Gamlingi á leik á hálendinu

14 Mar

Las Gamlingjann sem skreið út um gluggann eftir Svíann Jonas Jonasson sem „farið hefur sigurför“ á Íslandi og selst í klikkuðum eintakafjölda. Mér fannst hún fín framan af, húmorinn svona kumpánlegur í hálfgerðum Gísla Einarssonar-stíl og bæði gaman af nútíma ævintýrum gamla karlsins og Zelig-legri sögu hans. Í síðustu köflunum fannst mér eins og það væri einum of mikið verið að rembast við að vera fyndinn og satt að segja nennti ég eiginlega ekki að klára bókina. Lét mig þó hafaða enda fáránlegt að hætta þegar 10 bls væru eftir eða svo. Þriggja stjörnu bók.

Steinar Bragi er svaka dularfullur höfundur (les: Hann er ekki á Facebook). Ég las loksins Konur í fyrra og fannst hún svo góð að ég las líka bókina Himininn yfir Þingvöllum og kannski eina enn, ég er ekki viss. Í Himninum eru þrjár sögur, fyrstu tvær mjög góðar en sú þriðja einum of mikið rugl svo ég nennti ekki að lesa hana. En allavega. Hálendið er nýjasta bókin og kom út í fyrra. Hún er í sama fílingi og Konur, maður veit eiginlega strax að þetta mun leysast upp í eitthvað endasleppt David Lynch/Lost plottleysi, en lætur sig hafaða samt því stemmningin er eftirsóknarverð og það er alltaf gaman af svona Húllembekkuðu „fólk er viðbjóður“ þegar það er sett á íslenska góðærisgrísi með allt niðrum sig eftir „hrunið“. Eins og með Konur (ég fer alltaf að hugsa um þá bók þegar ég sé blokkirnar á Skúlagötu) þá gerir Steinar svæðið þarna á milli Vatnajökuls og Öskju að martraðarkenndum stað. Þarna er hús með klikkuðu liði (enginn botn fæst í það náttúrlega – ha? Var þetta allt bara draumur?) og stífla og virkjun með dýrabeinum og yfirgefnum vinnuskúrum sem fjórmenningar bókarinnar flækjast um í stigvaxandi hryllingi. Það var margt mjög vel gert og hrollvekjandi í þessari bók og þó Steinar eigi kannski aldrei eftir að meika plottlegan sens þá mun ég sækja í að lesa bækurnar hans. Þrjár stjörnur. Tagline: Hálendið er eins og Evil Dead ef Húllembekk hefði skrifað handritið David Lynch leikstýrt henni.

Ég hef náttúrlega ekki lesið bók hjólreiðagarpsins Stefán Mána, Svartur á leik, enda nenni ég varla íslenskum (eða erlendum) dópistum og búksorgum þeirra. Nennti samt alveg myndinni enda auðveldara að sitja yfir mynd í 2 tíma en að lesa hnausþykka bók vikum saman. Myndin flýgur nú á vængjum hæpsins og á það alveg skilið; rennur smúðð og hratt og vel. Tóti er góður, sem og Stebbi Sækó, þótt hann sé full mikið alltaf með sama eymdarsvipinn á andlitinu. Brúnó viðbjóður er sannfærandi en maður fattar samt ekki alveg hvernig hann fór að því að ná Tóta undir sig, sérstaklega þar sem Tóti hafði stuttu áður næstum því verið búinn að gelda heilt hesthús. Períod-stælingin í myndinni er flott og tónlistin mjög vel útfærð. Rosa gott hvernig Engilbert syngur Þú og ég yfir klámkynslóðinni að sulla í sér. Myndin er þó óþarflega cheap og pölpuð í blálokin, en samt alveg  þrjár sjúskaðar stjörnur, enda leiddist manni ekki andartak á þessari velkeyrðu mynd.

Eitt svar to “Gamlingi á leik á hálendinu”

  1. Jóhann Þórsson mars 14, 2012 kl. 8:49 f.h. #

    Sammála þér með Hálendið, en þó fannst mér maður þurfa að fylla fullmikið inn í eyður í lokin. Konur er það góð hinsvegar að maður heldur áfram að lesa bækurnar hans. Bókin Svartur á leik er eins og kvikmyndahandrit þannig að það er eflaust nóg að sjá bara myndina (öfugt við þig þá hef ég bara lesið bókina en á myndina eftir.)

    Gamlingjann nenni ég ekki að lesa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: