Tónleikastaðir í Reykjavík

20 Jún

HiYLt8VGa3K_VSdnbFbGPoihe9ayWHiYU_KnRyJzkyI,PDWr_vbud9G-L-ljCroesSwVLfj8upTFLSNKS5eakOU,dOV726giJmzt2egultQEN36tGNd02VdTw0fy08hL_KQ,VDTFcdbnDc8IumgPfVSMIRILJaGYmGRYYNDHlX7qEaI,9HDM0t7RXJ0foI5vYI9ztCFPqHV2-rQl
(Frá vígslu Sjálfsstæðishússins 1946)
Sirka þar sem Hjálpræðisherinn er núna var einn fyrsti dansstaður Reykjavíkur, „Klúbburinn“, á 19 .öld. Þetta varð illa þefjandi hola þegar á leið – „Var seinast svo komið að  þar vildi helst enginn maður með sómatilfinningu sýna sig,“ segir í grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948.

Fyrstu áratugi 20 aldar var Bárubúð (við Vonarstræti) aðalpleisið, en varð strax sjabbí: „Það er hreinasta hneisa bænum og landinu að þurfa að bjóða nokkrum annara þjóða gestum inn í Bárubúð, eins og hún er: salurinn óhreinn, skjöldóttir veggir, léreftstætlur eftir kvikmyndasýningartjaldið í vetur á veggnum við hliðina á leiksviðinu o. s. frv.“ stóð í blaðinu Ísafold þegar píanóleikarinn Arthur Shattuck kom að spila.

Bíóin urðu síðar helsti vettvangur tónleika og annarra menningarviðburða. Nýja bíó í Austurstræti var vígt árið 1920 (bíóið hafði þó starfað síðan 1912 í öðru plássi) og Gamla bíó við Ingólfsstræti árið 1926 (bíóið hafði haft aðsetur í Fjalakettinum við Aðalstræti síðan 1904). Dansleikirnir fóru fram í sölum hótela. Bar þar hæst Hótel Ísland, sem var í nokkrum timburhúsum á horni Aðalstrætis og Austurstrætis, þar sem nú er Ingólfstorg. Hótelið gekk undir gælunafninu „Landið“ og brann til kaldra kola árið 1944. Hótel Hekla, sem var í Hafnarstræti, var vettvangur ýmiskonar stuðs en Hótel Borg varð það stórglæsilegasta á landinu þegar það var opnað árið 1930. Staðurinn hafði mikil áhrif á skemmtanalíf Reykjavíkur og var sá flottast lengi.

Einnig var dansað í Iðnó, í Oddfellows-húsinu, í Gúttó og á fleiri stöðum, en með opnun Sjálfstæðishússins við Austurvöll (Nasa) árið 1946 þótti komið glæsilegasta samkomuhús bæjarins. Í húsinu sem reist var 1874 hafði Kvennaskólinn haft aðsetur, en þarna voru skrifstofur þegar Sjálfsstæðisflokkurinn eignaðist húsið og breytti því í skemmtistað og höfuðstöðvar flokksins. Þegar verið var að breyta húsinu hafði Mogginn stór orð um þann glæsileika sem í vændum var, en kommarnir á Þjóðviljanum hnussuðu vitanlega í fyrirlitningu: „Þetta hús er ekkert sérlega stórt, aðallega einn samkomusalur, ein hæð. Og það er byggt úr ótraustu efni, holsteini, enda ekki ætlað til frambúðar, það er bráðabirgðahús, einskonar lúxusbraggi.“

Sjallinn varð að Sigtúni 1963 þegar Sjálfsstæðisflokkurinn var fluttur upp í Valhöll og Sigmar Pétursson veitingamaður tekinn við rekstrinum. Árið 1969 flutti Sigtún upp á Suðurlandsbraut, Póstur og sími eignaðist húsið og gamli glæsilegi skemmtistaðurinn breyttist í mötuneyti. Sem Nasa opnaði staðurinn rúmum þremur áratugum síðar.

Í gegnum minn feril hef ég spilað á ótal stöðum sem eru ekki lengur til. Til að mynda Kópavogsbíó og Borgarbíó (í Kópavogi), og Roxzý (einnig þekktur sem Safarí og Casablanca), Café Gestur, Hlaðvarpinn, Duus-hús, Hard Rock Café, Tunglið, Tveir vinir og annar í fríi í Reykjavík. Nú berast fréttir af lokun Faktorý (áður Grand rokk) og svo erða vitaskuld Nasa dæmið allt saman.

Staðir eru bara staðir. Ef einn staður hverfur hlýtur annar að koma í staðinn. „Fíllinn í herberginu“ er auðvitað Harpa, sem er hálfpartinn að gleypa allt annað, ríkis/borgar-styrkt í tætlur sem það er. Áratugum saman höfðu sinfóníugeggjarar kvartað yfir ömurlegri aðstöðu á meðan minna heyrðist í poppurum. Björgólfur gamli setti Hörpu í gang og hélt að hann gæti klárað hana. Annað kom í ljós og ráðendur klóruðu sér í hausnum yfir hálfbyggða monsterinu á hafnarbakkanaum. Dæmið var klárað og við munum súpa seyðið af því í svona 50 ár í viðbót eða eitthvað.  

Úr því sem komið er getum við því kannski sagt að Björgólfur gamli og kvabb sinfóníugeggjara um almennilegan tónleikastað hafi drepið rokkið á Íslandi?

Hvaðan kemur annars rokkið? Úr ríkisstyrktum tónleikastöðum? Hvað voru blökkumannabarirnir í Suðrinu, sukkklúbbarnir í Hamborg, Cavern í Liverpool, Glaumbær, Hótel Borg, Duus-hús og Sirkús annað en mis sjúskaðar holur? Þarf kannski að útbúa einn sjúskaðan sal í Hörpu til að íslenska rokkið/poppið eigi þar almennilega heima? Það kemur lítið út úr flugstöðva/rúllustiga-fílingnum í Hörpu, held ég. Það verður aldrei það sama og vel sveitt hola. Vel sveitt hola sem tekur svona 300-600 manns.

Salur eins og Nasa, sem er eingögnu notaður á kvöldin og kannski bara nokkur kvöld í viku er greinilega ekki „hagstæð rekstrareining“. Einhver þarf að sjá hag í því að opna pláss sem hægt er að reka sem eitthvað annað en tónleikastað á daginn. Veit ekki alveg hvað það ætti að vera samt. Fiskmarkaður á daginn, rokkhola á kvöldin? Allt stinkandi í fiskilykt, væri það ekki viðeigandi og spes!? 

Eitt svar til “Tónleikastaðir í Reykjavík”

  1. Gb júlí 25, 2013 kl. 9:19 e.h. #

    Sigtún flutti 1975 frekar en 74, ég var á einu af 1. böllunum þar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: