Sarpur | nóvember, 2012

Ótrúlegt: Meiri góð músík!

6 Nóv

Já góðan daginn! Ég veit ekki um þig, en mér finnst 2012 búið að vera alveg geðveikt í íslensku tónlistinni og hver snilldar platan af annarri búin að koma út. Yfir línuna er þetta allt saman mjög „vandað“ og gott, og ef maður á að kvarta smá þá er það kannski að það vantar grófleika, djöfulgang og lífshættu í það sem hefur verið að koma út. Það eru allir að klappa manni á bakið en enginn að sparka í punginn á manni eða öskra á mann (vitleysingar athugið: Þetta er myndlíking á áhrif tónlistar – ekki sparka í punginn á mér!) Hér kemur smá í viðbót:


https://drgunni.files.wordpress.com/2012/11/track-02.mp3Pétur Ben – God’s Lonely Man
Með seinni skipunum í ár er platan God’s Lonely Man með Pétri Ben. Þetta er hans önnur sólóplata, Wine for my weakness kom út 2006. Platan er íhugul og pæld, músíkin gítarrokk með óvæntum breytum og á einhvern undarlegan hátt minnir sumt hérna mig á áströlsku hljómsveitina Crime & The City Solution, sem er ekkert einu sinni víst að Pétur hafi heyrt í. Þetta dúndurgóða efni er væntanlegt á cd eftir sirka 2 vikur.


Megas – Karí
Megasar-aðdáendur fá tonn í skóinn, heilan fjögurra diska pakka þar sem boðið er upp á best of, óútgefið og sjaldheyrt efni. Hér er Whammískur slagari sem hefði sómt sér vel á Loftmynd. Í öðrum Meggískum tíðindum er það helst að textasafn er væntanlegt á bók um miðjan mánuðinn. (Mynd: Megas fer yfir texta í Geimsteini 2011 – Úr Stuði vors lands).


Tónlistarkonan Jara hefur gert videó við lagið Hope. Logi Hilmarsson leikstýrir. Þetta er dúndursveppatripp á fjöllum með Andrea Jóns og allskonar Jodorowskísku tribal flippi. Jara kemur eflaust með plötu á næsta ári.


Og nú hefur Eiríks Fjalars-lúkkalækið David Fricke komið með Airwaves umfjöllun sína í Rolling Stone. Meistarinn er að sjálfssögðu hrifinn og ekki síst af Erlingi Björns og Einari Erni!

Brennisteinn Sigur Rósar

5 Nóv


Sigur Rós spilaði frábært gigg í Laugardalshöll í gærkvöldi og lokaði magnaðri Airwaves hátíð – líklega þeirri best heppnuðu til þessa. Jónsi og bandið var frekar drungalegt á því útlitslega séð, allt dimmt og svart á sviðinu, en stemmningin var oft mögnuð því ljós og myndskeið bjuggu til stórfenglegan hjúp á risasvaxinni sviðsmyndinni. Þetta var eins konar best of sett og allt vaðandi í konfekti. Röð laga svohljóðandi:

Lagið í gær
Vaka
Ný batteri
Svefn-g-englar
Sæglópur
Viðrar vel til loftárasa
Hoppipolla + Með blóðnasir
Olsen olsen
Glósóli
Festival
Varúð
Hafsól
Ekki múkk
Brennisteinn
Popplagið

Mest spenntur var maður fyrir nýja laginu Brennisteinn, sem hljómaði þegar til kom sem einskonar bútasaumur af Sigur Rós, Nine Inch Nails og Coldplay (sjá myndband að ofan). Þetta er lag sem lofar mjög góðu fyrir næstu plötu sem von er á á næsta ári. Mér segist svo hugur að Valtari sé einskonar snarl, en að næsta plata verði hlaðborð. Mjög, mjög spennandi.

Sigur Rós sýndi það í gærkvöldi að það er engin tilviljun að þetta er flottasta og fræknasta band sem klakinn hefur alið – og er þó af þónokkru að taka.

Bannaðir blökkumenn í Reykjanesbæ

4 Nóv

Fór með Dagbjarti á fótboltamót í Reykjaneshöllinni. Þar er undarlegt skilti:

Hvað þýðir þetta? Ég held að þetta eigi að þýða: Blökkumenn með stór eyru mega ekki blása upp bleika blöðru hér inni, og: Blökkumenn með stór eyru mega bara borða eitt grænt Opal hér inni, en ekki þrjú – en einungis ef þeir brosa á meðan.

Annars er það helst að frétta úr Kef að Villaborgari er alltaf jafn æðisgenginn og algjört möst fari maður til Kef. Ef þú fílar ekki Villaborgara eru svo náttúrlega  nokkrir aðrir staðir í Kef sem selja borgara!

Ljúfsturlaður dagur á Airwaves

3 Nóv


Þetta óveður í gær var nú algjört met. Helvíti skemmtilegt krydd í Airwaves nema maður hafi slasað sig – þá var þetta bara ekkert fyndið. Merkilegt hvað allir fara samt strax að glotta og hlæja þegar maður segir þeim að einhver hafi fokið. Forsíðumynd Fbl í dag eftir GVA er gjörsamlega geðveik og toppar photosjoppið af hvalnum.


Aðalstuð dagsins var að rokka Bókabúð Máls og menningar í útgáfuteiti Stuð vors lands. Það hófst með góðu doktoragríni þar sem Jakob Frímann Magnússon veitti mér doktorsnafnbótina aftur, og meira en það: Nú er ég heiðursdoktor. Þá veistu það! Eftir doktorsgrínið tókum við lagið Hörkuflykki sem syntaband Jakobs The Magnetics flutti snemma á 9. áratugnum. Það þótti við hæfi miðað við stærð stuðrantsins.


Næstur kom Holy B og reif þakið næstum af kofanum. Það hefði þá verið annað húsið sem missti þak á Laugaveginum þann daginn. Við tókum Grafík-slagarann 16 og Helgi toppaði gjörsamlega giggið strax í öðru lagi með því að ganga alla leið í stuðinu.


Eða það hélt maður þangað til Felix kom og tók Útihátíð Greifanna í gríðarlegu pönki enda æfingar á laginu í lágmarki. Ef ég hefði vitað 1987 að 25 árum síðar yrði ég að spila Greifalag í bókabúð hefði ég að öllum líkindum kálað mér!


Erlingur Björnsson tók I don’t care með okkur af tærri snilld. Lagið er eitt af sex á 6-laga plötu Thor’s Hammer (Hljóma), Umbarumbamba, sem er dýrasta plata Íslandssögunnar á safnaramarkaðinum.  Þetta er mikil föss-snilld (Gunni Þórðar hafði nýlega keypt sér fösspedala í Rín þarna 1965), frábær sixtís bílskúrs-rokkari með fokkjú texta eftir Pétur Östlund.

Nú kom Ari Eldjárn og fór með popptengd gamanmál. Það hlógu allir svo mikið að atburðurinn náðist ekki á mynd.


Ragga Gísla bylti íslenska karlalandsliðinu í stuði þegar hún kom með Grýlurnar. Því vel við hæfi að hún bylti líka þessu útgáfukarlasamsæti. Tók Sísí með okkur og Grímur þurfti að sitja til að ná flóknu bassasólói Herdísar Hallvarðs. Frábært!


Síðasti leynigestur kvöldsins var Einar Örn sem tók Purrkslögin Gluggagægir/Í augum úti með okkur. Ef hægt var að toppa það sem á undan hafði komið þá tókst það með þessu. Allir voru með gæsahúð eða fóru að grenja (held ég). Allavega ég! (Allar þessar flottu ljósmyndirnar af gigginu koma héðan af þýska vefritinu Inreykjavik.is. Svo var þetta allt tekið upp á videó og verður sett á Youtube við alfyrsta tækifæri!)

Maður dúllaði sér svo aðeins á Hörpu um kvöldið. Apparat voru næs þótt Jóa vantaði, Pétur Ben spilaði lög af nýrri plötu og var góður, Hjálmar og Jimi Tenor voru þrældöbbaðir á því með einskonar raggímetal eða ég veit ekki hvað. Samstarfsplatan þeirra kemur út snemma á næsta ári. Hápunkturinn í Hörpu í gær var þó franska bandið Shiko Shiko frá Normandie sem svoleiðis vann mann á sitt band með einskonar Amelie-pönki þar sem allt gat gerst og menn fóru hamförum. Magnað stöff.

Svo bara meiri gleði í kvöld. Þá má alls ekki missa af Dirty Projectors!

Teiti + Rýmingarsala

2 Nóv

Þetta helvíti í dag kl. 18:

Og svo þetta um helgina:

+ Airwaves á fullu. Jess sör æ kan búggí.

Airwaveshátíð í bæ

1 Nóv


Þá er hátíð í bæ. Airwaves hátíð í bæ. Annað árið í röð stend ég vaktina í media center og festi armbönd á íslensku tónlistarmennina. Þetta er ljúft verk og löðurmannlegt enda ekki nema svona 700 íslenskir músíkantar sem þurfa að fá armbandið sitt. Hér er Lay Low mætt.

Búi maður í Rvk sér maður sömu andlitin dag eftir dag í mengi smáborgarinnar.  Yfir Airwaves fyllist allt af nýjum andlitum, oftar en ekki eitthvað ægilega hipp og kúl frá vel lyktandi heimsborgum. Miðbærinn breytist í stórborg í nokkra daga. Þetta er frábær tími.

Fyrir utan rosalega almenna dagskrá er svo offvenue-pakkinn sem er sneisafullur af dúndur stöffi. Offvenue-giggin eru öll ókeypis og hægt að detta fyrirvaralaust inn á gott stöff út um allan bæ. Halelúja!