Sarpur | október, 2012

Heljarmenni í stuði

30 Okt

Já einmitt… Stuð vors lands útgáfuteiti aldarinnar á föstudaginn. Leynilegar æfingar hafa staðið yfir með leynigestunum og má fullyrða að sögulegir atburðir séu yfirvofandi.


Það þarf helst kraftajötna til að meðhöndla Stuðrantinn. Hér er Ívar Guðmundsson alveg að bugast undan stuðhlassinu. Sem betur fer komst hann í fernu af Hámarki og náði sér.


Sem betur fer er Sögur útgáfa með forníslenskt heljarmenni í vinnu við útkeyrslustörf, annars færi illa. Það er hann Hannes sem sér um að skutla  stuðflykkinu í bókabúðir. Eins og sést er stuðranturinn sem fis í hrömmum hans.

Einar Örn fimmtugur!

29 Okt


Einar Örn Benediktsson er fimmtugur í dag! Það er auðvitað fáránlegt rugl, en svona er þetta, maður eldist bara og verður gamall kall án þess að geta nokkuð gert í því. Þá eru allir Sykurmolarnir orðnir fimmtugir, nema Björk sem er jafn gömul og ég og verður ekki fimmtug fyrr en árið 2015, og Magga Örnólfs sem er bara unglingur ennþá.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um yfirburði Einars á íslensku tónlistarsviði og nægir bara að nefna helstu böndin sem hann hefur verið í: Purrkur Pillnikk, Kukl, Sykurmolarnir og Ghostigital. Hann er einn áhrifamesti tónlistarmaður Íslandssögunnar, sem er vel af sér vikið af því hann „kann“ hvorki að syngja né spila á hljóðfæri!

Það var auðvitað heróp Einars – Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir! – sem rann eins og smurolía um Rokk í Reykjavík bylgjuna, mesta gróskutímabils í íslensku poppsögunni. Það eymir auðvitað ennþá eftir af þessu herópi, þótt í dag sé reyndar ekki litið niður á þá sem eru „góðir á hljóðfæri“ eins og þarna í pönkinu.

Í tilefni af þessum tímamótum koma hér ýlfrandi mp3 í ZIP fæli með Purrki Pillnikk læf í Víghólaskóla 17. mars 1982. Ég tók þetta upp á kassettutækið mitt. Ég rakst á Einar eftir tónleikana og hann vildi auðvitað rífa af mér kassettuna, enda „hans eign“. Ég náði að hlaupa í burtu og bjarga menningarverðmætunum. Þetta er Purrkurinn í miklu stuði að spila lög af öllum plötunum sínum. Þarna er bandið búið að taka upp Googooplex en platan er ekki komin út. Hljómgæðin eru náttúrlega bara úr ódýrasta kassettutækinu á markaðinum árið 1982, en þetta er samt alveg nógu gott, finnst mér.

Svo hækkaðu í botn, njóttu snilldarinnar og hugsaðu fallega til afmælisbarnsins!

Purrkur Pillnikk Vígholaskola 17. mars 1982

01 Fullkomnun
02 Gluggagægir
03 Augun úti
04 Svart hvítt
05 Uppgjör
06 Kassinn minn
07 Ást no 2
08 Itesrof
09 Kúgun
10 Hamburger Plaza
11 Ekki enn
12 Útilokaður
13 Flughloppið
14 Líkami
15 Læknir
16 Óvænt
17 Draumur
18 John Merrick (uppklapp)
19 Gluggagægir (uppklapp)

(Ljósmynd að ofan: Purrkur Pillnikk á Borginni, mynd Trausti Júlíusson)

Gos í Vesturbænum

28 Okt


Melabúðin er að vanda með geðstrýkt úrval. Hef ég þó ekki séð zebrahest í kælinum lengi. Þar birtust nýir gosdrykkir frá enska framleiðandanum Barr’s á dögunum. Barr’s Cream Soda er virðingaverð bresk tilraun til að búa til alvöru Cream soda. Ekki ná þeir því alveg, þetta er dáldið þunnt og gos-kennt og vantar sterkara rjómabragð. Er smá út í Pólóið. Samt alveg ókei og upp á tvær stjörnur. Barr’s Ginger Beer slær engin met í frumleika, er ósköp hefðbundið engifergos sem sker sig ekki úr, en ágætt engu að síður og upp á Tvær stjörnur.


Í Melabúðinni fékk ég líka Cherry Tree Cola frá hinum ágæta Fentimans framleiðanda. Þetta er kóla með sterku gervi-kirsuberjabragði og nokkuð þétt. Krakkarnir voru alveg að fíla þetta í botn svo við skiptum flöskunni á milli okkar – barnvænt gos sem sé og upp á þrjár stjörnur. Í Mai Thai-búðinni á Hlemmi fékk ég svo tælenska drykkinn Sponsor. Goslaust gult sull, sem smakkast eins og eitthvað dísætt límonaði með rjómakeimi. Ekki gott, en flaska lítil svo hún var kláruð. Ein stjarna.


Óskar Pétur kom með dós af JDB frá Kína. Dósin er öll á kínversku nema urlið sem er JDBCHINA.COM. Þetta er nær goslaust, smakkast sem íste úr dos nema aðeins bragðmeira og sætara. Samt ekkert til að æsa sig yfir, skítsæmilegt og upp á eina rauða stjörnu.

Tíu á teini! (10 nýjar plötur)

27 Okt

Sannlega segi ég yður: Airwaves eru hin nýju jól! Því eru nú allir og amma þeirra komnir með flúnkunýja plötu fyrir vertíðina. Því Airwaves byrjar nefnilega í næstu viku. Eins og þú veist. Látum okkur sjá:


Jónas Sigurðsson & Lúðrasveit Þorlákshafnar – Inn í berginu
Hinn geðþekki Sólstrandargæi er kominn með plötu númer þrjú – þar sem himinn ber við haf: þrælþéttann pakka með „lífið í Þorlákshöfn“-konsept-vinkli – sjipp o hoj! Virkilega sneddí stöff. Jónas fer bráðum á túr um landið í samfloti með Ómari Guðjónssyni gítarleikara. Ómar er búinn að gera nýja plötu sem er mun meira popp heldur en djassinn sem hann hefur hingað til verið tengdur við. Þar syngur Ómar og alles og þetta litla sem ég hef heyrt hljómar spennandi.


Pascal Pinon – Ekki vanmeta
(Ekki segja krútt ekki segja krútt ekki segja krútt) Systurnar í Pascal Pinon eru loksins komnar með plötu #2, Twosomeness. Það er þýski risinn MORR sem gefur út.  Eða eins og segir í fréttatilkynningunni: „Hljómsveitin er í skipuð þeim tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum. Platan er unnin í nánu samstarfi við Alex Somers, en hann hefur áður unnið að plötum með Sin Fang, Úlfi, Jónsa og Sigur Rós. Twosomeness er blæbrigðarík og einlæg plata. Hljóðheimur hennar er lífræn og persónulegur , það brakar í viðargólfum og fótstignum kirkjuorgelum og það snarkar gömlum tækjum. Sérstaða plötunnar felst í frábæru samspili Jófríðar og Ásthildar en söngur þeirra er hér í aðalhlutverki. Twosomeness inniheldur 12 lög og eru textar fluttir á íslensku, ensku og sænsku. Hljómsveitin mun koma fram á þónokkrum tónleikum í kringum tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Fyrstu tónleikar þeirra verða í Iðnó miðvikudagskvöldið 31. október en þar leika þær á sérstöku kvöldi tileinkað útgáfufélagi þeirra, þýska félaginu Morr Music. Þar munu einnig koma fram hljómsveitarinnar FM Belfast, Prinspóló, Sóley og Sin Fang.“


Jón Þór – Sérðu mig í lit?
Popprokkarinn Jón Þór, áður kenndur við Lada Sport og eitthvað powerpopband með Sindra Eldon sem ég man ekki alveg hvað heitir (Power Dragon?), er loks kominn með sólóplötuna Sérðu mig í lit. Hér er kraftgallapopprokkað af miklu öryggi og er ljómandi skemmtilegt og hresst. Titillagið steinliggur með rjómariffum og saxófónatexta. Platan á Gogoyoko!


Friðrik Dór – Guðdómleg (ásamt Janus Rasmussen)
Friðrik Dór er eggjandi sem fyrr á plötu #2 – Vélrænn. Ætti ég kannski að segja að hann sé alveg með þetta? Svipuð hreyfing og í blaki. Platan spýtir gotti á Tónlist.is.


Hlustið á þrjú lög af plötunni hér.
Kolrassan Elíza Newman er með Heimþrá, tíu laga plötu, alla á íslensku. „Með þessari plötu er Elíza á vissan hátt að að reyna að endurskapa þá tónlistarstemmingu sem hún ólst upp við heima í Keflavík, þar sem m.a. var hlustað á tónlistarmenn eins og Vilhjálm Vilhjámsson, Berþóru Árnadóttur, Gunna Þórðarson og Spilverk Þjóðanna. Hana langaði að skapa hlýja en sterka poppplötu þar sem raddanir og lagasmíðar fengju að njóta sín. Plötuna hefur Elíza tileinkað minningu móður sinnar, Eyglóar Þorsteinsdóttur, sem vakti áhuga hennar á ljóðum og tónlist frá unga aldri.
Gísli Kristjánsson sá um upptökustjórn á Heimþrá og spilaði einnig á ýmis hljóðfæri. Hann hefur getið sér gott orð sem upptökustjóri síðastliðin ár og starfar mestmegnis í London og hefur unnið með listamönnum á borð við Duffy, Cathy Dennis, Roislin Murphy, Jamie Cullum og  Mick Jones svo einhverjir séu nefndir. Þetta er önnur platan sem Gísli vinnur með Elízu, en hann stjórnaði einnig upptökum á síðustu plötu hennar Pie in the Sky.“ (Úr frkt.)


Nóra – Himinbrim á Gogoyoko
Hljómsveitin Nóra er með Himinbrim, aðra plötuna sína. „Platan inniheldur 11 lög og er afrakstur tveggja ára vinnu en gríðarlegur metnaður hefur verið lagður í lagasmíðar, útsetningar sem og upptökur og er útkoman eftir því, platan þykir með eindæmum vel heppnuð,“ segir í ftk. „Platan var meðal annars fjármögnuð í gegnum síðuna http://www.pledgemusic.com en þar bauðst aðdáendum sveitarinnar að heita á hana og kaupa nýju plötuna fyrirfram, ásamt öðrum vörum. Viðbrögðin voru framar vonum og söfnuninni lauk 3 vikum fyrr en áætlað var. Er von að fleiri íslenskar hljómsveitir muni nýta sér þessa leið við fjáröflun í framtíðinni.“


Listakonan Berglind Ágústsdóttir er búin að gefa út kassettuna Dream Lovers. Hún er svo að setja saman poppplötu sem kemur með hækkandi sól.

Hjá Paradísarborgarplötum má alltaf ganga að pönkinu vísu. Þar má nú hlaða niður nýrri plötu Ofvitanna, Nóttin varð köld og í lengra lagi. Ofvitinn Þórir Georg er svo alveg að fara að gefa út plötuna I will die and you will die and it will be alright

Lára Rúnars – Heartbeat
Lára Rúnars er svei mér þá komin með langbestu plötuna sína til þessa, það er sú fjórða og heitir Moments. Hér kemur plöggið, funheitt úr fréttatilkynningarvélinni: Lára Rúnars sendir hér frá sér sína fjórðu breiðskífu sem ber nafnið Moment og nú fá dekkri og ögrandi hliðar Láru að njóta sín meira nú en áður. Við gerð plötunnar segist Lára hafa verið undir áhrifum frá sterkum tónlistarkonum eins og PJ Harvey og svo tónlistarmönnum eins og John Grant en þau áhrif eru augljós í melódísku en angurværu indí-poppi Láru. Síðasta breiðskífa Láru Rúnars, Surprise, kom út árið 2009 en lög af henni nutu mikilla vinsælda hér á landi og ómuðu talsvert á öldum ljósvakans. Með Surprise vaknaði einnig áhugi fyrir Láru erlendis sem meðal annars lék á sérstökum tónleikum fyrir Q Magazine í London ásamt Amy MacDonald auk þess að koma fram á fjöldamörgum tónlistarhátíðum víðs vegar um Evrópu. Áður en vinna við fjórðu breiðskífuna hófst hélt Lára í tónleikaferð um Þýskaland og Sviss sumarið 2011 við góðar undirtektir en þar bar hæst að uppselt var á tónleika hennar á hinum heimsþekkta Lido klúbbi í Berlín. Lára Rúnars hefur á allra síðustu árum verið að festa sig í sessi sem ein af okkar fremstu tónlistarkonum. Tónlist hennar hefur verið í stöðugri mótun og það verður því spennandi að sjá hvaða skref hún stígur í þeirri þróun með nýrri plötu. Útgáfutónleikar í Fríkirkjunni 23. nóvember.


Skálmöld – Fenrisúlfur
Ú é… Ekkert helvítis kjaftæði á ferð hér! Bara vellandi eðalmálmur með fornu víkingarugli (les: „arfleið okkar“). Næs. Plata Skálmaldar heitir Börn Loka (segið brandara hér) og þú munt sjá miðaldra menn í svötum t-bolum lepja þetta umvörpum upp eins og gallið úr Hrafnaflóka. Hellzé!, eins og við miðaldra mennirnir segjum.

Aparnir í lífi Ellýjar Vilhjálms

26 Okt


Skiptidílar tíðkast á bestu bæjum og hér höfum við Margrét Blöndal bæði komist í spikfeitan skiptidíl. Hún skrifaði sem kunnugt er ævisögu Ellýjar Vilhjálms, sem Sena er nýbúin að gefa út. Ég heyrði í Margréti í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær segja frá því að Ellý átti apa, sem hún keypti í útlöndum og smiglaði til landsins. Apakvikindið hét Bongó og var ekkert nema bögg. Hann endaði því í Hveragerði, ekki í Eden eins og margir halda, heldur í Mikkelsen og var fyrsti apinn í Hveragerði (nema sá sem Apavatn er nefnt eftir hafi verið á undan?)

Þegar Bongó hafði rekið upp sinn síðasta apa-skræk var hann stoppaður upp og dvaldi þannig í Íslenska dýrasafninu á Skólavörðustíg. Dýrasafnið fór á hausinn og allt góssið (uppstoppuð dýr, spéspeglar o.s.frv.) var selt á uppboði árið 1978. Síðan þá hefur ekkert spurst til hins merka apa Ellýjar Vilhjálms og ef einhver veit hvar Bongó er niðurkominn er hann vinsamlegast beðinn um að setja sig í samband við Margréti  Blöndal!

Bongó var reyndar ekki fyrsti apinn í lífi Ellýjar. Í október 1953 var hún nýbyrjuð að syngja með KK sextettnum. Þá lenti hún í því að hita upp fyrir apann Jonny á kabarett-sýningu. Þetta hefur verið rosa sýning, Baldur (og Konni væntanlega líka) að kynna og það er ekki spurning að maður myndi mæta ef boðið yrði upp á svona eðalsjó í dag, til dæmis á Listahátíð. Það vantar alveg apa á Listahátíð! Eða bara almennt í listalífinu. Hvenær mun fyrsti apinn stíga á svið Hörpu?

Mikið var látið með Jonny 1953 eins og sjá má:



Plöggað vilt og galið

26 Okt

Plöggtíð er runnin upp með tilfallandi selláti. Nú plögga ég reyndar með stuð í hjarta, enda með svo fáránlega gott stöff í höndunum, hinn einlæga og stórkostlega stuðrant, STUÐ VORS LANDS. Hvar sem ég kem reka menn upp stór augu, svelgist á, sletta í góm og segja svo eitthvað á þessa leið eftir að hafa mænt á hlunkinn um stund: „Í viltustu draumum mínum hefði ég aldrei ímynd með mér að hægt væri að búa til svona stórfenglega bók – varstu ekki lengi að skrifa þetta?“

Þá kími ég og segi: Nei nei, bara svona mánuð, og reyni að gera lítið úr þessu, því eins og fólk sem þekkir mig veit þykir mér fátt óþægilegra en að vera hrósað. Ég fer bara svo obboslega hjá mér.  En undan því verður bara ekki komist í þetta skipti.

Nú, ég flæktist með bókina milli fjölmiðla. Eins og vanalega hittir maður allt fræga fólkið á Rúv.


Hr. Páll Magnússon veitti bókinni viðtöku fyrir hönd Íslenska Ríkisútvarpsins. Hann hefur mjög einfaldan smekk og velur bara það besta, eins og þú veist, og gat því ekki hætt að brosa með stuðhlussuna í fanginu.


Hr. Óli Palli, spámaðurinn í Popp- og Rokklandi, fékk næstum taugaáfall af stuði þegar bókin komst í hendur hans.


Luftgítarþenjarinn Matti Matt reif plastið strax af og byrjaði að lesa. Hann svaf ekkert í nótt.


KK reyndi að sýna stillingu með Stuðrantinn í höndunum, en allt kom fyrir ekki…


Nú er bókin að koma í búðirnar (það er að þakka heljarmenninu Hannesi sem sér um dreifingu fyrir útgefanda minn, Sögur) og er a.m.k. kominn í Bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum (útgáfuteitið verður einmitt þar eftir eina viku!) Svo frábærlega vildi til að fyrsta eintakið keypti Jakob Frímann fyrir hönd FTT til að færa Ingibjörgu Þorbergsdóttur á 85 ára afmæli hennar í gær. Ingibjörg var einmitt fyrst kvenna til að syngja og gefa út eigið popplag og var næstum búin að meikaða í USA. (Nánar í Stuðrantinum, nema hvað!?)

Ég minni á hið skelegga kvennamix mitt Songs written and sung by Icelandic women á 8tracks, en þar á Ingibjörg einmitt fyrsta lagið.

Konni og Palli ræða málin

23 Okt


Halelúja! Stuð vors lands kemur inn á lagergólf á morgun og ætti að vera að slefast í helstu bókabúðir fyrir helgina. Gríðarleg plöggvertíð er framundan og hefst í Morgunútvarpinu Rásar 2 kl. 08:30 í fyrramálið.

Eflaust mun mörgum finnast hitt og þetta um þessa gríðarlega stórkostlegu bók. Margir munu spyrja: Er mynd af mér í henni? Þessir heiðursmenn, Konni og Palli, gerðu nákvæmlega það.

Trausti selur vinýlinn sinn

23 Okt


Trausti Júlíusson, plötugagnrýnandi Fréttablaðsins, selur nú vinýlinn sinn. Hann var gríðarlega ötull plötusafnari frá sirka 1978 – 1990 og ber úrvalið þess merki: Eðal pönk og njúveif og allskonar fínirí. Svo ekki tvínóna við þetta, hér er listinn yfir söluna, og mundu að hafa hraðann á því hverja plötur er því miður bara hægt að selja einu sinni. Skrifaðu svo Trausta og leggðu inn pöntun.

Uppgangur fyrir vestan

23 Okt

Skrapp í herragarðinn á Ísafirði. Þar er a.m.k. fimm stigum kaldara en í Reykjavík svo ég fékk bullandi köldu standandi í pólýester-köntríjakkafötum að reykja við skíðaskálann í brúðkaupi. Mikið hrafnaþing var í bænum og á leiðinni vestur sáum við svo stjörnubjartan himinn í almyrkri mannleysisins að ég hef aldrei séð annað eins. Við þessar aðstæður sér maður ekki bara stjörnur heldur kannski stjörnuþokur líka, eða eitthvað svona grátt sull á milli stjarnanna. Hvar er boðið upp á stjörnukíki og fræðslu um undur næturhiminsins? Ég væri mikið til í svoleiðis, enda hef ég aldrei kíkt í almennilegan stjörnukíki og veit ekkert hvað þetta stjörnudót heitir, nema í mesta lagi Karlsvagninn.

Ég reyndi að ná úr mér kölduruslinu í besta sauna Íslands, í sundlauginni í Bolungarvík. Dvaldi þar í tvo klukkutíma og kom út fjólublár og glær á víxl. Líklega hitalaus líka.

Í Ísafjarðarbíó eru komnar nýjar sýningagræjur og mikill uppgangur. Fór loksins á „frönsku myndina“ sem allir voru búnir að sjá nema við. Les Intouchebles er alveg eins og maður bjóst við og ágæt sem slík (þrjár stjörnur). Merkilegast fannst mér þó  að sjá „alvöru“ mennina á bakvið söguna í lokin. Maður hefði aldrei nennt að horfa á svona ljóta menn i heila mynd, sem segir bara það að í bíó þarf að poppa upp sannleikann með fallegum leikurum og skemmtilegri fléttu, svo einhver nenni að horfa. Líklega það sama og gerðist í Djúpinu.


Keypti kíló af steinbítsharðfisk (eða „rikklingi“ eins og stundum er sagt) hjá Finnboga, en eins og allir vita er það besti harðfiskur landsins. Nú á ég skammt fram á veturinn. Þess má geta að harðfiskurinn frá Finnboga fæst líka í Kolaportinu, í fiskbúðinni á Sundlaugavegi og víðar. Í öðrum át-tengdum fréttum má geta þess að ég fór á veitingastaðinn Húsið (hann opnaði nýlega) og fékk rosa góða villisveppasúpu og rækjusamloku. Best var þó að verðlagið í Húsinu er hagstætt, svona 20% lægra en í Rvk, enda var fullt að gera þótt það væri bara mánudagur. Svona held ég að gæði og sanngjarnt verð komi fólki langt, sbr. Saffran.


Á leiðinni heim hélt maður áfram að sjá teikn um uppganginn á Vestfjörðum. Fólk er að gera upp gamla félagsheimilið við Vatnsfjörð. Ég tók þessa mynd af pínkulitlu og ofurkrúttuðu sviðinu inn um gluggann. Hér gæti nú aldeilis allskonar skemmtilegt troðið upp enda skilst mér að það muni gerast næsta sumar. Svo er búið að setja nýja glugga í gamla kastalann á Arngerðareyri, en árum saman, eða frá því að ferðum Fagranessins var hætt þaðan, hefur kastalinn drabbast niður. Ég heyrði að einhverjir útlendingar hefðu keypt kastalann og ætluðu að byggja hann upp á næstu árum. Mjög gott mál.


Í Gervidal í Ísafirði (innsti fjörðurinn í Ísafjarðardjúpi heitir sko Ísafjörður, en bærinn Ísafjörður er við Skutulsfjörð – þetta meikar engan sens!) er svo þessi leynipottur við veginn. Þar fengum við okkur frábært fótabað í stillunni. Alveg magnað allt saman. Vestfirðir best!

Unnsteinn með gamla gítarinn hennar mömmu

19 Okt


Unnsteinn – Qween (læf á Rás 2)
Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun var Unnsteinn í Retro Stefson að spila á ævagamlan Hagström gítar sem mamma mín keypti árið 1976. Hún hafði fengið þá hugmynd að reyna fyrir sér með það tómstundagaman að spila á gítar. Hún gafst fljótlega upp og þá tók ég gítarinn yfir. Þetta var því fyrsti gítarinn minn. Ég keypti nokkra rafmagnsgítara næstu árin, Yamaha og Gibson SG svo eitthvað sé nefnt, en svo franskan Calif kassagítar árið 1986. Ég hef aldrei fundið neinar upplýsingar um þessa Calif gítara, en hann sándar vel.

Ég hef stundum ætlað að fá mér nýjan kassagítar. Helst þá eitthvað svona flott eins og Martin sem kostar 150 þúsund kall eða svo. Hef náttúrlega aldrei tímt því. Hagströmmin hljómaði nú svona helvíti vel hjá Unnsteini í morgun þótt það hafi hvorki verið skipt um strengi í honum eða spilað á hann að neinu viti síðan svona 1986! Ég tel því engar líkur á að ég fái mér nýjan kassagítar í bráð! Hagströmminn og Califinn duga fullkomlega.

Það er annars af Retro Stefson að frétta að platan þeirra nýja er klárlega besta íslenska platan í ár og það er von á henni á LP innan fárra daga.

Þakkir til Dodda litla fyrir mynd og hljóð!