Þegar ég smakkaði fyrst túnfisk

17 Jan

tuna

Skrýtið hvað maður man. Ég man varla neitt en samt man ég glögglega eftir því þegar ég smakkaði túnfisk í fyrsta skipti. Það var sumarið 1981 og ég hafði fengið vinnu í gegnum Atvinnumiðlun stúdenta við að grafa fyrir rotþró við einhvern sumarbústað þarna í flotta hverfinu við Þingvallavatn. Það var annar strákur ráðinn til verksins, Kristján Franklin, síðar leikari. Mér fannst það hneyksli að hann hafði aldrei heyrt í Fan Houtens Kókó og aldrei farið á sýnginu í Skruggubúð.

Við vorum þarna og grafa í nokkra daga og fína frúin sem keyrði okkur á staðinn var í bústaðnum. Einn daginn bjó hún til túnfisksalat og gaf okkur ofan á brauð. Þetta var í fyrsta skipti sem ég smakkaði túnfisk því foreldrar mínir voru allt annað en framsæknir í matargerð. Ég hef aldrei smakkað svona salat fyrr né síðar. Í minningunni er það rautt, kannski var tómarsósa í því?

Þetta varð til þess að ég varð túnfisks-sinnaður. Á Interrain nokkrum árum síðar neytti ég allra færa til að panta mér túnfisk í olíu ofan á brauð á börum. Þegar ég lifði á horriminni í Lyon veturinn 1986 borðaði ég eina dós ofan á baguette á hverjum degi.

Ég hef smakkað allar tegundir af túnfisksalati sem fást í íslenskum búðum. Sumar eru vondar, aðrar ágætar, en ég get bara ómögulega munað hvort er hvaðan. Kannski er besta túnfisksalatið sem hægt er að kaupa úr búð frá Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Það er mjög gott.

Á Café Valný á Egilsstöðum búa þau til allsérstakt túnfisksalat og selja manni á ristuðum beyglum. Ég kóperaði þetta salat eftir að ég smakkaði það og geri það stundum heima. Það er sirka svona: ein dós túnfiskur í olíu + 2/3 krukka af fetaosti í olíu + slatti af niðurskornum rauðlauk og slatti af maísbaunum. Öllu hrært saman. Þetta er mun betra en lýsingin segir til um.

Ég auglýsti eftir góðum túnfisksalatsuppskriftum á facebookinu áðan og fékk nokkrar:

Sigurður Hjaltested: Hér er ein frá Spáni.  Túnfiskur, skinka, grænn aspas, laukur, olivur, egg (harðsoðin), majo. Blandar þessu saman og svo salt og pipar. Ekki mikið af majo. Þetta er alger snilld.

Sigurbjörg María Jósepsdóttir Dalek: Ég kaupi venjulega eina dollu af tilbúnu túnfisksalati, því hingað til hef ég ekki fundið nógu litla dollu af majonesi. Treð svo 1-2 dósum af túnfiski í vatni með, 2-3 harðsoðin egg, hellingur af rauðlauk, smátt niðurskornar svartar ólífur eftir smekk bara og þá er þetta bara komið gott. Kannski smá salt eða pipar.

Björn Kristjánsson: Mér finnst best að gera með túnfiski, rauðlauk, eggjum, chilli, ólífum, capers og stundum rifnum gulrótum. Svo geri ég subbu með majó ef ég er í þannig stuði, heilsu með kotasælu ef ég er í þannig stuði og og með grískri jógúrt eða sýrðum rjóma ef ég er í svona mitt á milli stuði.

Magga Örnólfs: Ég mæli með að setja bæði kapers og smátt skorna sólþurrkaða tómata, þá skiptir varla máli hvað restin er, alltaf gott.

Magnús Wolfgang Hreggviðsson: Túnfiskur, gróft skorið avocado, rauðlaukur, chili, lime, kotasæla, kóríander, salt & pipar.

Frú Guðrún Lilja Hólmfríðardóttir: Einfalt er yfirleitt best! Majó eftir smekk í skál, krydd eftir smekk, fínsaxaður laukur eftir smekk, 1 dolla túnfiskur í vatni og 2-3 harðsoðin egg, klikkar ekki.

Kristín Ólafsdóttir: Túnfiskur í vatni, 1/2 dós kotasæla, smá rauðlaukur smátt saxaður, paprika smátt söxuð, smá sólþurrkaðir tómatar og ólífur svartar og grænar. Öllu blandað saman. Geymist í ísskáp í nokkra daga. Geri oft þessa uppskrift og geri hana tvöfalda. Ef ég nenni ekki að elda á kvöldin þá geri ég heita samloku úr þessu úr glútenlausu og hollu brauði og rista hana. Set vel af jukkinu á milli og oft magran ost með. Kotasælu on the side sem sósu… Voila: holl og góð samloka á mettíma.

Siggi Bach: Gera hefðbundið salat! Mæjó, Túnfiskur og Egg, í staðinn fyrir lauk hafa Relish og setja smááá Chili tómatssósu. Besta ever!

Kannski er þetta síðasta það sem fína frúin á Þingvöllum gaf okkur Kristjáni Franklín? Gott ef ekki!

3 svör til “Þegar ég smakkaði fyrst túnfisk”

 1. Tomas janúar 18, 2013 kl. 11:25 f.h. #

  Túnfisksalat eða túnfiskur í dós hefur mér aldrei þótt merkilegur matur, svo ég hafi nennt að eltast við. En þverhandarþykk túnsfisksteik er algert sælgæti. Þú ættir að reyna að verða þér úti um eina svoleiðis og pönnusteikja.

  • drgunni janúar 18, 2013 kl. 2:30 e.h. #

   Jú einmitt. Þarf að gera meira af því. Svo er þetta líka fínt í sushi.

   • Tomas janúar 18, 2013 kl. 9:55 e.h. #

    Munurinn á ferskum túnfisk, eða niðuroðnum er eins og að hafa aldrei smakkað fersk jarðarber eða ikirsuber. Alltaf hafa sætt sig við að hafa etið þau upp úr niðursuðudós.

    Ferskur túnfiskur er veisla, niðursoðin er næring.

    Á því tvennu er mikill munur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: