Með Braga í tjaldi á Hornströndum

25 Júl

Við fórum loksins okkar fyrstu ferð á Hornstrandir, ég, Trausti og Biggi. Trausti tók þessar myndir á símann sinn.

Við sigldum til Hesteyrar frá Ísafirði. Rúmlega klukkutíma stím. Rosa gott veður og menn til í tuskið.

Gengum yfir Hesteyrarheiði yfir í Látra í Aðalvík. Það er rosa fallegt þarna, mikil náttúra og maður æstist allur upp við að losna við nútímann í smá stund. Helvítis leiðinda nútíma með sína samfélagsmiðla (gubb), nýjustu tækni í samskiptum (æl) og endalaust fjas og röfl um ekki neitt. Nei nei.

Við vorum ekkert að flýta okkur þarna yfir, en svo var tjaldað í Látrum. Mitt er þetta bláa lengst til hægri, eins manns tjald úr Ellingsen. Það er ákveðin áskorun í þessu. Smá hjartsláttur yfir því að það kæmi geðveikt veður og allt færi á flot eða maður fyki hreinlega út á sjó. Svo er líka spurningin um kúkinn. Hægt að míga hvar sem er en aðeins meira mál að kúka á víðavangi. Það er ágætis kamar á Látrum svo þetta atriði slapp nú alveg. Maður kúkaði bara fyrir daginn eftir vel sterkan kaffibolla í morgunmat. Ekkert mál.

Ég var með Hvíldardaga Braga Ólafssonar í tjaldinu og las. Fín bók hjá Braga, um mann í hálfgerðu andlegu tjaldi, getum við sagt. Eða nei. Bókin passaði allavega fínt í tjaldið. Maðurinn í bókinni var í algjöru veseni og á flótta frá vel flestu í lífi sínu, en ég var nú bara alveg slakur í tjaldinu. Svo vaknaði maður og þurfti að míga um miðja nótt. Hressandi. Hljóðið í rennilásnum er alveg spes í tjaldi. Og svo allt vaðandi í  flugum og pöddum á tjaldhimninum. Frábærleiki. Samt gott að komast aftur í rúm!

Mér fannst Aðalvík risastór séð frá Látrum og langt yfir í Sæból. En svo er þetta bara pínkulítið á Íslandskortinu. Við fórum ekkert yfir í Sæból því Páll Ásgeir var búinn að hræða okkur svo mikið (í bókinni sinni) með einhverjum einstigs-horror á leiðinni sem við nenntum ekki að hálfdrepa okkur á með allt draslið á bakinu.

Þess í stað notuðum við frídaginn til að klöngrast upp á Straumnesfjall þar sem Kaninn í paranojukasti kom upp stórri radarstöð til að njósna um Rússa á 6. áratugnum. Leifarnar af stöðinni standa þarna enn ansi draugalegar, flest húsin full af snjó og allt í maski. Þetta var svaka stöð og margir að vinna við að koma henni upp og svo að hanga í henni við njósnir. Ég þarf að lesa mér betur til um þetta, en dæmið endaði allavega á því að Kaninn gafst upp eftir rúmlega tveggja ára njósnir. Algjör geðveiki allt saman og rugl. Skýrt dæmi um að stórveldin áttu (eiga) alltaf endalausa peninga til að eyða í paranojuna. Gamlir hermenn sem unnu á radarstöðvunum á Íslandi eru með síðu á netinu þar sem lesa má allskonar fróðleik og skoða myndir. Straumnes-stöðin gekk undir nafninu H4.


Körfuboltaspjaldið í íþróttasalnum hangir enn uppi, en bíósalnum og barnum var rutt út á haf þegar Kaninn hætti og yfirgaf stöðina.

Eftir gömlu Kana-radarstöðina gengum við niður í Rekavík. Útsýnið frábært enda veðrið meiriháttar. Lengst til vinstri á þessari mynd sést yfir í Fljótavík. Maður fer þangað seinna. Í hina áttina sá maður til Bolungarvíkur og ég veit ekki hvað og hvað. Ísland er æðisgengið í góðu veðri, ef ekki öllu veðri. Hér tek ég mér hvíld til að syngja þjóðsönginn.

Áð við stórfenglegan fjallalæk og kröngluðum fótum dýft ofan í. Það er ekki laust við að hugurinn hafi reikað til Sigur Rósar. Þeir drengir flæktust um þessar slóðir og urðu svo uppnumdir að á plötunni Með suð í eyrum má bæði heyra lögin Straumnes og Fljótavík. Við gengum inn Rekavíkina og meðfram Rekavíkurvatni aftur í tjaldið í Látrum. Þarna í Rekavíkinni var svo mikil vatnaveröld að mér leið eins og froski í búri. Allt blautt og mosi og lækir og bakk tú neitjör fílingur.

Svo var þetta nú bara komið. Önnur nótt í tjaldinu og svo aftur til Hesteyrar yfir heiðina. Auðvitað pönnukökur og kaffi á Hesteyri og tékkað á gömlu hvalstöðinni innar í firðinum.

Þetta litla sem ég hef nú upplifað af Hornströndum er vonandi bara byrjunin á Hornstrandaflækingi mínum. Þetta er glæsilegt svæði og það er þessi frábæri skortur á nútíma sem er bestur og náttúrlega kraftmikil náttúran, eða ætti maður kannski að segja hin ferska órækt sem allsstaðar blasir við.

Frábær ferð!

3 svör til “Með Braga í tjaldi á Hornströndum”

 1. Gústi júlí 26, 2012 kl. 5:43 e.h. #

  Þá veit maður það, karfan er ekki lengur á spjaldinu. Ég og nokkrir æskufélagar sem einmitt stunduðum körfubolta á unglingsárum, ákváðum það ef við færum þarna uppeftir einhvern tímann þá myndum við hafa körfubolta með okkur og taka streetball þarna uppfrá. En það er víst ekki hægt….

  • drgunni júlí 26, 2012 kl. 9:57 e.h. #

   Ekki nema að taka körfu með sér og koma þessu í lag aftur. Íþróttasalurinn var heillegastur af þessu húsnæði öllu og það þarf bara að sópa smá til að hægt sé að byrja að æfa!

 2. Gústi júlí 30, 2012 kl. 12:03 f.h. #

  Já, það hefur hvarflað að mér að gera það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: