Sarpur | ágúst, 2012

Alvöru útrás!

22 Ágú


Ef við (þ.e. við, þessi sem hírumst á þessu fáránlega skeri) erum góð í einhverju þá er það að búa til dægurtónlist, a.m.k. dægurtónlist sem lesendum hipsterabibblíunnar Pitchforkmedia líkar við. Nú hefur netmiðillinn birt lista yfir 200 bestu plötur áranna 1996-2011 (fyrstu 15 árin sem netsíðan hefur verið starfandi). Lesendur netsíðunnar fengu að nefna plötur í valinu, alls voru 116.009 plötur nefndar af 27.981 kjósendum.

Og sjá: Þarna eru heilar FJÓRAR ÍSLENSKAR plötur.

45 SIGUR RÓS Ágætis Byrjun
51 BJÖRK Homogenic
69 SIGUR RÓS ( )
136 BJÖRK Vespertine

Ok, kannski ekki mikil fjölbreytni í þessu, en þetta er nú alveg helvíti gott miðað við þjóð upp á rúmlega 300.000 manns. Og enn ein „sönnun“ þess að Ágætis byrjun sé besta íslenska platan í heimi.

Listinn er hér.

Japandroids á Gauk

21 Ágú


Óhætt er að mæla með tónleikum kanadíska dúósins Japandroids á Gamla Gauknum annað kvöld (22. ág). Bandið hefur gert tvö albúm og þykir gríðarlega gott á tónleikum, þótt þetta séu bara tveir gaurar á trommur og gítar. Músíkin er kraftpönkrokk, eða hvað þú vilt kalla það. Mér finnst einhver Bruce Springsteen-ískur fílingur í þessu, svona gallabuxnarokk, en samt er þetta ægilega hipp og kúl og hipsteraheimilið Pitchfork slefandi yfir bandinu. Internetið er náttúrlega stútfullt af efni með þeim, en hér má sjá þá rúlla upp nýjasta singlinum á tónleikum.

Norskt og amerískt gos

21 Ágú

Manni er svoleiðis haldið við efnið í gossmökkuninni. Guðjón Örn Emilsson sendi mér þrjár flöskur frá Noregi, en hann var þegar búinn að senda mér þrjár aðrar flöskur (sjá gamla gos). Norðmenn eru ægilegir sykurkarlar og greinilega mikið fyrir sætt og svalandi.

Oskar Sylte Brus med Bringebærsmak  er gos með hindberjabragði, ekki tiltölulega spennandi en alveg fínt, ískalt með klökum. Það er minnst sætt af gosinu sem Guðjón sendi. Tvær stjörnur.

Villa gosdrykkurinn mun áður hafa heitið bæði Villa Farris og Villa Champagne. Hann er ljósbrúnn á lit, dísætur og minnir smá á íslenska Pólóið eða svona asískt cream soda eins og maður hefur smakkað. Eiginlega full sætur og væminn fyrir minn smekk og er þá mikið sagt. Samt alveg fínt og upp á tvær eða þrjár stjörnur. Ég myndi segja tveir og hálfa en hálfar stjörnur eru ekki leyfðar í þessu stjörnukerfi.

Svo er það Röd Brus, Rautt gos, sem er framleitt af Roma í Lillestrøm. Það ku bragðast eins og svokallað Jólagos sem kemur í verslanir í Noregi í lok nóvember. Hjá Norðmönnum eru enginn jól án Jólagoss. Á flöskumiðanum er mynd af frekar krípí trúði og innihaldið er dísætt og alveg ókei, jafnvel ekki ósvipað rauðu cream soda frá asíu sem stundum fæst í asíubúðunum hér. Krökkunum fannst þetta voða gott. Tvær stjörnur.

Airwaves-farinn Bryan Riebeek kom með slatta af gosi fyrir mig á síðustu hátíð. Ég átti eftir að tjá mig um tvær tegundir sem hann kom með.


Boston Tower Root Beer er a.m.k. með fallegan flöskumiða. Ágætis stöff alveg hreint, en svo sem alveg án sterkra einkenna sem skilja þennan drykk frá mörgum öðrum. Samt auðveldlega sólidd þrjár stjörnur.


Svo er það Fever Tree Ginger Beer, sem kemur frá London. Fever Tree framleiða litlar flöskur af blöndunarvörum en engifergosið má þó alveg drekka eitt og sér. Er alveg ljómandi gott, kraftmikið en þó einstaklega ljúft. Ekki með þessu sápu-eftirbragði sem maður finnur oft af engiferöli. Þrímælalaust fjórar stjörnur á það.

Hveragerði í dag

19 Ágú


Aðalstuðið í dag er í Hveragerði. Þar tökum við Heiða smá barnaprógramm kl. 14:30. Þetta er hluti af Blómstrandi dögum 2012, en prógrammið má sjá hér. Áfram Hveragerði!

Enn um konur og spurningakeppnir

18 Ágú


Þessi mynd var send til mín af aðila sem kýs að vera nafnlaus. Myndin var tekin í anddyri MR haustið 2010. Ég hef fótósjoppað yfir eftirnöfn nemanda. Eins og sést hefur ein stúlka mætt í forprófið í Gettu betur, en 24 strákar. Ég veit ekki hvernig kynjahlutfallið er í MR en það kæmi mér ekki á óvart ef konur væru þar í meirihluta. Þær eru a.m.k. ekki 4% nemenda svo þetta er ansi sláandi mynd.

En eins og ég sagði í gær: Við höldum áfram að reyna enn betur í kynjahlutfallamálum Popppunkts í framtíðinni.

Hinn karllægi Popppunktur

17 Ágú

Á Knúzi og Smugunni er réttilega bent á yfirþyrmandi kvenmannsleysi í PP sumarsins. Í sumar munu 8 konur en 34 karlar keppa, það er 19% hlutfall kvenna = Lélegt.

Við leituðum til allskonar kvenna til að koma í þætti sumarsins. Felix hringdi í allavega fimm háskólakonur – konur sem líklegar voru til að vilja koma af því þær væru vel að sér um popp. Hann reyndi að fá þær í þáttinn en allt kom fyrir ekki. Engin þeirra treysti sér til að mæta og svara spurningum um popptónlist. Hann hefði náttúrlega átt að hringja í 5 í viðbót. Eða 10. Þetta gekk betur í öðrum liðum, til að mynda í „heilsufæði“ og leikskólakennurum, sem voru lið skipuð 2 konum og 1 karli.

Í hljómsveitarkeppnum hefur kvennaliðum ekki gengið alltof vel. Það er verið að spyrja um allskonar poppnördisma og sennilega eru bara (því miður) alltof fáar konur sem leggja sig eftir svoleiðis fróðleik. M.ö.o. Popppunktur er karl-lægur þáttur. Sorrí með það.

Eitt sláandi dæmi var þegar við fengum Amiinu í þáttinn. Auðvitað vildum við fá 3 stelpur til að mæta en það mætti ein og tveir strákar sem voru nýbyrjaðir í sveitinni.

En ég ætla ekkert að afsaka mig eins og einhver tafsandi karlpungur sem er kominn út í horn. Við vitum upp á okkur sökina og viljum gera miklu betur.

Talandi um kvenvæðingu og popp þá er nú aldeilis annað sem mætti kvenvæði enn frekar og það eru Músiktilraunir. Samkvæmt mínum útreikningum voru  bara 15% stelpur í keppninni í vor.

Til enn frekari eflingar bendi ég á mixin Songs written and sung by Icelandic women og 30 great woman-led songs from about 1980.

Næst síðasti Popppunkturinn

17 Ágú


Lið Bílamanna – tryllir í Hjólafólk


Lið Hjólafólks – hjólar í Bílamenn

Næst síðasti leikur í míní-Popppunkti (Barátta stéttanna) er í kvöld kl. 19:35. Lið Bílamanna etja kappi við lið Hjólafólks. Svo er bara einn leikur til á föstudaginn eftir viku. Sjálfur úrslitaleikurinn. Kemur í ljós í kvöld hvort Lið Bílamanna eða Hjólafólks skákar stigametum Stóriðju (49 stig) eða Lífsskoðunarmanna (46 stig) og kemst í úrslitaleikinn, sem verður, já, GLÆSILEGUR!

Hitt Skálafellið

16 Ágú

Það eru tvö Skálafell í nágrenni Rvk. Þetta hjá Esjunni, þangað er vegur upp og eitthvað rafdæmi í húsi á toppnum. Hitt Skálafell er á Hellisheiði. Maður hefur það á hægri hönd þegar maður keyrir til Hveragerðis. Ekkert stórmerkilegt fjall svo sem, ekki nema 574 m.y.s., en maður átti það alveg eftir. Skruppum því í dag feðgarnir.


Á leiðinni upp þurfti að ganga í allavega 90 mín að fjallinu sjálfinu. Það er örugglega hægt að leggja nær samt. Það var slatti af berjum á leiðinni, aðallega kræki, smá blá, en svo heitt að ég þurfti að ganga ber að ofan. Ég er ógeðslega loðinn á bakinu en það var enginn þarna, nema kannski Russell Crowe í þyrlu sem var alltaf að fljúga yfir. Sáum annars ekkert í kvikmyndabúðirnar í Þrengslunum. Enda hef ég engan áhuga á því, finnst þessi Aronofsky mjög ofmetinn og leiðinlegur. Veit ekkert hverjir þessir leikarar sem er alltaf verið að segja manni frá eru, nema náttúrlega Rösselinn.


Dagbjartur nennti þessu ekki og vildi hætta við. Bar fyrir sig þreytu. Þá lofaði ég honum barnaboxi á Metró ef hann kæmi alla leið. Skipti engum togum að í hann hljóp gríðarleg orka  og hann fór létt með þetta. Hér erum við á toppnum. Þar sést í allar áttir en það var mistur svo maður sá ekki alveg austur á Eyjafjallajökul. Sáum Surtsey samt. Hún er dálítið stór.


Aftur til baka í bílinn og þá átti maður svo sannarlega skilið trakteringar í eðalbúllunni Litlu kaffistofunni. Flatkökur og kók á línuna Hemmi minn og Snickers að auki. Í Litlu er knattspyrnusögusýning. Allir í Litlu kaffistofuna!

Stóra pönnukökumálið

13 Ágú

Elísabet Lára, fimm ára dóttir mín, vill fá pönnukökur á sunnudögum og engar refjar. Uppáhaldskaffihúsið hennar (og okkar hinna í fjölskyldunni líka) er C is for Cookies á Óðinstorgi. Þar getur hún gúffað í sig allt upp í fjórar pönnukökur. Pönnukökuverðin eru góð þar, 100 kr stk. Mér dettur ekki í hug að fara annað og borga allt upp í 200 kr fyrir stk.

Í gær var C is for cookies lokað og því góð ráð rándýr. Mamman var að tína ber á Vestfjörðum svo  treysta varð á vankað innsæi mitt.

Nú eru íslenskar pönnukökur og amerískar pönnukökur ekki það sama, en mér tókst að selja Elísabetu það að fá sér amerískar í þetta skipti og það ofan í kjallara á Laundromat, sem er svo skemmtilegur staður, mannstu ekki? Eins og við höfum heyrt í allt sumar er metfjöldi ferðamanna á landinu og þeir voru allir á Laundromat þegar við komum þangað, 500 þúsund talsins.  Ekki vinnandi vegur að komast að. Fórum yfir í Hafnarhúsið á einhverja leiðinlega sýningu en það var alveg jafn fullt á Laundromat þegar við komum aftur. Fer nú þessu túristafargani ekki að ljúka svo maður fái sæti? Er ekki bara hægt að reisa annað álver eða eitthvað til að vinna upp á móti þjóðhagslegum áhrifum?

Man ég þá eftir Gráa kettinum. En nei nei, þar lokar eldhúsið kl. 14 á sunnudögum og við of sein. Þetta stefndi allt í harmleik en þá sáum við Eldur og ís neðarlega á Skólavörðustíg og ég gat selt Elísabetu það að frönsk pönnukaka með Nutella væri rosa góð. Sem hún var.

Áhugafólk um alþjóðasamskipti getur lesið eitthvað út úr þessari frásögn ef það vill.

Sá í blaði að bassaleikarinn góðkunni, Bragi Ólafsson, er orðinn fimmtugur. Hann er einn af þeim sem er of kúl til að vera (eins og fábjáni) á Facebook svo ég óska honum til hamingju hér – til hamingju! Ég var einmitt að klára bók hans Gæludýrin sem er ógeðslega góð.

 

Matarmikill Popppunktur!

10 Ágú

Popppunktur heldur áfram í kvöld, hin æsispennandi Barátta stéttanna. Þáttur kvöldsins byrjar kl. 21:45 en við höfum aldrei verið á sama tíma tvisvar í röð, held ég, þökk sé helv hinum frábæru Olympíuleikum. Liðin koma úr sitt hvorum enda matarmenningarinnar (ef svo má segja), við erum að tala um:


Hamborgaraforkólfa


sem mæta Heilsufæðisforkólfum

Nú er að sjá hvort kjöt eða grænmeti er betri undirstaða fyrir poppspeki og einnig verður spennandi að sjá hvort liðin vinna sér inn nógu mörg stig til að komast í sjálfan úrslitaleikinn. Hann (þ.e.a.s. úrslitaleikurinn) verður svo sannarlega GLÆSILEGUR eins og Felix er búinn að vera að röfla um í allt sumar.