Allt partíið í gær

30 Jún

Fyrsta All Tomorrows Parties er þá yfirstaðin og var í flesta staði alveg stórfengleg. Nick Cave & The Bad Seeds voru alveg frábærir (nema í Jesú-píanó lögunum, en þá fór maður bara út), sándið yfirþyrmandi æðislegt og allir í miklu stuði. Langbesta band hátíðarinnar, það var eins og ýtt væri á einhvern dempara-takka þegar öll hin böndin spiluðu (nema Fall, það var hávaði í þeim).

Í öðru laginu, Jubilee Street af nýju plötunni, datt Nick Cave aftur fyrir sig á rampi ofan í áhorfendasvæðið sem hann hafði látið smíða fyrir sig. Salurinn hélt að hann hefði hálsbrotnað. Sérstaklega þar sem rótari, sem var í algjöru uppnámi, kom hlaupandi yfir sviðið og stökk ofan í vettvang hálsbrotsins. Á meðan á þessu stóð sturlaðist bandið í einu af meistaralegu frík/noise-átum kvöldsins.  Jæja, það verða þá bara tvö lög í kvöld því Ísland drap Nick Cave, hugsaði maður, en svo kom gamli maðurinn (55 ára) röltandi frá hliðarvæng (hvernig komst þann þangað?, hugsaði maður) og fór að glamra á píanóið með bandinu, sem var enn að sturlast uppi á sviði. Nick djókaði svo með það að hann hefði átt að biðja um handrið á rampinn og að honum væri illt í rassinum. MOGGINN ER MEÐ MYNDBROT AF FALLI NICKS.

Niðurstaða kvöldsins var að Nick Cave er mest kúl maður í heiminum og hann fór á kostum í framlínu geysiþétts bands, en meðlimirnir hafa verið lengi með. Athygli vakti geithafurinn með fiðluna, Warren Ellis. Hann tók Paganini á þetta. Hann hefur spilað með Nick í Grinderman og er með bandið Dirty Three. Á hljómborð og trommur var Barry Adamson, gamall bassisti úr Bad Seeds og meðlimur Magazine. Hinn rosa stóri trommari Jim Sclavunos var rosalegur. Hann er Kani og gamall í hettunni, spilaði með The Cramps, Lydiu Lunch, Sonic Youth o.s.frv. Bassistinn Martyn P. Casey var í The Triffids. Enn einn Ástrali, Conway Savage, var á hljómborð. Ég veit ekki alveg hver var á gítar í þetta skiptið. Ed Kuepper úr The Saints/Laughing Clowns hefur verið að spila með Cave, en þetta var yngri maður í gær – líklega einhver sessjónkall.

En allavega, vá, hvílíkt gallerí snillinga og djöfulli magnað allt saman.

Í gær sá ég líka Hjaltalín sem eru skemmtileg og góð, Deerhoof, sem mér finnst aldrei neitt spes, Squrl bandið hans Jim Jarmusch – hann á að halda sig við kvikmyndagerð – á meðan Monotown spilaði (íslenskt band sem menn tala um í mikilli hrifningu þessa dagana) var ég með vel heppnaðan Popppunkt í Offisera-klúbbnum. Ég leit líka aðeins á Valgeir Sigurðsson brugga landa í Andrews Theater. 

Á föstudagskvöldið stóð The Fall upp úr, en á tónleikum sveitarinnar sameinast heimilisofbeldi og taktfast hjakkrokk. Mark E. Smith (Sturluð staðreynd: Hann og Nick Cave eru jafnaldrar, báðir fæddir 1957!!!) er feðraveldið, ráfar um önugur og asnalegur og fokkar í krökkunum í bandinu sem reynda að þóknast honum eins og börn ofbeldissvola. Þetta er átakanlegt (afhverju lemja þau hann ekki bara?) en maður huggar sig við að þetta er sjó og rokk og ról. Persónulega er ég hrifnastur af The Fall upp til 1983, en maður verður að taka ofan fyrir úthaldinu (30+ plötur á 37 árum). Bandið var dúndurþétt og sándið gott og sjóið („geggjuð uppátæki fulla pabba“) skemmtandi á undarlega heillandi hátt. Allavega var þetta miklu betra en í Austurbæjarbíói 2004, enda smakkaði Mark ekki sterkt áfengi fyrir sjóið. Hann mun svo hafa hangið á Paddys í Keflavík alla helgina, blessaður gamli maðurinn.

Í fyrradag sá ég líka Thee Oh Sees, sem ég hafði bundið vonir við, en voru ekki alveg jafn góð og ég hélt. Einum of endurtekningarsamt, já eiginlega vonbrigði bara. Botnleðja, Múm, Ham og Mugison voru svo alveg að standa sig í stykkinu og Kimono skokkaði skítinn úr Andrews.

Nú er bara vonandi að þetta ATP hafi gengið nógu vel til að kýlt verði á aðra hátíð að ári. Með góðu lænöppi ætti þetta að ganga upp og eftir þessa hátíð held ég að hátíðin hafi fest sig í sessi. Fólk fattar að það er ekki óyfirstíganlegt að keyra þennan hálftíma þarna upp eftir. Húrra fyrir ATP!!!

Allt þetta Ásbrúar/Vallar svæði er náttúrlega sorglega illa nýtt. Það er ekki starfssemi nema í svona 1/3 af húsunum þarna. Þegar túristar hafa yfirtekið 101 væri kannski ráð að flytja bara 101 upp á Völl. Þarna eru bestu tónleikahús landsins, fullt af tómum húsum til að búa í, æfa og búa til list og allt til alls nema ég sá hvergi café latte til sölu. Því má auðveldlega redda. 232 – 101 framtíðarinnar?

3 svör til “Allt partíið í gær”

 1. Gauti júní 30, 2013 kl. 11:08 e.h. #

  Epískt fyndin þessi ummæli um Fall-tónleikana! En hvað með Thurston Moore??

  • drgunni júlí 1, 2013 kl. 5:34 f.h. #

   Fór áður en það byrjaði. Skilst á gríðarlegum Sonic Youth aðdáendum að það hafi verið slappt.

 2. Frambyggður júlí 3, 2013 kl. 9:27 e.h. #

  Mér fannst The Fall rosalegir í Austurbæ 2004. Þetta hlýtur það að hafa verið hugþenjandi!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: