Sinalco og goslíf gott

2 Feb


Helgi og félagar í Góu hafa nú sett hinn ævaforna (byrjaði að fást í heimalandinu 1902) þýska Sinalco aftur í sölu. Sinalco (wiki) er á Íslandi í flokki dáðustu drykkja fortíðar með Spur, Miranda og félögum. Í gamla daga (eitthvað fram eftir 9. áratugnum) var Sinalco selt í litlu gleri, en mér fannst drykkurinn aldrei neitt spes. Fyrir einhverjum árum fékkst Sinalco hér aftur í dósum. Það var einhver önnur blanda og enn síðri. Nú segja þeir að „gamla“ Sinalcoið sé komið aftur. Ég keypti mér 1/2 flösku í 10/11 (159 kr) og torgaði þessu með krökkunum. Þeim fannst þetta miklu betra en mér, sem fannst þetta satt að segja gervi-sætt og óspennandi. Mun ekki sækjast eftir þessu aftur, nema e.t.v. til að prufa að blanda í Malt, en „Malt og Sinalco“  var drykkur sem sumir brúkuðu (a.m.k. Birgir Baldursson og kó) í Kópavogi í stað hefðbundnari Malt og appelsín-kokteils. Mér finnst framtak Góu gott og splæsi tveimur stjörnum í Sinalco, einni fyrir bragð og einni fyrir nostalgíu og framtak.

En bíddu við, það er meira að ske í goslífi mínu:


Tónlistarmaðurinn Levi Roots hefur tekið reggíið og gert það að söluvænlegum mat (sósur, snakk o.s.frv. sjá http://www.reggae-reggae.co.uk/). Í Melabúðinni var ein og yfirgefin dós af engiferölinu hans í kælinum – „Fiery Root Ginger Beer with Lime ‘n’ Honey“ stendur á dósinni og er þetta nokkuð akkúrat lýsing nema hvað engiferölið var alls ekkert „fiery“ heldur bara vægt. Maður fann keim af læmi og hunangi og allt þetta bragð rann eiginlega ekki saman í eina góða heild heldur fann maður læm og hunang og engifer bragð til skiptis og þetta var satt að segja ekkert svo æðislega gott. Kannski bara svona la la og tvær stjörnur.

Heiða gaf mér flösku af Rigas kvass í jólagjöf. Hún segist hafa keypt það í einhverri Letta-búð á Selfossi en ég veit ekki meir. Eins og nafnið gefur til kynna er drykkurinn frá Riga í Lettlandi. Kvass er eitthvað dæmi sem þeir þarna fyrir austan drekka mikið af (wiki). Þetta Riga kvass er á litinn eins og vatnsblandað kók og smakkast eins og íste sem er búið að blanda með smá kaffi og einhverju ógeði. Nú kann ég bæði að meta gjafmildi Heiðu og borgina Riga (við Heiða spiluðum þar einu sinni með Unun) en því miður get ég ekki gefið drykknum eina einustu stjörnu (0 stjörnur) því ég gat ekki einu sinni klárað flöskuna þótt ég hafi pínt ofan í mig einu glasi með miklum herkjum.

Pennsylvania Dutch Birch Beer kemur já frá Pennsylvaníu (heimasíða), en ég fékk 1/2 l flösku frá Jen í USA í skiptum fyrir kassettur. Því miður er þetta enginn úrvalsmjöður heldur næstum því í sama gæðaflokki og rótarbjórinn sem ég gerði um árið með innfluttu síropi. Ég gat ekki klárað flöskuna og innihaldið smakkaðist reyndar mun betur daginn eftir. Ég er því að spá í það hvort bragðlaukarnir hafi verið eitthvað illa fyrir kallaðir kvöldið sem ég smakkaði. Ég ætla því að hafa vaðið fyrir neðan mig og gefa þessu tvær stjörnur.

Kutztown Red Cream Soda kemur frá bænum Kutztown, Pennsylvania, en áður er ég orðinn nokkuð sjóaður í framleiðsluvörum Kutztown gosgerðarinnar (þökk sé Jen) og get því eiginlega staðfest að þetta er ekkert spes merki. Hið rauða rjómagos var með ágætu rjómabragði blönduðu við þetta „rauða“ bragð, þ.e. léttu gerviávaxtabragði. Flaskan rann ljúflega niður, þótt gerviávaxtabragðið hafi aðeins skemmt fyrir, og mjöðurinn er fagurlega rauður. Líklega það besta frá Kutztown línunni og þrjár stjörnur.

6 svör to “Sinalco og goslíf gott”

 1. Stefán Þór Sigfinnsson febrúar 2, 2012 kl. 6:19 e.h. #

  Það er eitthvað allt öðruvísi við þetta Sinalco en það sem fékkst fyrir 10 árum eða svo. Ætli ástæðan sé ekki sú að það var framleitt hér á landi(er ekki 100% viss) en ekki influtt og því íslenskt vatn notað í það.

 2. Hannes Þórisson febrúar 2, 2012 kl. 7:59 e.h. #

  Hvernig var það var Sinalco ekki 90% notað í bland með vodka?

 3. Tryggvi febrúar 3, 2012 kl. 4:52 e.h. #

  Sagt er að þessi uppfinning Bigga sé orðin hefð hjá félögum í Vantrú, þeir noti Malt og Sinalco á Jólum í stað Malts og Appelsíns, eins og hefð er fyrir hjá hinum kristnu.
  Maður ætti kannski að prófa ?

 4. Frambyggður febrúar 3, 2012 kl. 8:16 e.h. #

  Sínalkók kölluðu þetta sumir. Mér þótti þetta allt í lagi. En það mætti koma aftur með Íscola, Sólcóla og Seltzer t.d.!!! RC-Cola má líka koma! Ég lifi í fortíðinni.

 5. hildigunnur febrúar 6, 2012 kl. 12:02 f.h. #

  En man fólk ekki eftir Póló? Kjarnadrykk með gervikjörnum?

 6. drgunni febrúar 6, 2012 kl. 8:35 f.h. #

  Jú jú mikil ósköp. Það var m.a.s. til Bónus póló fyrir ekki svo löngu. Póló er betra í minningunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: