Sarpur | október, 2011

HAM og Þór

20 Okt


Nýja Ham platan er loksins komin út á íðilfögrum og hnausþykkum vinýl í „Crass“-umslagi. Hljómar eins og naut í flagi og lúkkar eins og fífill að vori. Fæst í öllum alvöru plötubúðum.

Fór á teiknimyndina Þór. Hún er næs, en eins og almennt á svona teiknimyndum sofnaði ég bæði fyrir og eftir hlé og svaf af mér sirka 50% af myndinni. Það er orðum aukið að segja hana lúkka jafn vel og það sem best gerist í þessum bransa, bakgrunnar og áferð er langt í frá jafn æðisleg og í stærstu Hollywood-myndunum, skárra væri það líka. Það sem ég sá var fyndið og sannfærandi (gaman að heyra í leikstjóranum Óskari) og því segi ég gó gó gó fyrir allt fjölskyldufólk. Þarf að sjá hana alla asap. Þrjár stjörnur (af fjórum).

Pönkið aftur í Kópavoginn – Taugadeildin

20 Okt

https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/taugadeildin-hvitargrafirdamagedgoods.mp3 Taugadeildin – Hvítar grafir / Damaged Goods (læf)

1981 var alveg sjúklega gott ár fyrir íslenska rokkið. Þeysarar gerðu sínar bestu plötur, sem og Purrkurinn, Fræbbblarnir komu með Bjór smáskífuna og Fan Houtens Kókó með kassetturnar sínar. Besta rokkár ever, segi ég gamall maðurinn. Hin frábæra Taugadeild kom einnig með sína 4-laga plötu, en bandið var hætt þegar platan kom loksins út í október. Taugadeildin snéri aftur fyrir nokkrum árum og verður á Pönkinu á laugardaginn, gallfersk og meiriháttar. Upptakan hér að ofan er frá gigginu í Kópavogsbíói 22. maí 1981, en einhverra hluta vegna tók Taugadeildin bara tvö lög, Hvítar grafir af Ep-inu og Damaged Goods eftir Gang of Four.

Pönkið aftur í Kópavoginn – F/8

20 Okt


Tóti Leifs (sem nýlega sendi frá sér bókina Götumálarinn (meira síðar)) gefur fokkmerki í Þjóðviljanum 20. ágúst 1981.

PÖNK 2011 fer eins og áður segir fram á laugardaginn. Þar ætla Videósílin að taka tvö lög með F/8, annarri hljómsveitinni sem ég var í (sú fyrsta hét Dordinglar). F/8 var gríðarlega gott pönkband sem hætti á hátindi ferilsins, á stórpönktónleikum í Kópavogsbíói föstudagskvöldið 22. maí 1981. Það var mergjað stuð á gestum á þessu giggi, enda skólinn nýbúinn og allir sósaðir að fara að byrja í unglingavinnunni eða eitthvað. Trausti Júl tók allt giggið upp (ég set inn framlög Taugadeildar og Fræbbblanna á morgun) og ég hef sett prógramm F/8 inn á F/8-síðuna.

Við spiluðum þetta:

1. Blitzgren bop (Ramones)
2. Bölvun fylgi þeim
3. Númer
4. So what (Crass)
5. Útjaskaðir nemendur
6. Sadistar
7. Last (ósungna reggae-lagið)
8. Now I wanna be a good boy (Ramones)
9. London’s burning (Clash)
10. Vinnuskólinn
11. Belsen was a gas (Sex pistols)

Önnur lög eru frumsamin, yfirleitt eftir mig, bæði lög og textar.

Hér eru síðustu tónleikar F/8 í stafrænu nútímaformi. (Þeir sem heyrist í á milli laga eru Videósílin Trausti Júl og Steinn Skaptason)

Engin mynd náðist frá þessu giggi, en á F/8 síðunni má sjá fallegar myndir af bandinu að spila í Snælandsskóla einum mánuði áður. Ari Einarsson var genginn í bandið á þessum tíma á gítar, en hann og söngvarinn Tryggvi Þór Tryggvason voru í Fræbbblunum. Tryggvi spilaði á gítar með Fræbbblum. Ari hefur helgað sig tónlistinni, m.a. kennt út á landi. Tryggvi skipti um nafn, en menn muna aldrei hvað hann heitir í dag. Síðast þegar fréttist af honum var hann að selja raftæki í Bristol, Englandi. Í F/8 var Bjössi Gunnarsson á bassa. Hann var nýlega í fréttunum að tala um neðansjávarmyndvél. Hann fór sem sé í fiskana. Haukur trommari fór í gullsmíðina og starfrækir Carat í Smáralind í dag. Bjössi og Haukur voru báðir í næsta bandi sem ég stofnaði, Geðfró, en það er sem kunnugt er fyrsta bandið sem Sigga Beinteins var í. Bjössi hætti og fór í DRON (Danshljómsveit Reykjavíkur og nágrennis) sem sigraði fyrstu Músíktilraunir 1982. Þar vorum við Haukur líka með Svart hvítum draumi en komumst ekki einu sinni áfram.  Ömm, eins og nærri má geta var ég gríðarlega ánægður fyrir hönd DRON með sigurinn.

Pönkið aftur í Kópavoginn – NAST

20 Okt


(Steinþór Stefánsson, bassaleikari Fræbbblanna, og Gunnþór Sigurðsson, ljósamaður Fræbbblanna, gantast við miðasöluna í Kópavogsbíói 1980. Mynd: Birgir Baldursson)

Gríðarlegt pönk er nú framundan í Kópavoginum því PÖNK 2011 verður haldið í þessari borg pönksins núna  á laugardaginn. Pönk 2011 fer fram á tveimur stöðum og fjölmörg bönd spila. Um daginn verður pönkað úr sér vit og rænu í Molanum í Hamraborg. Molinn er beint á móti Salnum, á efri hæðinni fyrir ofan Tónlistarsafn Íslands (næstum því við hliðina á Kópavogsbíói, hinu helga vé pönksins). Dagskráin í Molanum verður sirka svona:

14:00 Morðingjarnir
14:12 Q4U
14:25 Pollock bræður
14:37 Manndráp af gáleysi
14:55 Útrás
15:12 Videósílin
15:25 Pungsig
15:37 KABear
15:50 Buxnaskjónar
16:02 Taugadeildin
16:15 Búdrýgindi
16:27 Snillingarnir
16:40 Fræbbblar með gestum
16:52 Fræbbblarnir

Um kvöldið færist Pönk 2011 yfir á skemmtistaðinn Spot, sem er í „nýja“ Kópavogi, eða út í rassgati hjá Hellusteypunni, eins og sagt hefði verið 1981. Þar verður pönkað eftir þessu fyrirkomulagi:

22:00 Fræbbblarnir
22:25 Pollock bræður
22:45 Buxnaskjónar
23:15 Videósílin
23:35 Pungsig
0:00 KABear
0:25 Búdrýgindi
0:50 Morðingjarnir
1:15 FiveBellies
1:45 Q4U
2:10 Taugadeildin
2:35 Snillingarnir
3:00 Fræbbblar með gestum

(Nánari upplýsingar um böndin o.s.frv. eru á hér.)


https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/nast-anarkisti.mp3 Nast – Anarkisti

 Nast – Dýragarð

Eins og fram hefur komið spila ég á Pönkinu með hljómsveitinni Videósílin. Í sveitinni eru einnig Steinn Skaptason, Trausti Júlíusson og Brjánn Birgisson. Við ætlum að taka tvö F/8 lög, eitt með Nast og tvö útlend stórpönklög. Hljómsveitin NAST var eitt af Kópavogspönkböndunum. Þetta voru jafnvel yngri strákar en við í F/8 og maður umgengst þá ekki mikið. Virtust æfa á horni Vogatungu og Hlíðarvegar og hétu allir Nast eitthvað, Svenni Nast og Diddi Nast og svo framvegis. Þeir áttu einn hittara, hið stórfenglega lag Anarkisti, sem gæti einnig hafa heitið Anarkistar. Textinn er náttúrlega snilld:

Ég er anarkisti
á móti kristi
ég vil fá að ríða þegar ég vil.

Hér er lagið ásamt öðru (sem heitir hugsanlega Dýragarð) af tónleikum í Kópavogsbíói 22. maí 1981. Trausti Júlíusson tók alla tónleikana upp á kassettu. Þarna voru líka að spila F/8, Taugadeildin og Fræbbblarnir (og hljómsveitin T42, sem var ekki tekin upp). Set upptökur með þessum böndum hingað inn von bráðar til að hita fólk upp í gott pönkstuð.

Grantarinn góður

16 Okt


John Grant var voða fínn í Hörpunni í gær, lék lögin sín og söng með bravúr. Þessi snillingur töfraði okkur alveg sem vorum að vinna á Airwaves media center, hann var svo almennilegur við okkur, hitaði te fyrir okkur sem hann kom með sér frá útlöndum og var bara rosa næs. Hvorki til í honum tilætlunarsemi né stjörnustælar. Svo voru allskonar nóboddí (nefni engin nöfn) með eitthvað vesen og leiðindi… en samt eiginlega ekki. Það má eiginlega segja að það hafi ekki neinir fávitar verið að spila á Airwaves í ár, bara gott lið.

John sýndi Gos-síðunni minni áhuga enda virðist hann vera nammi og gos-fríkill (sbr. lagið hans Mars). Ég benti honum á að fá sér Appelsín. Hann virðist alveg dolfallinn yfir landinu svo það kæmi mér ekki á óvart ef hann flytti hingað, eða tæki allavega upp næstu plötuna sína hér. Enn einn Íslandsvinurinn kominn!

(Menn eru fljótir að öpplóda. Hér er John Grant að flytja Queen of Denmark í nótt og hér er hann að taka I want to go to Mars).

John var að spila langt eftir minn vanalega svefntíma svo ég þurfti að hlaða inn á svefnbatteríið um miðjan dag með góðu powernappi. Var svo hress eftir það að ég glápti á ágæta mynd sem heitir Submarine og er svona rosa kúl og hipp „coming of age“ mynd sem gerist í Wales 1980 og eitthvað. Hún var svo sem ekkert ýkt æðisleg en bara fín og alveg þriggja stjarna virði. Svo er meiningin að sjá teiknimyndina Þór í dag. Allt í stuði sem sé.

Ok bæ!

Úlnliðir poppara

14 Okt


Hef unnið í akkorði síðan á mánudag við að festa armbandar-passa á úlnliði þeirra íslensku poppara sem spila á Airwaves í ár. Segja má að ég sé orðinn sérfræðingur í íslenskum poppara-úlnliðum hafandi farið í gegnum allan þennan haug. Eins og við var að búast eru krútt-úlnliðir að jafnaði mun mjórri en þungarokksúlnliðir. Skemmtilegustu úlnliðir landsins eru án efa hjá hljómsveitinni Endless Dark. Þar eru allir með dúndur tattúveraða úlnliði (og handleggi). Loksins einhver tilbreyting fyrir mig eftir allar freknurnar, beinakúlurnar og hárin þegar Endless Dark mættu með allskonar tattústuð á úlnliðunum.

Jæja, svo fór maður á einhver gigg. Ekkert á miðvikudaginn þó, en í gær flaug ég á milli nokkurra staða enda vitaskuld með besta hugsanlega biðraðafrítt armband í heimi á eigin úlnliði. Troðfullt Listasafn át úr lófanum á Retro Stefson. Þeir félagar, velsmurðir á úlnliðunum eftir langt hark á meginlandinu, létu slefandi hjörðina standa og sitja og gjugga sér í lendunum. Heimsfrægðin hlýtur að vera yfirvofandi.

Á Nasa var hundslappt band, Young Galaxy, eitthvað að syntafreta, og á Iðnó, annað hundslappt band, Caged Animal, eitthvað að indiepoppa. Ef þessi bönd væru á Músíktilraunum er ekkert víst að þau myndu komast áfram.

Nokkuð var búið að hæpa Beach House í Listasafninu svo röðin var löng. Þetta er ágætis valiumpopp, en kannski ekki eitthvað sem maður nennir að sjá læf eftir langan vinnudag. Þau hafa ábyggilega pælt í skemmtaratrommuheilanálgun Young Marble Giant og eru dáldið eins og þau plús My Bloody Valentine og Beach boys. Nokkuð næs, en einhæft, svo eftir 3 lög var einsýnt hvert stefndi.

Næst á Gaukinn á BlazRoca og hans lausgirta posse. Mér fannst það satt að segja reffilegasta atriði kvöldsins. Litið nema íslenskar hiphop skinkur og beikon á svæðinu og allir í gríðarmiklu stuði. Þetta fór á magnaðan sveitaballalevel þegar hittin skullu á, Allir eru að fá sér og Viltu dick? Blaz á nóg eftir.

Loks Secret Chiefs 3 á Iðnó. Þetta er instrumental kvartett leiddur af Trey Spruance, sem er síðhökutoppaður gítarleikari sem var í Faith No More og Mr. Bungle. Bandið er ægiþétt og spilaglatt og músíkin nokkuð kraftmikill hræringur af Frank Zappa og brjáluðust köflum John Zorn (nema bara fiðla, en ekki saxi). Nokkuð fínt.

Videósílin!

12 Okt


Þetta glæsilega nýja band heitir Videósílin og er eitt besta pönkkóverband á Íslandi með unglingapönk frá Kópavogi 1980-1981 að sérsviði. Eina fyrirhugaða framkoma sveitarinnar er á Pönk 2011 hátíðinni sem fer fram í Kópavogi laugardaginn 22. okt. Frá vinstri: Steinn Skaptason trommur, Brjánn Birgisson bassi, Trausti Júlíusson gítar, Gunni gítar+“söngur“.

Góð málefni eru endalaus

9 Okt

Það var ægilega vinalegt fólk að reyna að selja mér Gleðipinna, eða eitthvað svoleiðis, fyrir utan Hagkaup í gær. Hann kostaði þúsund kall en ég sagðist ekki tíma að kaupa hann. Leið náttúrlega frekar illa með það en harkaði af mér, enda var ég ekkert að ljúga. Ég tímdi ekki að kaupa hann. Fólkið sagði að ég gæti þurft á þessu að halda en ég sagðist vera 100% heilbrigður og þá varð fólkið ennþá meira fúlt og snéri sér að næsta kúnna.

Í alvöru, hvar endar þetta með öll þessi góðu málefni? Inni á heimabankanum mínum eru 85 Góð málefni sem ég gæti lagt inn á, frá ABC-barnahjálp til Þroskahjálpar og bak við hvert og eitt einasta er fólk sem á í ýmiskonar neyð. Ofan á þetta fargan leggjast einangruð fyrirbæri sem er verið að safna fyrir sérstaklega, veikt fólk og limlest, börn sem þurfa að komast í aðgerð pronto eða heilu landsvæðin í Afríku sem eru við það að leggjast af vegna sults og seyru.

Stundum hvarflar það auðvitað að manni að vera ekki svona andskoti sjálfselskur og taka einskonar Móðir Theresu á sterum á lífið. Skilja sitt eigið vesæla sjálf eftir heima og fara út í heim til að hjálpa þurfandi.  Eða þá að minnsta kosti að eyða, segjum, 10 þús kalli á mánuði, í vel valin góð málefni. Svona eins og millistéttin með þokkalega mikið á milli handanna gerir með sín fósturbörn í útlöndum og hvað þetta er allt. Því það er betra að gefa en þyggja og já já.

En þá hugsa ég bara, ég borga skatta, er það ekki nóg? Og mér finnst það alveg nóg og fer og eyði stórfé í eitthvað drasl eins og plötur og rótarbjór. Nei ég lýg því. Ég styrki svo sem allskonar – hjálparkarlinn og álfinn og ýmislegt fleira, segi ég til að lesendur haldi ekki að ég sé algjör rotta. Og svo gaf ég oft rónum pening, en það er reyndar helst til að komast hjá barsmíðum. Mér skilst reyndar að maður eigi ekki að gefa ógæfufólki aura heldur hreyta í það ónotum. Það gæti hugsanlega komið fólkinu á beinu brautina.

En það er ekki neitt kerfi á þessu. Það er ekki neitt kerfi á því hvað ég er góður. Ætli maður sé ekki aðeins meira góður þegar maður á einhvern pening en þegar maður er skítblankur eins og núna, svo sorrí þarna Gleðipinna fólk. Og svo er ég auðvitað langt því frá 100% heilbrigður. Bara svona 98.5%.

Eitt varðandi þetta dæmi: Afhverju er tónlistarfólk eina fólkið sem á að gefa vinnu sína fyrir góð málefni? Afhverju er aldrei neitt svona: Píparar styrkja Parkisons-samtökin eða Tannlæknar fyrir Tourette-samtökin? Öll launin þeirra í viku eða einn dag eða eitthvað færu í málefnið.

Best að hætta áður en allir fara að hata mig enn meira en orðið er. Ég veit upp á mig skömmina svo þú þarft ekkert að skamma mig.

Tónar í London

9 Okt


Eiríkur Jónsson vísir í heimssögulegt myndskeið á Youtube af Bitlunum að heimsækja Buckingham Palace til að fá medalíurnar 26. okt 1965.  Frá 00:16 – 00:19 má sjá tvo hárprúða unga menn í þvögunni, þá Gunnar Jökul Hákonarson og Sigurð Árnason, þá 16 ára. Þeir voru í Tónum á þessum tíma og hafa greinilega verið að gera sér glaðan dag í heimsborginni.

Það höfðu birst fréttir í íslensku blöðunum á þessum tíma um að Tónar væru að undirbúa stórsókn á enskan markað. Umboðsmaðurinn Þráinn Kristjánsson (sem síðar varð m.a. umbi Dáta og Hljóma) hafði lagt mikla vinnu í ferðina og sent út myndir og segulbandsupptökur. Átti sveitin að spila á einum fjórum unglingaklúbbum, samkvæmt fréttum. Ekkert varð úr ferð Tóna, en Sigurður og Gunnar Jökull héldu utan, að eigin sögn til að „stúdera hljómsveitir og föt“. Sigurður kom heim en Gunnar fékk pláss í hljómsveitinni The Syn, ílengtist og var svo „næstum genginn í Yes“…

Rótarbjórsfrík athugið!

5 Okt


Nú fæst IBC rótarbjór í flöskum í Kosti. IBC er ágætis rótarbjór – „Frekar hefðbundið og ekki mjög eftirminnilegt. Engu að síður traust. Flott miðalaus flaska og röff. XXX,“ hef ég skrifað á gömlu Gosdrykkjasíðuna. Verðið er mjög viðunandi, 169 kr/stk. IBC ( Independent Breweries Company) á merkilega sögu (sjá Wiki). IBC hefur ekki verið til í flöskum á Íslandi áður, en fékkst stundum í Klinkinu, sem var og hét í Fákafeninu fyrir nokkrum árum, en þá í 500 ml dósum. Gos er miklu betra í gleri eins og allir vita.