sinnum hefur verið kosin besta plata Íslandssögunnar í viðamiklum könnunum.
—
Atónal Blús – Atónal Blús
Höfuðsynd er glæný plata með Atónal Blús. Þessi spretthraða níu laga tilraunaplata er hugarfóstur gítarleikarans Gests Guðnasonar, sem hefur m.a. spilað með Númer Núll, Stórsveit Nix Noltes, 5tu Herdeildinni og Skátum. Þetta er dúndurgott stöff, oft allnokkur Captain Beefheart í þessu, eða bara allskonar: mjög fjölbreytt og krefjandi tónlistarmauk. Geysilega ráðlögð plata, hreint og beint. Hér er spjall við Gest (varúð: inniheldur hefí orð eins og „taktboða“):
Hvernig tónlist er þetta?
„Tónlistin fer frá því að vera frekar létt og melódískt acoustic popp með þjóðlagaáhrifum yfir í að vera níðþungt og rafmagnað rokk með viðkomu í eletróník. Hún sveiflast frá því að vera falleg og melódísk yfir í að vera drungaleg og ómstríð og frá því að vera hæg og epísk yfir í að vera villt og hröð. Blandað er saman dauðarokki, nútímaklassík og blús, dans og balkantónlist, klassísku rokki, raf og heimstónlist ásamt því sem platan inniheldur dreymandi hugljúfar ballöður og 80s poppmetal.
Textar eru sungnir bæði á íslensku og ensku og stundum er tungumálunum blandað saman.
Ég er að nota töluvert af ritmum sem koma úr Balkanskri þjóðlagatónlist. Taktboðar eins og 11/8 og 7/8 eru algengir í tónlist frá Balkanskaganum en heyrast annars sjaldan nema í samtímadjassi eða klassík. Balkantónlistin sem notast við þessa taktboða er hinsvegar þjóðlagatónlist með grípandi laglínum, skýr í formi og keyrð áfram af ólgandi takti. Ég hef reynt að halda í þessi einkenni hennar á plötunni. Þessir ritmar eru yfirleitt mjög hraðir í hefðbundinni Balkantónlist þannig að ég geri tilraunir með að hægja þá niður svo að þeir verða mjög „grúví“. Umgjörðin eða hljóðheimurinn er líka annar og töluvert rafmagnaðari.
Ég er líka að nota eitthvað af klassískum tónsmíðaaðferðum í bland við að semja tónlistina eftir eyranu (veiða eitthvað sem fellur eyranu í geð upp úr undirmeðvitundinni) sem er kannski algengasta nálgunin við lagasmíðar í popp/rokk/þjóðlaga stíl. Þessar aðferðir leiða til nýrra hugmynda án þess að tapa einkennum upprunalegu hugmyndarinnar. Ákveðinn heildarhljómur helst ásamt því að efniviðurinn þróast. Með þessum aðferðum nota ég einnig spuna til að auka enn á blæbrigði og fjölbreytileika. Þannig vonast ég til að tónlistin losni úr viðjum þess að vera stíf og fyrirfram ákveðin en jafnframt að hún öðlist innsæi, íhugun og auðgi þess sem hefur verið vel ígrundað. Þarna verður því einhverskonar samruni menningarheima og tímaskeiða býst ég við. Áhrif frá forneskjulegri þjóðlagatónlist færð yfir í nútímalegan hljóðheim samin með klassískum aðferðum í bland við eðlisávísun.“
Hverjir spila á hvað?
„Þorvaldur Kári Ingveldarson vil ég meina að sé óuppgvötað afl í íslenskum trommuleik. Þorleifur Gaukur Davíðsson spilar á munnhörpu en hann er einn af fáum í heiminum sem hafa á valdi sínu að spila krómatísk á díatóníska munnhörpu. Jesper Pedersen spilar á þeremín en það er hljóðfæri sem þú kemur ekki við þegar spilað er á það. Páll Ívan Pálsson og Guðjón Steinar Þorláksson spila með boga á kontrabassa og draga fram óvenjuleg „óhljóð“ úr hljóðfærinu. Ég spila á kassagítara og rafmagnsgítara en markmiðið var að láta rafmagnsgítarinn hljóma á köflum meira eins og synthesiser en gítar.“
Hvað þýðir Atónal Blús?
„Atónal þýðir tónlist sem er ekki í neinni tóntegund eins og t.d. c-dúr eða a-moll. Blús er hinsvegar oftast bara í einhverri einni tóntegund eins og t.d. E-dúr. Þannig að þetta eru gjörólíkir stílar sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt (fyrir utan að vera jú hvort tveggja tónlist). Atónal Blús er því nokkurskonar þversögn.“
PLATAN Á BANDCAMP!
—
Bónus selur nú drykki frá Cawston Press í Berkshire Englandi. Neytendinn ég smakkaði eftirfarandi: Brilliant Beetroot safi er algjör viðbjóður enda er rauðrófusafi ógeðslegt moldarsull. Hvað var ég að spá? 0 stjörnur. Epla 99% og engifer 1% safinn er ok, full sætur kannski og það hefði mín vegna mátt stækka engifer hlutfallið. 2 stjörnur. Tvær gosflöskur: Epla og rabbabara er ágætur og mjög hlutlaus einhvern veginn, 3 stjörnur. Sparking ginger er góður, hinn fínasti engifer-safi, 4 stjörnur af fimm. Allt í allt hið fínasta mál hjá Bónus.
Færðu inn athugasemd