Sarpur | júní, 2013

Alheimurinn kynntur

15 Jún

Alheimurinn! heitir ný (barna)plata sem Dr. Gunni og vinir hans taka nú upp í Geimsteini, Keflavík. Platan hamrar járnið meðan það er heitt, enda ekki liðin nema 16 ár síðan Abbababb! kom út. Hljómsveitin ætlar að spila og spila lög af nýju og gömlu plötunni og er stíft bókuð þessa helgi. Í dag kl. 16 verðum við í KRINGLUNNI en þar fer nú fram JIBBÍ JEI! Á morgun kl. 14 verðum við Heiða með kassagítara aftur í KRINGLUNNI.

Svo er það sjálfur 17. júní – Þá verða Dr. Gunni og vinir hans á tveimur stöðum: Fyrst í GRINDAVÍK kl. 15 og svo á ARNARHÓLI kl. 16:45 (það verður í beinni á Rás 2). Til að þessi stífa dagskrá gangi upp hefur verið ráðinn sérstakur getaway bílstjóri.

Já, og svo verð ég í útvarpsþættinum PÁLSSON & LITLI á Rás 2 kl. 11:30 á eftir.

Alheimurinn! kemur út í október hjá Geimsteins-útgáfunni. Fyrsta lag í spilun fer vonandi að heyrast eftir svona 2 vikur. Hér er nokkrar myndir frá Geimsteini þar sem við erum komin vel af stað með að búa til plötuna.

2013-06-01 09.51.27
Björgvin Ívar Baldursson er á tökkunum. Rúnar Júl er afi hans!

2013-06-02 11.23.59
Kristján Freyr trommari braut trommukjuða. Já, þetta er þannig (barna)plata!

2013-06-02 10.53.03
Það eru ótrúlegustu hlutir sem leynast í Geimsteini, t.d. beikon mintur – ógeðslegar!!!

2013-06-03 11.33.32
Elvar spilar á gítar. Addi og Jimi fylgjast með!

2013-06-02 16.13.24
Það er ekkert varið í þetta nema það sé klappað!

2013-06-02 14.31.32
Baldur úr Box kom og spilaði á orgel. Það var geðveikt næs!

2013-06-02 13.07.24
Í mat er svo hægt að fá sér Villaborgara. Það verður varla toppað!

Töff kaggi #9

13 Jún

Síminn minn („notaðu hann eins og þú hatir hann“) er algjör snilld. Maður getur mælt hjólaleiðina sína og svo montað sig af henni með korti, svona:
vatnsendahjring
Rosa fínn hringur, gegnum Elliðaárdal, Vatnsendi, gegnum Garðabæ og til baka. Ekki nema 32.65 km. Vatnsendi var einu sinni algjört middle of nowhere. Það var stundum rúntað þarna og ég man óljóst eftir drauga/hryllingshúsi sem var þarna dálítið afskekkt. Veit einhver hvað ég er að tala um? Með Spotify gat ég svo blastað Autobahn á meðan ég hjólaði í gegnum neðri hverfin í Garðabæ. Þá hugsaði ég: Þetta er fullkomnun.

Svo sá ég töff kagga #9. Chrysler Imperial 55 módel, 2.2 tonn af sigri mannsins yfir náttúrunni:
imper

Leoncie 1982

12 Jún

leoncie82
Tíminn birti fyrsta viðtalið á Íslandi við Leoncie Mariu Martin 15 október 1982. Hún virtist bara nokkuð sátt við land og þjóð. Síðan hefur, hóst, nokkuð vatn runnið til sjávar.

Tvö hress „næntísbönd“

12 Jún

demetra
Enn kreisí eftir öll þessi ár eru mennirnir í SAKTMÓÐÍGI. Þeir vaða nú inn á skítugum skónum með þriggja laga plötuna DEMETRA ER DÁIN. Platan kemur á sjö tommu vinýl í lok mánaðarins og verður þá fáanleg í Geisladiskabúð Valda, Lucky og fleiri eðalstöðum, en núna strax má graðka í sig veigarnar á Bandcamp. Við erum að sjálfssögðu að tala um lamandi hresst pönkrokk, sem angar af sniglaslími og ógæfu. Allt eins og það á að vera.
Hljómsveitin Saktmóðigur var stofnuð árið 1991 og hefur starfað sleitulaust síðan. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var kassettan Legill sem kom út haustið 1992. Í kjölfarið komu tvær 10″ vínyl EP plötur, Fegurðin, blómin og guðdómurinn árið 1993 og Byggir heimsveldi úr sníkjum árið 1996. Hljómsveitin hefur auk þess gefið út þrjá geisladiska í fullri lengd, Ég á mér líf (1995) og Plata (1998) og síðast Guð hann myndi gráta (2011). 

kveikuralbum
SIGUR RÓS (stofnuð 1994) – hin besta hljómsveitin á Íslandi sem byrjar á S (og hér erum við auðvitað að taka Spilverkið, Stuðmenn og Sykurmolana út fyrir sviga) – gefa á Þjóðhátíðardaginn út nýju plötuna KVEIKUR. Þar hætta þeir kæfuframleiðslu og snúa sér að ostagerð. Góðostagerð. Gott ef ekki sultugerð líka. Sækja í allskonar rafvædda þungamálma, poppa eins og poppið á sléttunni og eru bara helvíti ferskir miðað við svona hundgamla hljómsveit. Allt á íslensku og vor í bæ. Á heimasíðu sveitarinnar má nú streyma plötuna í heild sinni.

Og talandi um góð bönd sem byrja á ess. SIN FANG heldur útgáfutónleika sína fyrir plötna FLOWERS í Iðnó í kvöld!

Keflavík er frábært pleis!

10 Jún

kefooo
Ljóst er að Keflavík Music Festival tókst ekki sérstaklega vel í ár. Svona utan frá séð virðast skipuleggjendurnir hafa ætlað sér allt of mikið og einfaldlega ekki ráðið við þetta. Það er fín hugmynd að halda festival með FM/Flash-legri tónlist (aka Hnakka-poppi) og vonandi verður KMF aftur að ári. Ef ég væri Óli Geir myndi ég þá bara bjóða upp á ferskt popp í þessum stíl næst og jafnvel halda dæmið á einum stað, en ekki reyna að gera þetta að hálfgerðu Airwaves út um allan bæ í Kef. Meistarinn ætti m.ö.o. að gera gott geim undir einu þaki.

Nokkuð hefur borið á að fólk yfirfæri Þórðargleði sína yfir mistökum Óla og félaga yfir á Keflavík sem heild og dragi þá ályktun að Keflavík sé ömurlegt pleis með eintómum slefandi fávitum. Jafnvel að þetta sé menningarsnauð eyðimörk þar sem white trash í náttbuxum vafrar um strætin í lyfjamóki leitandi að slagsmálum. Ég er þessu algjörlega ósammála því ekki er Kef bara fæðingarstaður íslenska rokksins heldur líka íslenska raggí-sins (Hljómar – Hjálmar). Mér finnst alltaf jafn gaman að koma í bæinn, þrátt fyrir alltof mikið atvinnuleysi (sem fer líklega að rætast úr nú þegar þessir stórfenglegu snillingar hafa tekið við rekstri þjóðarbúsins) er eitthvað ferskt landnema andrúmsloft þarna og ekki skemmir fyrir að það eru átta hamborgaralúgur til svæðis. Í Kef er líka starfandi elsta útgáfufyrirtæki landsins, Geimsteinn, sem gefur út næstu plötu mína, ALHEIMURINN, í október. Upptökuheimili Geimsteins er frábærlega gott (þar fara nú upptökur fram) og þar í áföstu húsnæði er einskonar rokkminjasafn með áherslu á Rúnar Júl og Keflavík, sem verður að duga þangað til Hljómahöllin rís (hvenær sem það verður).

Fólk, allavega þeir sem lítið er inn í málum, hefur svo ruglað KMF saman við ATP-hátíðina, sem fer fram á VELLINUM (aka Ásbrú) helgina 28-29 júní. Það er þar sem Nick Cave, The Fall og allt hitt stöffið kemur fram og ég held ég geti hengt mig upp á að verði alls ekkert klúður, enda toppmenn með reynslu í brúnni þar.

Svikahrappur gerist jólasveinn

8 Jún

Einar Sveinsson, kenndur við POP-hátíðina í Höllinni (sjá næstu færslu að neðan) lét gera sig gjaldþrota og flúði land. Reyndar hafði hann á sama tíma keyrt allt í þrot með Hljóma-bók sem kom út 1969. Hér eru tvær úrlippur um málið.

poph-timinn
Tíminn 27. sept 1969

aefisaga hljoma

Allir geta snúið við blaðinu og eftir því sem ég kemst næst er Einar nú vinsæll jólasveinn í El Salvador. Góður endir!

Svikahrappur heldur tónleika

7 Jún

Margar sögur eru til af drulluhölum í bransanum; Liði sem skítur upp á bak í viðskiptum sínum við tónlistarfólk og borgar aldrei. Í byrjun september 1969 voru haldnir stórtónleikar í (þá) nývígðri Laugardalshöll þar sem öll helstu böndin spiluðu. Þarna bar það helst til tíðinda að Björgvin Halldórsson kom, sá og sigraði – og fékk titilinn „Pop-stjarna Íslands“.

Einhver Einar Sveinsson hélt tónleikana. Hann var gjaldþrota þegar hann hélt giggið og mættu fulltrúar sýslumanns á svæðið. Einhvern veginn tókst Einari að komast yfir inngangseyrinn, böndin fengu aldrei krónu og síðar heyrðist af Einari í góðu yfirlæti í El Salvador…

pop1
pop2

Ekkert er sem sagt nýtt undir sólinni.

 

S. H. Draumur á VHS

5 Jún

S. H. Draumur – eða Svart hvítur draumur, eins og bandið kallaði sig á þessum tíma – leikur lögin Hefnd eftir Steina og Hún er sjálfsmorð eftir mig. Þetta er í örlitlu herbergi að Álfhólsvegi 30a og þetta er um veturinn 1983-84 (ekki viss nákvæmlega hvenær). Trommarinn Ágúst Jakobsson er í bandinu á þessum tíma, en fyrri trommarinn Haukur Valdimarsson heldur á kamerunni. Hann gekk aftur í bandið um vorið og var í því þangað til Biggi Baldurs kom til sögunnar um vorið 1985. Þetta er af gamalli VHS spólu sem ég er nýkominn með digitalinn af.

Skömmu síðar vorum við komnir út í garð og spiluðum instrumental-lagið Spínat og Sódó, sem var byggt á teiknimyndabarnasögu sem ég hafði skrifað. Sú saga byggði á teiknimynd sem ég hafði séð sem aukamynd í bíó. Myndin er um hund sem fer til tunglsins og ég hef aldrei séð hana aftur.


 

Daníel í Fríkirkjunni

4 Jún

Daniel-Johnston-008
Daniel Johnston gerði ágæta hluti í smekkfullri Fríkirkju í gærkvöldi. Tók frægustu lögin sín með barnslegu röddinni sem skar í gegnum lyfjaþoku og skjálfta. Svavar Knútur og hans aðstoðarfólk á lof skilið fyrir góða hljómsveit sem spilaði undir meistaranum. Þetta var síðasta giggið í Evrópu-túr Daníels, en í upphafi hans var hætt við að láta Daniel koma fram einan með gítar því skjálftinn er bara orðinn of mikill. Hann hefur því þurft að fá aðstoðarbönd á hverjum stað. Tekin voru lög eins og Speeding Motorcycle og Walking the Cow auk Live in Vain, sem ég tók upp á nýja símann minn. Í upphafi snéri ég honum öfugt sem útskýrir sándið í byrjun lagsins.

Daniel Johnston – Life in Vain (Live @Fríkirkjan 03.06.2013)

Upphitunarband Árna Vil úr FM Belfast, Nini Wilson’s Big Band Tudeloo, tók fimm lög, þar af tvö sem voru alveg frábær (númer 1 og 3). Þetta band mætti að ósekju splæsa í plötu, þótt það væri ekki nema EP.

Þetta er allt að byrja aftur…

3 Jún

YjyxWA2u4ziDAPlTzDXRDHby3sPRBQw1fwLw9rp7zWU
„Þetta er allt að byrja aftur…“ andvarpar nú fólk því það heldur að nýja ríkisstjórnin muni steypa öllu í gamla (góða?) 2007 farið þegar allir voru að eyða um efni fram og allt gekk út á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi með öllum tiltækum ráðum, þeim helstum að stífla ömmu sína og láta hana sjóða ál. „Vinstri mönnum“ leiðist þetta ekki enda komnir í gamla öryggið að vera tuðandi út í horni og í kjöraðstöðuna að vera stöðugt „á móti“ og í minnihluta. Þetta er win/win.

Ég stökk á vagn bjartsýninnar (síðasti séns áður en allt sekkur í sæ eins og jarðvísindafræðingurinn  í DV var að spá) og skellti mér bæði á nýtt grill, nýjan farsíma og New York ferð. Ég var reyndar ekki að eyða um efni fram heldur hafði ég selt svo mikið af rykföllnum hljómplötum að ég hafði efni á þessu öllu. Ekki get ég þó sagt að ég hafi beinlínis spreðað úr mér lifur og lungu því ég gisti á YMCA og hef skrifað pistil um þann gistimöguleika fyrir Túrista punktur is.

Þetta var æðisleg ferð en ekkert bar beinlínis til tíðinda. Það er lífsnauðsynlegt að vera sandkorn í flæðarmáli og láta slípast til í óþekktri mannmergð. Á sama tíma sleppur maður við íslenska naflakuskið sem maður getur þó ekki verið án því við fyrsta tækifæri er maður kominn á DV eða Eyjuna að gá hvaða tittlingaskít nú er verið að velta sér upp úr. Glatað!

Ég hitti vini mína þarna úti, bæði hinn landflótta KJG og Hauk S og fór til Coney Island án þess að prófa tæki. Þar eru pylsumennirnir í Nathans með aðsetur en ég gerði þau mistök að prófa ekki djúpsteiktar froskalappir sem þeir bjóða upp á. Át tvær risastórar sneiðar af Lemon marenge (sjá mynd) á dænerunum Good Stuff Diner og Cosmic Diner (báðir góðir), prófaði loksins IHOP (ágætt), drakk ótæpilega af Starbucks, át kirsuber, vafraði stóreygður um matvörubúðir (Whole Foods á Columbus Circle er eins og hundrað Melabúðir undir einu þaki, þar fæst bæði Siggi’s skyr og Skyr.is), fór lengst inn í Brooklyn til að kynna mér alvöru soda fountain og át víðfræga pastrami samloku á Katz, en þar inni er svona seventís New York fílingur og maður er eins og rolla í fuglabjargi.

Mér sýnist ég aðallega hafa verið að ryðja í belginn á mér, en fór reyndar líka í bíó á Film Forum kl. 13:20 á mánudegi á franska gamla mynd (La traversée de Paris – alveg ágæt). Slíkt er menningarstig borgarinnar að salurinn var nánast fullur af listrænum gamlingjum svona snemma. Svo hékk ég nokkuð í bókabúðum og keypti mér nokkrar bækur (m.a. Just Kids Patti Smith, sem allir hafa verið að segja að sé svo æðisleg; Shell Shocked: My Life with the Turtles, Flo and Eddie, and Frank Zappa, etc. og Every Night’s a Saturday Night: The Rock ‘n’ Roll Life of Legendary Sax Man Bobby Keys – Nóg að gera hjá mér í sumar). Skrapp líka í Metropolitan safnið á sýninguna Punk: Chaos to Couture. Þar er búið að troða inn eftirlíkingum af þeim tveimur stöðum sem pönkið rann frá, klósettunum í CBGB’s og búð Malcolm McLarens og Vivian Westwood í London. Svo hékk þarna fullt af pönkfötum sem mér fannst svo sem ekki merkilegra en að hitta Frikka pönk á bensínstöð (sem er reyndar mjög merkilegt). 

Öss… ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar!