Ríka fólkið á Arnarnesi

6 Sep

Það var svo gott veður í dag að það var einskonar glæpur gegn heilbrigðri skynsemi að hjóla ekki eitthvað. Fór því magnaðan rúnt alla leið úr Vesturbænum í Ikea. Ef maður þekkir leiðina má nánast hjóla á malbikuðum stígum alla leið og hvergi leggja sig í lífshættu í gaga bílaumferð. Eins og hjólreiðafólk þekkir eru margir bílstjórar algjör fífl. Auðvitað fullt af fólki líka sem er kurteist og kann sig í umferðinni.

Margt er skemmtilegt á þessari leið. Til dæmis að hjóla fyrir Kársnesið í Kópavogi og svo í gegnum Arnarnesið. Þar býr bara forríkt fólk og margt af því í risastórum villum eins og í Beverly Hills eða eitthvað. Hvað gerir þetta fólk eiginlega, hugsar maður og glápir á dýrðina. Flytur inn fæðubótarefni eða er með hundasnyrtistofu? Eitt er alveg öruggt og það er að hver einasti kjaftur þarna kýs Sjálfsstæðisflokkinn. Á fáránlega stórum bílastæðum stóðu Porschar, Hummerar og Rangear, svartir yfirleitt.

Hvergi var fólk að sjá, en ég hjólaði þarna í gegn líka á sunnudaginn (tók þá svokallaðan „Forseta,“ 30 km leið upp að Bessastöðum) og sá þá bara konur sem litu út eins og vonda drottningin í Mjallhvíti, bara tanaðari. Allar voru þær í eins fötum og kerlingarnar í Sopranos.

Maður þarf að hjóla í gegnum verksmiðjuhverfið í Hafnarfirði til að komast í Ikea. Ég er mikill unnandi iðnaðarhverfa. Á fáum stöðum verður sigur mannsandans á heimskri náttúrunni jafn ljós. Í loftinu blandast saman allskonar lykt: uppgjósandi klóaklykt, lykt af brennandi dekkjum, lakkríslykt, lykt úr reykofnum, lykt af blautu timbri…

Hér er falleg mynd sem ég tók:

Ég veit nú ekki einu sinni hvað þetta er. Fullt af ónýtum bátum sýnist mér.

Í Ikea keypti ég síld í krukku. Maður verður að hafa einhverja afsökun. Ikea-síldin er sú besta á Íslandi og líka sú ódýrasta.

9 svör to “Ríka fólkið á Arnarnesi”

  1. Ingimar september 6, 2011 kl. 4:17 e.h. #

    „ónýtu bátarnir“ eru mót til að steypa trefjaplastbátsskrokka (flott samsett orð). Eins vill það nú þannig til að faðir minn er með verkstæði í ljóta húsinu með ryðgaða þakinu.

  2. Óskar P. Einarsson september 6, 2011 kl. 4:37 e.h. #

    Það tók mig nokkrar tilraunir að finna „optimal“ hjólaleið inn í Hafnarfjörð. Skemmtilegast finnst mér að fara í gegnum Garðabæ, framhjá „verslunarkjarnanum“, niður í Lundahverfi og í gegnum rosalega töff göngustíg í gegnum hraunið, sem endar í iðnaðarhverfinu í Hfj. (eða eiginlega Garðabæ, er aldrei viss hvorum bænum það tilheyrir…).

  3. drgunni september 6, 2011 kl. 4:44 e.h. #

    Nú nú. Ég þarf að finna þennan rosa töff göngustíg í gegnum hraunið, það er ljóst.

  4. Ari september 6, 2011 kl. 11:27 e.h. #

    Skv. Ómari Ragnarssyni voru járnbrautarteinar lagðir í gegnum þetta hraun sem aldrei voru notaðir (þessu komst ég að í fyrra sumar þegar flestar stiklurnar hans voru endursýndar, veit ekki hvort leifar af þeim séu þarna ennþá en þátturinn var ca. 30 ára gamall og Ómar talaði um að iðnaðarsvæðið gæti stækkað og leifarnar horfið illu heilli ).
    p.s. þori að veðja aleigunni að myndin sé frá Skútahrauni, einhvers staðar hér eða eitthvað http://ja.is/kort/#q=sk%C3%BAtahraun%202a&x=356882&y=400769&z=10&type=aerial

  5. Ari september 6, 2011 kl. 11:35 e.h. #

    Eitt annað… þó að þér finnist skemmtilegt að hjóla í gegnum Arnarnesið er greinilegt að sumum íbúum finnast hjólreiðamenn hreint ekki skemmtilegir haha, sjáðu nefnilega þessar setningar í miðri grein héðan http://www.visir.is/opid-bref-til-baejarstjornar-gardabaejar/article/2011110709281 : “ umferð reiðhjóla fer fyrir brjóstið á íbúum við Hegranes og Súlunes “ … „Hvernig má það vera að umræða um rándýran hjólastíg yfir Arnanesið sé yfirleitt í umræðunni, til að hlífa íbúum á Arnarnesi við hjólreiðamönnum og ónæði sem þeim fylgir“

  6. huldar september 7, 2011 kl. 9:54 f.h. #

    Dr.Gunni, til að finna stíginn, þá er best að miða við Dýraspítalann í Garðabæ, byrjunin á stígnum er til móts við þann stað. Góður stígur:)

  7. Thossi (@thossmeister) september 7, 2011 kl. 1:31 e.h. #

    Bjó einu sinni á Arnarnesi sá aldrei vonda stjúpu en aftur á móti marga Hefnera af báðum kynjum.

  8. Einar Jón september 7, 2011 kl. 1:38 e.h. #

    Stígurinn er liggur frá endanum á Hagaflöt að Miðhrauni og sést ágætlega ef maður færir loftmyndina sem Ari vísar í eina skjáfylli til hægri.

    Hann vantar á kortið á ja.is, sést hér: http://maps.google.com/maps?q=Hagafl%F6t,+Iceland&hl=en&ie=UTF8&ll=64.082706,-21.916974&spn=0.006649,0.019956&vpsrc=6&z=16

  9. drgunni september 7, 2011 kl. 2:45 e.h. #

    Takk. Ég var búinn að fatta hvar stígurinn er á loiftmyndinni. Hjóla í málið asap.

Skildu eftir svar við huldar Hætta við svar