Stöðugur straumur eðalefnis

8 Ágú


Stöðugur straumur eðalefnis vætlar út í loftið að vanda. Hvað mig áhrærir býst ég við miklu af komandi plötum Ojba Rasta og Retro Stefson, en þá miða ég við það sem ég hef þegar heyrt frá þessum hljómsveitum. Retroið ku væntanlegt mjög fljótlega en Rasta aðeins seinna. Hinir eldhressu Borko og Prinspóló koma líka vonandi með plötur, gott ef ekki Ásgeir Trausti líka og alveg haugarnir af einhverju geggjað góðu. Sé ferðinni heitið til Patrektsfjarðar um helgina má geta þess að Prinspóló verður á Pönki á Patró á laugardaginn, þeirri frábæru hátíð.

Af útgefnu eðalefni gleður margt. Má fastlega búast við að þessar plötur blandi sér sterklega í báráttuna um „bestu plötur ársins“:


 Ghostigital – Hovering Hoover Skates
Ghostigital-flokkurinn er mættur með mjög góða plötu, bísna aðgengilega þótt hún sé gallsúr og glerílát.


 Innvortis – Litháen
Innvortis hópurinn pönkar stíft og hnitmiðað á annarri plötu sinni. Dúndur heilalím þar í öllum hornum og helíumblaðra.


 Celestine – Bitterman
Gríðarþéttur djöfulgangur bíður svo þeirra sem leggjast niður með nýju plötu Celestine-hópsins. Bölvað vesen og  vindþurrkaður hákarl.


 Kristmann Op – Týnd slóð
Hinn mjög svo dularfulli tónlistamaður Kristmann Op sendi mér nýtt lag, Týnd slóð. Þar eru eitísvíbrarnir keyrðir áfram eins og í hinu fína lagi Hátt fjall, sem ég bloggaði hér inn í apríl. Skv. emailinu er Kristmann Op að vinna að sinni fyrstu plötu sem er væntanleg í haust.


Þá er von á Sculpture, nýrri plötu Sudden Weather Change. Hana má hlusta á hjá Gogoyoko. Plötunni fylgir heimildarmynd sem verður sýnd á morgun. Hér er fréttatilkynningin:

Popp/Tónar #5. // Bíó Paradís Concert sessions #5 – Thursday 9th August
Í heimildarmyndinni ,,Sudden Weather Change: Ljóðræn Heimildarmynd,“ fylgist leikstjóri myndarinnar, Loji Höskuldsson, með ári í lífi íslensku rokkhljómsveitarinnar Sudden Weather Change. Loji er jafnframt gítarleikari og söngvari SWC. Fylgist hann með árangri hljómsveitarinnar eftir að hún vann Björtustu Vonina á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2009. Í myndinni fær áhorfandinn að skyggnast inn í stuttan evróputúr, upptökuferli og hugarheim hljómsveitarmeðlima.
Ókeypis verður á viðburðinn sem hefst í Sal 1 klukkan 22:00.

Hin ellimóða rokkabillíbyltingin er síst í rénum. Hingað er von á ægilegum nagla, Bloodshot Bill, sem er aðalið á Rokkabillí sprengju aldarinnar!

Kanadíski rokkabilly-boltinn Bloodshot Bill lýkur hljómleikaferð sinni í Evrópu með hljómleikum á Gamla Gauknum 11. ágúst. Tónlistarferill Bloodshots Bills hófst 1998. Síðan þá hefur hann spilað með fjölda hljómsveita (ýmist á trommur eða gítar) og í dúettum.
Sólóferillinn er samt hans aðal. Þá er hann eins-manns-hljómsveit: Spilar samtímis á gítar og trommur ásamt því að syngja. Til að svoleiðis komi vel út þarf viðkomandi að vera fjölhæfur gítarleikari, taktvís og kröftugur á trommur og búa yfir blæbrigðaríkum söng. Allt eiginleikar Bloodshots Bills. Til viðbótar er hann mikill grallari og kryddar tónlistarflutning sinn með húmor.
Bloodshot Bill hefur sent frá sér fjölda platna, bæði smáskífur og plötur í fullri lengd. Sú nýjasta heitir „Thunder and Lightning“. Músíkin er hrátt og fjörlegt rokkabilly sem getur farið út í pönkabilly í bland við ljúfari tóna. Langi Seli og Skuggarnir hita upp.

Kempuna má sjá í aksjón á Youtube, en hér er titillag nýju plötunnar, sem eðalmerkið Norton Records gefur út.


Langt er síðan heyrðist í hljómsveitinni Stolið, en nú er komið nýtt lag og videó! Þar ber helst til tíðinda að Danny Pollock er aðalið í myndbandinu á hinum gullfallega kagga sínum. Hér er vídeóið á Youtube og hér er lagið á SoundCloud: http://soundcloud.com/stolid/dagurinn.


Talandi um Danna Pollock. Bodies hafa sett út tromp – 30th Anniversary 1982 – 2012, tíu laga rokkslummu sem má sjúga upp með röri á Gogo.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: