Hugrenningar á hjóli

1 Okt

Eins og komið hefur fram er fátt skemmtilegra en að hjóla um höfuðborgarsvæðið í góðu veðri. Í gær var þetta fína veður og ég skrapp á fákinn. Gott á morgnanna þegar allt er ferskt og enginn á ferli nema einstaka túristi að mynda Hörpu eða Sólfarið. Það verður ekki af því skafið að útsýnið til Esjunnar er glæsilegt. Ætli maður stígi einhvern tímann fæti á Engey?


Borgarbíóið á Smiðjuveginum starfaði í nokkur ár í kringum 1980. Nú er þar bílaleiga. Þetta var alræmt b-myndahús, sýndi klámmyndir í 3d og allskonar stuð. Ég fór þarna oft, sá m.a. Quadrophenia og Breaking Glass. Ég spilaði þarna líka einu sinni á laugardagseftirmiðdegi í ágúst 1980 með Fræbbblunum, Utangarðsmönnum og Kjarnorkublúsurunum (sem síðar áttu eftir að verða að hljómsveitinni Box). Þá var ég í hinni merkilegu pönksveit F/8. Ég man ekki mikið eftir þessu giggi, eiginlega bara það að í miðju setti með Fræbbblunum þurfti Stebbi trommari að fara fram að skíta. Varð að þessu nokkur skemmtun meðal hljómleikagesta, sem voru fáir.


Hvað er málið með turn kapítalismans við Smáralindina? Verður þetta aldrei klárað? Sumir hefðu viljað að Harpa liti svona út í dag. Ég hjólaði þarna framhjá um daginn þegar það var nokkur strekkingur. Þá hvein í þessu eins og verið væri að stinga mammon í rassgatið með heykvísl. Datt mér þá í hug eftirfarandi ljóðlína Ómars Ragnarssonar, sem mér hefur alltaf þótt skemmtileg:

Næðir dimm um grund
norðanhríðin köld
Nauðar rjáfrum í
seint um vetrarkvöld.
Í svartamyrkri gljúpu
svefninn linar þraut
Sveitapiltsins draumur
ber hann þá á braut.


Sagnfræðin verður ljóslifandi í hrauninu á milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Það er stígur í gegnum hraunið og rétt hjá Ikea sér maður þennan gamla atvinnubótaveg með viðeigandi skilti. Sem sagt, ekki þarf að fara langt til að sjá eitthvað sem maður hefur aldrei séð áður.


Hvergi er betra að hugsa og íhuga en í verksmiðjuhverfum. Verksmiðjuhverfið í Hafnarfirði er líklega besta verksmiðjuhverfi á landinu, en það hefur þó ekki verið endanlega ákveðið  af meðlimum í Samtökum áhugamanna um verksmiðjuhverfi (SÁUV).


Er þetta ekki örugglega the original home of the legendary VALUR ketchup í Kópavogi? Og hvað er í gangi með húsið? Býr einhver þarna? Það er allt í órækt í garðinum og húsið sést varla fyrir villigróðri. Þess má geta að Valstómatsósa er enn framleidd og m.a. borin fram á Roadhouse þar sem hún smakkast eins og flís við rass við hinar frábæru frönsku sem þar fást.

5 svör to “Hugrenningar á hjóli”

 1. Óskar P. Einarsson október 1, 2012 kl. 1:00 e.h. #

  Hjólreiðatúrar um undarlega bakgarða höfuðborgarsvæðisins taka alla bílrúnta í nefið. Sammála með verksmiðjuhverfin – er búið að stofna SÁUV ennþá? Legg til að eitthvað hressandi með Einstürzende Neubauten verði gert að þjóðsöng SÁUV.

  • drgunni október 1, 2012 kl. 1:09 e.h. #

   SÁUV verður formlega stofnað þegar um hægist. Á FB þá einna helst!

 2. Ari október 1, 2012 kl. 9:06 e.h. #

  Veit um fátt meira niðurdrepandi en þetta iðnaðarhverfi í H.fj. , jú kannski Helluhverfið móti álverinu, það er enn leiðinlegra. Ómar Ragnars gerði Stikluþátt þar sem hann fjallaði m.a. um held ég þennan atvinnubótaveg, átti ekki að koma lest þarna? p.s. Hvað með Hlíðarsmára 4, alltaf stendur hann eins líka, má bjóða þér að leigja: http://www.reginn.is/eignir-regins/eignir/nr/44

  • drgunni október 2, 2012 kl. 5:02 f.h. #

   Nokkrar nöturlegar leyfar góðærisins í Gunnars Birgissonar Kópavogi…

 3. Helgi Viðar október 2, 2012 kl. 7:30 e.h. #

  Ég hef það fyrir satt að öngvir tómatar séu Vals tómatsósunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: