Þorsteinn Eggertsson sjötugur!

25 Feb


Meistari Þorsteinn Eggertsson er sjötugur í dag og er óskað brjálæðislega til hamingju með það. Meistarinn var sá alsvalasti á frumárum rokks á Íslandi – „Hinn íslenski Presley“ var hann kallaður af sjálfum Hauki Morthens. Hann tróð upp með ýmsum, m.a. KK Sextett og hljómsveitinni The Beatniks, en myndin hérna að ofan er af því uggvænlega ballbandi. Eins og sést drýpur rokkið sjálft af Þorsteini (hann er þessi sem stendur í miðjunni). Meðlimir hljómsveitarinnar eru frá vinstri talið: Eggert Kristinsson trommur (síðar í Hljómum), Eiríkur Árni Sigtryggsson kontrabassi, Þorsteinn, Björn Jónsson Haukdal gítar, Gudrun S Frederiksen söngkona og bróðir hennar Edward Jóhann Frederikssen.

Þorsteinn hætti svo að syngja að mestu, fór að vinna á auglýsingastofu og byrjaði að semja texta. Hann varð svo náttúrlega textaskáld íslenska poppsins númer eitt, tvö og allavega fimm, sex líka. Frá honum hefur runnið ódauðleg snilld á þeim vettvangi og mörg fræg lög, sem ég er viss um að verða spiluð í hengla og ræmur í útvarpinu í allan dag. Hér að neðan eru eftir á móti þrjú lög, sem eru ekkert fræg, en eiga það sameiginlegt að vera með textum eftir Þorstein og komu út 1976 – 1978.

 Lónlí Blú Bojs – Atvinnulaus
Af síðustu plötu Lónlí, Á ferð (1976). Texti Þorsteins smellpassar náttúrlega við stemmninguna í dag. Lagið er eftir Gunna Þórðar.

 Lúdó og Stefán – Brenninetla
Af seinni seventís plötu Lúdó frá 1977. Íslenskur texti Þorsteins við lagið Poison Ivy eftir Lieber og Stoller (þekktast með The Coasters). Reffilegt hjá Stebba og kó!

 Linda Gísladóttir – Eftirsjá
Af Linda, sólóplötu Lindu frá 1978, þegar hún var búin að meikaða með Lummunum. Tíu erlend lög, öll með texta af olíubornu færibandi Þorsteins. Þetta er auðvitað Abbalagið víðfræga.

2 svör to “Þorsteinn Eggertsson sjötugur!”

  1. Villi febrúar 25, 2012 kl. 1:11 f.h. #

    Ég er hrifnastur af texta Þorsteins; Söngur um lífið . Flutningur Páll Óskar í Kastljósi ekki poppaður upp. Annars er maður ekki dómbær á textana hans, þeir eru svo tengdir mér í gegnum unglingsárin og það allt.
    Ps. Ég var í Hagkaup um daginn og sé Þorstein koma með fjörugt afabarn. Ég beið meðan hann var afgreiddur og svo rauk ég á hann. Ég sagði honum frá fimmtugsafmæli (systur minnar) þar sem ung stúlka í söngnámi söng við undirleik pabba síns lagið; Söngur um lífið. Þetta var flutt í rólegu tempói og ofsa flott. Ég sagði honum hvað mér þætti textinn góður og þakkaði honum. Hann tók mér vel og ætlaði ekki að sleppa mér, vildi vita hvað ég héti og systir mín. En litla barnið togaði í hann og hann varð að fara. Það eru nokkur lög sem hafa hitt mann í flutningi kannski annarra en orginal flytjenda. Þetta lag og lagið hans Megasar í flutningi Möggu Stínu (Fílahirðirinn frá Súrin) eru mér efst í huga.
    Ég er ánægður með þessa síðu þína. Það er gaman að kynnast nýjum stjörnum eins og þessi sem þú kynntir í gær eða fyrradag. (Er hún ekki að koma hingað) Þar er eitthvað nýtt á ferðinni.

  2. drgunni febrúar 25, 2012 kl. 2:15 e.h. #

    Blessaður Gunnar! Ég sá að þú varst að minnast á sjötugsafmæli Þorsteins Eggertssonar og langar að leggja orð í belg varðandi myndina sem fylgdi ‘blogginu’. Hún var tekin í sambandi við að hljómsveitin kom fram í kanasjónvarpinu um áramótin 1961-62 ef ég man rétt. Auk Þorsteins og Eggerts Kristinssonar eru þar Edward Frederiksen, tónlistarkennari í Reykjavík á píanó, systir hans, Guðrún söngkona sem býr í Svíþjóð, Eiríkur Sigtryggsson, tónskáld og listamaður búsettur í Keflavík á bassa og undirritaður búsettur í Svíþjóð á gítar. Beztu kveðjur
    /Björn Jónsson úr Hafnarfirði

Skildu eftir svar við drgunni Hætta við svar