Þá er komin helgin og því verður nú gert hlé á umræðu vikunnar. Í vikunni bar margt á góma, stönt Stóru systranna, litli bjór Óla Palla, Rolex-ræningjarnir og eitthvað fleira, sem ég er alveg að fara að gleyma því allt þetta fer í gleymskusarpinn. Þegar ný vika byrjar á mánudaginn (ekki á sunnudaginn eins og sumir halda) byrjar umræðuhakkavélin aftur að dæla út einhverju rugli sem svo hakkast hér og þar á netinu og öðrum fjölmiðlum um nokkra hríð, er svo gert upp „í vikulokin“ í sérútbúnum fjölmiðlauppgjörum, og þar með er rýmt til fyrir nýrri viku af fersku fréttahakki.
Sjaldan eru hlutir kláraðir heldur liggja hálfhakkaðir hjá grindverki gleymskunnar. Hvernig var það nú aftur með ríka golf-Kínverjann með harðfiskinn – má hann kaupa eða ekki? Ætlar Karl Sigurbjörnsson bara að hanga í starfi? Er Harpan að ryðga í sundur eða ekki? (Íslensk umræðuhefð: Einn segir já, hinn segir nei, og þá þarf ekki að ræða það meir). Ég man eðlilega ekki fleiri dæmi um hálfhakkaðar fortíðarfréttir svona í svipinn, enda með ónýtt skammtímaminni eins og allir aðrir. Bráðum man ég ekki lengur eftir hruninu og íhuga að kjósa Sjálfstæðisflokkinn af því mér finnst fulltrúar flokksins svo áreiðanlegir.
Íslensk umræðuhefð/atburðarrás er að því leitinu ekki svo ósvipuð söguþræðinum í myndinni Háttvísir broddborgarar (Le charme discret de la bourgeoisie), sem Luis Bunuel fékk Óskarinn fyrir 1972, að hún er súrrealískt grín og ekki með neinni niðurstöðu. Allt getur gerst og mun gerast – eintómt sprenghlægilegt rugl alla leið.
Í myndinni flækjast broddborgararnir um og reyna að borða saman. Það gengur vægast sagt erfiðlega. Á einhvern djúpspakan hátt kveikir þessi mynd á ýmsum neðansjávartilfinningum og tilvísunum í meiningar sem maður hefur til tilverunnar. Allience Francaise fékk mig til að velja eina mynd og tala smá á undan henni. Þetta er hluti af prógrammi þeirra, Stefnumóti við franskar kvikmyndir. Ég valdi þessa frábæru mynd, Háttvísa broddborgara, og verður hún sýnd í Bíóparadís kl. 20 annað kvöld (sunnud). Ég myndi kalla þetta skyldumætingu, ekki síst til að skilja íslenska atburðarrás, en aðallega þó til að hafa gaman því þetta er ógeðslega skemmtileg mynd.
Ég minni svo á PÖNK 2011 í dag frá 14-17 í Molanum og frá kl. 22 á Spot. Nánar hér. Videósílin spila og allt!
Stærsta gleym af þeim öllum er samt þetta: HVAÐ VARÐ EIGINLEGA UM ICESAVE? ÞURFUM VIÐ AÐ BORGA ÞETTA EÐA EKKI?!?
við látum þrotabúið um þetta óskar(fólkið sem öskraði hæst nei talaði alltaf um að skuldin væri xxxxx eins og að það fengust engar eignir upp í þetta, sem það gerir að mestu leyti), gleymum ´essu og tökum gleði okkar á ný. Vil ekki annað týnt icesave-ár þar sem var reynt að drepa þjóðina úr leiðindum og sundrungu. Ef það er e-ð sem ég vil að verði gleymt er það icesave, það er svarthol sem gleypir allt ljós í lífinu.
Hehe, eg er alveg sallarolegur og hamingjusamur! Bara fyndid hvernig thetta eilifdarvæl hvarf ur frettum eins og hendi væri veifad…