Maggi Eiríks og aðrir ínældir popparar

9 Jan

b3146eceee2454
Vinsælt er að dissa Fálkaorðuna. „Er nú ekki alveg óþarfi að verðlauna fólk fyrir að vinna vinnuna sína,“ segir orðulaus almenningur alveg hundfúll. Búið er að næla á fólk síðan 1921, bæði Íslendinga og útlendinga (aðallega sendiherra). Það má sjá hina ínældu hrúgu á heimasíðu forsetans. Orðurnar eru mismerkilegar,  flestir fá „riddarakross“, en sumir enn merkilegri fá t.d. „Stórkross með keðju“ eða „Stórriddarakross með stjörnu“. Þetta er nú meira helvítis húmbúkkið! (segi ég þar til annað kemur í ljós).

Í seinni tíð hafa popparar byrjað að fá Fálka. Ínældir popparar eru Þórir Baldursson (2013), Ragnhildur Gísladóttir (2012), Björgvin Halldórsson (2011), Helena Eyjólfsdóttir (2010), Ingibjörg Þorbergs (2008), Ólafur Gaukur Þórhallsson (2008), Björn R. Einarsson (2007), Ragnar Bjarnason (2005), Bubbi Morthens (2003), Gunnar Þórðarson (2002), Björk Guðmundsdóttir (1997) og Haukur Morthens (1992).

Eins og sést má í seinni tíð búast við að einn poppari fái Fálka á hverju ári. Sá nýjasti er Magnús Eiríksson sem er að sjálfssögðu gríðarlegur verðugur þess að fá Fálka fyrir „framlag til íslenskrar tónlistar“ eins og það er kallað. Maggi er hvílíkur snillingur eins og allir með hálfa heyrn vita og úr heilabúi hans hafa komið mörg þeirra leiftrandi popplaga sem skilgreina okkur sem Íslendinga.

Löngu áður en Magnús kom með Mannakorn og aðra snilld í framhaldinu um miðja sjöuna, var hann í bítla og ballbandinu Pónik og Einar. Með þeirri sveit komu fyrstu lögin hans út, samtals fimm á tveimur 4-laga 7″ EPum. Þetta er efni sem fáir þekkja og um að gera að bæta úr því.

ponikogeinar

Pónik og Einar – Jón á líkbörunum

Pónik og Einar – Viltu dansa

Pónik og Einar – Herra minn trúr

falkinn-ponik65

Um Pónik og Einar segir svo í bók minni Eru ekki allir í stuði (útg. 2001): Nokkrir ungir menn með Magnús Eiríksson gítarleikara í fararbroddi stofnuðu Pónik árið 1964. Þegar Einar Júlíusson hraktist úr Hljómum, hljómsveitinni sem hann hafði stofnað, bauðst honum að fara yfir í Pónik, sem varð góð lyftistöng fyrir alla. Meðlimir Pónik voru um tvítugt en Einar aðeins eldri. Þó meðlimirnir væru í fastri vinnu spilaði hljómsveitin mikið á böllum, mjög oft í Keflavík, þó flestir meðlimanna væru búsettir í Reykjavík. Sveitin hitaði upp hjá Brian Poole & The Tremeloes og ávann sér slíkar vinsældir árið 1965 að hún hafnaði í öðru sæti á eftir Hljómum í vinsældakosningum Fálkans. Sjálfur var Einar var kosinn besti söngvarinn. Í því tilefni ræddi vikuritið við bandið, m.a. um stelpur og aðra æsta aðdáendur.

Fálkinn: Er mikið um það, að aðdáendur ykkar biðji um eiginhandarskrift?
Magnús: Já, ég er nú hræddur um það. Ég hef meira að segja orðið svo frægur að skrifa á magann á einni stelpunni.
Sævar Hjálmarsson: Ja, ég hef nú aldrei komist lengra en að skrifa á handlegginn á þeim.
Úlfar Ágúst Sigmarsson: Hljómsveitarstjórinn verður að hafa forréttindi.
Fálkinn: Hver er mesta kvennagullið í hljómsveitinni?
Úlfar: Það er Sævar. Dömurnar fá næstum því aðsvif, þegar hann sendir þeim sitt töfrandi augnaráð.
Sævar: Þetta er fráleitt. Það er enginn vafi á því að Einar á mestan sjensinn af okkur.
Magnús: Já, Einar er mesta kvennagullið. Þær snarfalla fyrir ómótstæðilegum persónutöfrum hans, að maður tali nú ekki um spékoppana.
Fálkinn: Hafið þið þurft á lögregluvernd að halda vegna óláta á dansstað?
Sævar: Það var eitt sinn, er við vorum að leika 17. júní í Keflavík, að maður um fimmtugt, vel við skál, æðir upp á hljómsveitarpallinn og sló til Magga, en honum hefur ekki þótt hann árennilegur, því hann snéri sér strax að mér all ófrýnilegur ásýndum. Mér leist nú ekki á blikuna og hörfaði undan, en í því leggur Einar frá sér hljóðnemann og hjólaði í kallinn. Ekki varð þó neitt um meiri háttar slagsmál, því brátt kom lögreglan og dró kauða burtu.

Pónik í London
Pónik var ein af hljómsveitunum sem Jón Lýðsson ætlaði að gefa út þegar hann stofnaði hljómplötuútgáfuna UF hljómplötur (UF = ungt fólk). Jón hafði uppi fremur stórar hugmyndir og sendi Pónik til London í október 1966 til að taka upp átta lög fyrir tvær 7″ plötur. Ferðin stóð yfir í tæplega viku og var mikið ævintýri, enda höfðu tveir meðlimanna ekki komið til útlanda fyrr. Upptakan á öllum lögunum tók rúmlega dagstund. Í Maximum Sound hljóðverinu höfðu Kinks og Paul McCartney verið skömmu áður, en á meðan Pónik tók sér hlé frá upptökum kom hljómsveit frá Vestur Indíum og með henni aragrúi vina og vandamanna. Sveitamennirnir íslensku urðu forviða yfir þessum exótísku menningarstraumum.

Magnús: Þetta var furðuleg samkoma og músikin svo rammfölsk, að annað eins höfðum við ekki heyrt. Varst var þó, hve aumingja fólkið lyktaði ferlega. Kvað svo rammt að því, að Einar gekk með ilmvatnsglas um salinn þveran og endilangan eftir á og úðaði í öll horn.
Magnúsi fannst að auki Carnaby Street „skelfing ómerkileg“ gata og Pónik fann þar engin föt við sitt hæfi. Betra fannst strákunum að versla á Oxford Street. Þeir litu einnig inn á Whiskey A Go Go klúbbinn, en urðu ekki hrifnir, heldur hálf fúlir af því að tónlistin var svo hátt stillt. „Þessi reynsla okkar verður sennilega til þess að við förum að hafa nánara eftirlit með mögnurunum okkar“.
UF kom fyrri smáskífunni út í febrúar 1967. Þrátt fyrir að á plötunni væri íslenskun á vinsælu lagi úr myndinni The Sandpiper, „The Shadow of your smile“, og vafasamt lag eftir Magnús sem var bannað í útvarpinu, „Jón á líkbörunum“, dó platan í fæðingu. Seinni skammturinn kom ekki út fyrr en rúmu ári síðar. Þá hafði Tónaútgáfan á Akureyri keypt útgáfuréttinn af Jóni. Sú plata gekk aðeins betur, enda varð eitt lagið vinsælt, „Léttur í lundu“, sem Karl Hermannsson, sá sem hafði verið örstutt með Hljómum, samdi. Öll hin lögin voru eftir Magnús, sem var hættur í Pónik þegar platan kom út. Hann hafði viljað fara aðrar leiðir en Einar söngvari og aðrir í hljómsveitinni.

Reyndu aftur, ævisaga Magnúsar sem Tómas Hermannsson skrifaði og Sögur útgáfa gaf út árið 2009 er svo best heppnaða ævisaga íslensks poppara sem komið hefur út. Hafirðu ekki lesið hana mæli ég eindregið með því að þú gerir það.

3 svör to “Maggi Eiríks og aðrir ínældir popparar”

 1. Úlfar Sigmarsson janúar 9, 2014 kl. 12:13 e.h. #

  Í framhaldi af skrifum dr. Gunna vil ég láta þess getið að ég hef með aðstoð sonar míns, Þóris Úlfarssonar, og annarra í fjölskyldunni unnið að því að koma lögunum með Pónik á CD. Þessi diskur á nú að vera kominn til RUV og nokkurra aðila sem vinna (unnu) þar. Ég lét framleiða 100 eintök sem eru nú nánast uppurin. Ég veit ekki um útgáfuréttinn og þess vegna hefur þessi diskur ekki farið í sölu. Ég á enn örfá eintök. Ætlunin er líka að koma plötunni „Útvarp“ á disk fljótlega þanni g að hún sé til á CD.

  • drgunni janúar 9, 2014 kl. 6:14 e.h. #

   Gaman væri að fá eintak af þessum diski! Bkv, Gunni

  • Bedda ágúst 25, 2015 kl. 1:16 e.h. #

   Það væri dásemd ef þú gætir komið Pónik lögunum á Spotify líka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: