Árni Matt: Óefnisleg tónlistarflóra

30 Des

Árni Matt skrifar mikinn bálk um íslenska óefnislega tónlistarflóru ársins í Moggann í dag. Þetta er grein sem heimtar að vera á netinu, en ekki í dauðu timbri. Þar sem ég fann þetta hvergi á mbl.is tek ég mér það bessaleyfi að birta þetta hér með linkum:

Tónlistarútgáfa stendur með miklum blóma þó að ekki sé allt á föstu formi – rafrænni útgáfu hefur vaxið fiskur um hrygg og hér er fjallað um sautján íslenskar plötur sem hlusta má á á netinu.

Í fréttaskýringu í blaðinu fyrir stuttu var fjallað um útgáfu á tónlist og kom meðal annars fram að útlit væri fyrir að „færri nýir íslenskir plötutitlar verði í boði þessi jólin en í fyrra“. Má til sanns vegar færa, því vissulega koma færri titlar út á föstu formi en árið áður, en þá líta menn ekki til þess að tónlistarútgáfa hefur færst á netið að mörgu leyti.

167 plötur
Kostnaður við upptöku á tónlist er mun minni nú en forðum og svo komið að tiltölulega auðvelt er að koma sér upp litlu hljóðveri, jafnvel í stofunni heima eða svefnherberginu, sem dugað getur til að skila prýðilegum upptökum, kannski ekki eins góðum og í tugmilljónahljóðveri, en iðuleg nógu góðum til að hægt sé að nota þær til útgáfu.
Þegar svo er komið að flestir hlusta á tónlist í tölvum eða símum eða spilastokkum má sleppa þeim kostnaði sem felst í því að láta prenta og steypa og pakka og flytja og dreifa tónlistinni á föstu formi.
Ég tók þátt í því fyrir stuttu að setja saman svonefndan Kraumslista, sem tekinn er saman árlega á vegum Kraums tónlistarsjóðs. Kraumslistinn hefur að markmiði meðal annars að verðlauna og vekja athygli á því sem er nýtt og spennandi í íslenskri tónlist ár hvert á sviði plötuútgáfu. Allar plötur eru undir í upphafi, og þannig hlustaði ég á ríflega 170 plötur við vinnuna. Flestar hafði ég reyndar hlustað á eftir því sem þær bárust frá útgefendum eða tónlistarmönnunum yfir árið, en allmargar hafði ég ekki heyrt því þær voru aðeins til á rafrænu formi og sumar höfðu aldrei verið kynntar sérstaklega. Af þessum plötum sem gefnar voru út rafrænt voru 25 aðgengilegar á vefsetri Bandcamp, sem opnað var haustið 2008. Þar geta tónlistarmenn sett inn tónlist til sölu eða gefið hana ef vill. Þeir ráða líka verði tónlistarinnar, en margir hafa þann háttinn á að áhugasamir geta ákveðið verðið sjálfir. Hægt er að hlusta á alla tónlist án endurgjalds og án skráningar, eins og tíðkaðist í góðum plötubúðum forðum (og tíðkast kannski enn) – hálfa sjöundu milljón laga alls. Líka er hægt að nálgast íslenska tónlist á vefsetri íslenska fyrirtækisins Gogoyoko, en ég beini sjónum að Bandcamp í þessari samantekt og þá aðeins að þeim plötum sem eru mér eftirminnilegastar.

itcom

Áfram, í allar áttir!
Wormlust
er svartmálmssveit Hafsteins Viðars Lyngdals og platan The Feral Wisdom (3/5) var gefin út á Bandcamp í sumar. Hann fléttar sveimkenndri tilraunasýru saman við svartmálminn með góðum árangri, til að mynda í upphafslagi plötunnar, Sex augu, tólf stjörnur, þar sem grenjandi keyrsla brestur á eftir rúma mínútu af draumkenndum inngangi, en svo tekur draumurinn við aftur undir lokin. Mjög fín plata og Djöflasýra er frábært lag.

Björn Gauti Björnsson, sem kallar sig B.G. Baarregaard kallar sig líka Birth, Breath, Disco, Death (2 og 1/2 af 5), eða svo skráir hann samnefnda EP-plötu á Bandcamp. Eins og heiti skífunnar ber með sér hefur hún að geyma diskómúsík af bestu gerð, hreinræktuð skemmtun út í eitt. Mæli sérstaklega með Ease The Pain þar sem Krilla Vanilla syngur afskaplega vel.

Hljómsveitin Porquesí er skipuð þeim Skúla Jónssyni, Russell Harmon, Agli Jónssyni og Jonathan Baker. Samnefnda plötu, Porquesí (2 og 1/2 af 5) , er að
finna á Bandcamp og er önnur plata hennar. Tónlistin er metalcore-kennd, mjög metnaðarfull með síðrokkkenndum köflum, til að mynda lagið Quiet House þar sem píanó og strengir spjalla saman með ólgandi bjögun kraumandi undir þar til rokkið nær yfirhöndinni undir lokin.

In The Company Of Men er ein skemmtilegasta tónleikasveit landsins og ITCOM (3/5) er ekki síður skemmtileg – maður veit aldrei hvað er í vændum. Gott dæmi um það er upphafslag skífunnar, Captain Planet, sem byrjar með skældum kassagítarhljómum, brestur svo í frábæra skreamokeyrslu og svo í tilraunakenndan blásaraspuna áður en við snúum okkur aftur að rokkinu – magnað lag og mögnuð plata.

Fyrir áratug kom út mjög fín skífa með spunatónlist þeirra Lárusar Sigurðssonar og Ólafs Josephssonar undir yfirskriftinni Calder. Calder virðist allur / öll / allt, en samstarf þeirra félaga heldur áfram undir nafni Lárusar sem heyra má á plötunni We Are Told That We Shine (2 og 1/2 af 5). Lárus er í aðalhlutverki á skífunni, en Ólafur leggur til áhrifshljóð og drunur. Í grunninn er platan því órafmögnuð, mikið leikið á strengjahljóðfæri, en einnig heyrast raddir öðru hvoru. Þetta er lágstemmd skífa sem verður betri við hverja hlustun.

Af þeirri forvitni- og óvenjulegu íslensku músík sem finna má á Bandcamp kemur platan The Deacon of Myrká (3/5) einna mest a óvart. Heiti plötunnar vísar í þjóðsöguna, en tónlistin, sem er eftir þá Hlér Kristjánsson og Alex Cook, er hugsuð sem balletttónlist og mjög skemmtilega útfærð sem slík. Víða er vísað í íslensk þjóðlög, en þó er verkið frumlegt. Mjög vel gert.

Á Geigsgötum er sólóverkefni Akureyringsins Inga Jóhanns Friðjónssonar og er með prýðilega tregarokkskífu á Bandcamp, Verið velkomin (2 og 1/2 af 5). Þar er líka að finna aðra sveit, Deer God, sem er aukasjálf Skagstrendingsins Þórðar Indriða Björnssonar, sem á framúrskarandi plötu The Infinite Whole (3/5), ljóðræna óhljóðamúsík. Því eru þeir Ingi Jónan og Þórður taldir saman að þeir leggja svo saman í púkk í laginu Moldar að sem sameinar það besta hjá báðum.

Michael Dean Óðinn Pollock hefur marga fjöruna sopið í tónlist frá því hann tók þátt í að hrinda íslensku pönkbylgjunni af stað á sínum tíma. Þó að hann hafi fengist við ýmiskonar tónlist síðan hefur blúsinn aldrei verið langt undan og vel til fundið hjá honum að fá blúsmunnhörpuleikarann snjalla Sigurð Sigurðsson til liðs við sig á plötunni Agape (4/5). Að því sögðu er þessi plata ekki hrein blússkífa, heldur frekar það sem menn kalla rótatónlist ytra, einlæg og tær tónlist sem byggist á gömlum þjóðlegum merg. Lögin eru fín, Sigurður blæs eins og engill og söngur Michaels innblásinn, röddin eilítið hrjúf og full af tifinningu. Afbragð.

Sumt kemur aldrei út því mönnum finnst það of sérkennilegt, en á netinu er allt hægt – sem betur fer. Þýska útgáfan Steak au Zoo hef gefur út samstarfsverkefni þeirra Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur og Steinunnar Harðardóttur, sem þær kalla Sparkle Poison en Steinunn er líka þekkt sem dj. flugvél og geimskip. Tónlistin á skífunni, sem heitir líka Sparkle Poison (3/5), er óhemju fjölbreytt, sumt minnir á bilaðar Tân Có-spólur, annað á misheppnaða brúðkaupstónlist, enn annað á útsendingu utan úr geimnum. Sumt er snilld, annað gott og enn annað nánast of skrýtið til að vera til.

Naos, sem heitir annars Jóel Hrafnsson, er myndlistar- og tónlistarmaður frá Akureyrir sem hefur áður sent frá sér músík undir nafninu Hyperspaze. Músíkin sem hann gefur út sem Naos, Lack of Faith (2/5), er þó harðari en fyrri verk Jóels, hljóðheimurinn myrkari og keyrslan meiri. Jóle lýsir músíkinni sem doomcore, sem er nærri lagi. Prýðilegt techno, en sumt fullvenjulegt, til að mynda lög eins og Bite the Bullet, en Speedkrieg er aftur á móti snilld svo dæmi séu tekin – doomcore-dauðarokk.

Tvisvar verður gamall maður barn og oftar reyndar, ekki síst ef hann kemst í þá undirfurðulegu skífu Tónlist fyrir Hana (4/5) sem Per: Segulsvið býður upp á á Bandcamp og mér skilst að standi til að gefa út á föstu formi, ef hún er þá ekki þegar komin. Af þeim plötum sem ég hlustaði á í þessari Bandcamp-lotu kom engin eins skemmtilega á óvart, bæði fyrir fjörsnærða músík og ekki síður fjölskrúðuga texta. Tek undir það sem segir á síðunni: „Skífan er sneisafull af ilmandi dægurlögum og gómsætri dansmúsík sem heilla mun jafnt menn sem hænsnfugla.“ Svanur Magnús semur textann, en Ólafur Josephsson tónlistina.

Frímann Ísleifur Frímannsson er iðinn við músík, gefur út tónlist undir ýmsum nöfnum einn eða í samstarfi við ýmsa. Eitt af aukasjálfum hans er hljómsveitin Slugs sem gaf út skífuna Þorgeirsbola (2 og 1/2 af 5) í takmörkuðu upplagi, en hægt er að hlusta á Bandcamp-síðu Slugs. Tónlistin er bjagað vel súrt pönkað rokk og lögin frá því að vera frekar leiðinleg (Gat þetta, 400) í að vera frábær (Rafmagnstaflan, Barnaperrinn (ég er sjúkdómur) og Botnfiskablús).

3xamatt

Frímann rekur líka útgáfuna Lady Boy Records með Nicolas Kunysz og sú gaf út á árinu kassettu, Lady Boy Records 001 (3/5), í mjög takmörkuðu upplagi, svo takmörkuðu reyndar að hún er löngu uppseld. Það er þó hægt að hlusta á músíkina á Bandcamp (og kaupa hana til niðurhals) og þá heyra tónlist með rjómanum af íslenskri tilraunatónlist, þar a meðal Ghostigital, Krumma, LVX, Bix, Sigtryggi Berg Sigmarssyni, Rafsteini, Úlfi, Futuregrapher og Quadruplos. Músíkin er mjög misjöfn að gæðum, en ég mæli með raddæfingum Sigtryggs og stuðlagi Úlfs og framlagi Ghostigital, Bix, Quadruplos og Nicolas Kunysz.

Nicolas Kunysz er Belgi, en býr og starfar hér á landi og hefur talsverð tengsl inn í íslenskan músíkheim. Hann gaf einnig út það sem kalla má EP-plötu á vegum Lady Boy Records, eitt lag, Rainbows in Micronesia (2 og 1/2 af 5), sem er tæpar sextán mínútur og mjög vel heppnuð flétta.

Gunnar Jónsson Collider hefur fengist við sitthvað tónlistartengt á undanförnum árum og þá aðallega í tilraunakenndri raftónlist. Hann sendi frá sér tvær skífur á árinu, Disillusion Demos EP (3 og 1/2 af 5)og Binary Babies EP (3/5). Við fyrstu hlustun fannst mér síðarnefnda skífan mun betri, en eftir því sem ég hlusta oftar á plöturnar kann ég betur að meta þá fyrri. Á Disillusion Demos syngur Gunnar og kemst vel frá því í grípandi heppnuðu kassagítarknúnu indípoppi, en á þeirri Binary Babies ráða skældar raddir, þrusk, brak og rafhljómar ríkjum. Mjög forvitnilegt og gott ef ekki er vitnað í No Pussyfooting á Binary Babies (sjá: II).

Í þessari upptalningu beini ég sjónum að Bandcamp.com, eins og getið er, en mikið af ofangreindri tónlist er fáanlegt á Gogoyoko.com, nokkuð á Tónlist.is og sumt á Soundcloud.com.

Árni Matthíasson / arnim@mbl.is

 

4 svör to “Árni Matt: Óefnisleg tónlistarflóra”

 1. kolli desember 30, 2013 kl. 10:20 f.h. #

  Frábær og þörf grein hjá Árna Matt!

  Veit ekki hvort þetta er réttur vettvangur til að vera að leiðrétta, þar sem þetta er endurprentuð grein, en Slugs er að því ég best veit ekki verkefni frá Frímanni Ísleifi Frímannssyni, heldur pönkhljómsveit sem Sindri Eldon syngur í, held þeir hafi samt gefið út plötuna hjá Ladyboy Records, sem orsakar líklega misskilninginn.

  • Svavar Knútur desember 30, 2013 kl. 10:47 f.h. #

   Afskaplega ánægjulegt! Takk fyrir að birta þetta Gunni og takk fyrir skrifin Árni.

 2. ólafur desember 30, 2013 kl. 12:30 e.h. #

  Góð grein hjá Árna, hann virðist einn af fáum sem er með puttann á púlsinum…. Benda má á að Calder sem er verkefni sem ég og lárus sigurðsson höfum baxast við öðru hverju .. gaf líka út þessa ágætu skífu árið 2008 og telst því varla öll! Nóg til af henni á plasti!

  http://calder.bandcamp.com/

  olræt..

 3. Þorsteinn janúar 1, 2014 kl. 9:31 e.h. #

  Langaði bara til að reppa Norðanrokkið aðeins meira með að skilja eftir link á 2013 plötu.

  http://brak.bandcamp.com/album/holdgerving-hrae-slunnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: