Nýupptekið eðalefni

18 sep

Psst, varstu búin/nn að tékka á þessu?

Death of a Scooba Fish er Aðalheiður Arna Björgvinsdóttir. Hún gerir allt sjálf en hefur ekki gefið neitt út ennþá. Er þetta næsta megastjarnan okkar?

Godchilla er besta stóner-doom bandið á Flúðum. Fyrsta platan Cosmatos kemur út á morgun. Viðtal.

Skerðing frá Akranesi er hress popppönksveit sem hefur gefið út plötuna Músagildran. 30 krónur er gullinn smellur með texta sem steinliggur. Álíka beint í unglingamarkið og Teenage Kicks með The Undertones.

8 spennandi myndir á RIFF

16 sep

vivelafrance21
Ellefta árið skellur RIFF á okkur eins og árviss innlögn á menningar og hugsana reikninginn. Þarna eru myndir utan við fábjánamyndir hversdagsins. Sama hvað ég sé margar myndir um óbilgjörn stórmenni að salla niður vonda karla þá man ég miklu betur eftir einhverri snilld sem ég sá á RIFF. Eins og þarna norsku myndinni um heróínistann sem drap sig. finnsku myndinni um ryksugusölumanninn, eða myndinni um krakkana frá Nígaragúa sem flýðu til Ameríku og dóu á leiðinni nema einn sem fór að vinna í ógeðslegu sláturhúsi í fyrirheitna landinu – ég er nú hreinlega alltaf að hugsa um þá mynd, hún var svo svakaleg (La jaula de oro e. Diego Quemada-Díez). Samt fékk hún ekki verðlaun eða neitt. Manni fannst hún kannski engin snilld rétt eftir að maður var búinn að sjá hana, en svo gróf hún um sig í heilanum á manni eins og góðkynja æxli. Það er einmitt eðli góðra Riff-mynda.

En RIFF er sem sé framundan enn eina gvöðdómlega ferðina, stendur yfir frá 25. sept til 5. okt. Þarna er mýgrútur eðalefnis, en þar sem ég er svona listagaur (listir og listar) kemur hér topp 8 listi yfir myndir sem ég vil helst ekki missa af í ár. Afhverju átta? Jú því ég ætla að fá mér 8 miða klippikort á 8.800 kr.

1. BONOBO
Bresk mynd sem byggir á lífsstíl hinna geðveikt næs Bonobo apa getur varla klikkað. Úr bæklingi: Judith er fráskilin, uppskrúfuð kona á miðjum aldri sem sýnir því engan skilning þegar dóttir hennar, Lily, hættir í laganámi og flytur inn í kommúnu utangátta hippa sem lifa eftir sömu meginreglum og bonobo apar — tegundar sem er fræg fyrir að eðla sig í stað þess að standa í illdeilum.

2. Ég get hætt þegar ég vil (SMETTO QUANDO VOGLIO)
Ítölsk um lúða í glæpum. Úr bæklingi: Atvinnulaus vísindamaður fær þá hugmynd að setja saman glæpagengi sem er engu öðru líkt. Hann fær með sér nokkra fyrrum starfsfélaga sína sem eru allir komnir á jaðar samfélagsins. Einn vinnur á bensínstöð, annar við uppvask og sá þriðji spilar póker. Þjóðhagfræði, fræðileg efnafræði, mannfræði og klassísk fræði reynast ágætur grunnur til að klifra valdastiga glæpaheimsins.

3. Agnarsmátt (Itsi bitsi)
Dönsk grínmynd. Úr bæklingi: Eik Skaløe hittir hina frjálslegu og friðelskandi Iben og fellur kylliflatur fyrir henni. Í örvæntingu sinni gerir Eik allt sem í hans valdi stendur til að næla sér í hana. Hann byrjar á því að breyta sér úr ljóðskáldi í rithöfund, flakkara, fíkil og að lokum í aðalsöngvara hinnar brátt goðsagnakenndu hljómsveitar Steppeulvene.

4. DÚFA SAT Á GREIN OG HUGLEIDDI TILVERUNA (EN DUVA SATT PÅ EN GREN OCH FUNDERADE PÅ TILLVARON)
Sænsk verðlaunamynd. Úr bæklingi: Sam og Jonathan, tveir ólánsamir sölumenn, minna á nútíma Don Kíkóta og Sancho Panza meðan þeir ferðast um og sýna okkur eins og í kviksjá örlög ólíkra persóna. Þetta er ferðalag um fögur augnablik og ómerkileg, gleðina og sorgina sem býr innra með okkur, mikillleika lífsins og viðkvæmni mannanna. Myndin vann gullna ljónið í Feneyjum fyrr í mánuðinum.

5. HÆTTULEGUR LEIKUR (A DANGEROUS GAME)
Úúú mynd um gráðuga karlpunga. Ég vona að það séu ekki mörg skot af kvikmyndagerðarmanninum á bílastæði að reyna að ná viðtali við eimhvern ríkann skítapung. Úr bæklingi: Hinn óttalausi leikstjóri Anthony Baxter eltir bandaríska milljarðamæringinn Donald Trump og aðra gráðuga og furðulega karaktera sem vilja breyta nokkrum fallegustu stöðum jarðarinnar í golfvelli og afþreyingarstaði fyrir þá ofurríku. Mómælendur reyna að standa í hárinu á peningaöflunum, en nægir það?

6. LIFI FRAKKLAND (VIVE LA FRANCE)
Íslenskur leikstjóri Helgi Felixson. Fjallar um eyju í Suður Kyrrahafi svo þetta er right öpp mæ allei. Úr bæklingi: Í LIFI FRAKKLAND kynnumst við parinu Kua og Teariki sem búa á eyjunni Tureia. Draumur þeirra um að stofna bakarí á eyjunni verður að engu þegar þeim er neitað um bankalán vegna hættu á því að Mururoa rifið sökkvi í sæ og orsaki flóðbylgju. Í þessari mynd er fjallað um afleiðingar kjarnorkutilrauna Frakka og sinnuleysi hins vestræna heims gagnvart fórnarlömbum tilraunanna er opinberað.

7. LOKAMARK (NEXT GOAL WINS)
Meira S-Kyrrahafs. Úr bæklingi: Árið 2001 tapaði Kyrrahafsþjóðin smáa Bandaríksu-Samóaeyjar fótboltaleik með 31 marki gegn engu á móti Ástralíu. Áratug eftir þetta niðurlægjandikvöld situr þjóðin enn sem fastast á botni styrkleikalista FIFA. Næsta áskorun er undankeppni HM í Brasilíu 2014 … og nú hefur liðið ráðið sér þjálfara í heimsklassa.

8. PULP: KVIKMYND UM LÍFIÐ, DAUÐANN OG STÓRMARKAÐI (PULP: A FILM ABOUT LIFE, DEATH AND SUPERMARKETS)
Pulp voru nú aldrei neitt slor. Hér er bresk mynd um þá. Úr bæklngi: Pulp snýr aftur til heimabæjarins Sheffield til að halda
síðustu tónleika sína á Bretlandseyjum. Í myndinni ausa hljómsveitarmeðlimir úr viskubrunni sínum um allt hvað varðar frægð, ást, dauðann og bílaviðgerðir. PULP er tónleikamynd engri annarri lík, stundum fyndin, hrífandi, gefandi og (stundum) ruglingsleg.

Ætli maður neyðist samt ekki til að fá sér annað klippikort því þetta er bara brot af gnægtarborðinu. Ég á t.d. alveg eftir að minnast á heiðursgestinn Mike Leigh…

Grjóthrúga á milljarð

15 sep

lsr_photo_watermark_1384319404_04099bbce73121c4cc26c053d133ead6
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, vill vita hvað Friðarsúlan kostar borgina. Þá hefur hún verið að gera 6 milljóna styrk Yoko(ar) Ono(ar) til Jón Gnarrs (sem rennur ekki í hans vasa heldur til málefnis sem hann velur) tortryggilegan. Ægilega smekklegt allt saman hjá Sveinbjörgu. Hún ætti eiginlega að fá Smekkleysuverðlaunin, en eins og vitað er slefaði flokkur hennar í 10% eftir að hafa virkjað til liðs við sig mestu fábjána borgarinnar með rausi um stórhættulega útlendinga tveimur vikum fyrir síðustu kosningar.

Nú vil ég, í anda Sveinbjargar, fá að vita hvað útilistaverk Sigurðar Guðmundssonar, Ástarbrautarbletturinn, kostaði borgina og hverjir samþykktu þá upphæð. Sigurður, sem getur mjög oft verið frábær listamaður, vann einhverja samkeppni með þessu verki sem er beisiklí pússuð grjóthrúga sem liggur innan um venjulega grjótið við Sæbraut þar sem Snorrabraut endar. Mér hefur alltaf þótt þetta slappt verk og óáhugavert, þótt eflaust sé djúp meining á bakvið það. Það tekur enginn eftir þessu (sem gæti verið hluti af meiningunni), nema kannski maður sé á báti, og svo heyrði ég einhvern tímann að verkið hafi kostað samtals um milljarð krónur. Það kostaði auðvitað sitt að láta her Kínverja pússa grjótið og svo annað eins að flytja öll þessi tonn til Íslands. Geðveik eyðsla á almannafé, finnst mér.

Getur nú ekki einhver flett þessu upp fyrir mig? Ég reyndi sjálfur að gúggla en ekkert gekk. Kostaði grjóthrúgan sem enginn tekur eftir virkilega 1.000.000.000 krónur?

Margfætlur og stelpur í sturtu

14 sep

Flóamarkaður Saga Film - ýmsir munir úr sjónvarpssögunni
Við Dagbjartur fórum á flóamarkað Saga film. Fundum ekkert sem okkur langaði í en þetta var gríðarlega vel sótt og mikið keypt sýndist mér. Maður fékk bara nostalgíu fyrir eðalbúðinni Sala varnarliðseigna að vera þarna. Marta Smarta er með puttann á púlsinum venju samkvæmt.

Í Kolaportinu fann Dagbjartur íslenskan landsliðsbúning á 500 kall. Ég fann ekki neitt. Í Kosti, Kópavogi, keypti ég kaffi (þetta græna) og Häagen-Dazs ís í dollu sem ég skóflaði vitaskuld í mig um kvöldið. Hefði betur sleppt því, finn ég núna. Afhverju þarf allt sem er svona gott að vera svona vont? Jæja, þýðir ekki að væla yfir því.

Í Vesturbæ Kóp er Tjörvi með mikla gæludýrabúð í bílskúr. Fórum og keyptum gúmmíplöntur fyrir þá Tígra og Lilla sem nú svamla um í sitthvoru búrinu hjá krökkunum. Þetta er mikil ævintýrabúð. Eins og ganga um frumskóg að fara inn í fugla-herbergið. Svo eru til svartar feitar margfætlur, svona 15 cm langar, á 7000 kall stk. Ég sá fyrir mér mörg önnur notagildi en að hafa svona kvikindi í búri. Og þau snérust öll um gott en hrikalega nastí grín. Eins og þarna þegar einhverjir hentu álum á stelpur í sturtu. Talandi um stelpur í sturtu, þá birti Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir eftirfarandi á Facebook:

Áðan fór ég í Mecca Spa og hljóp þar á ímynduðum sveitavegi og lyfti lóðum undir engilblíðum söng hins knáa Kanye West. Í næsta sal sátu tíu ungar konur í heitum potti, drukku bjór og skræktu mikið. Við mættumst í sturtunum, þar sem þær hófu rakvélar á loft og sungu í kór: “Ég er loðnasta, loðnasta, loðnasta píka í heimi!” (við lagið Glaðasti hundur í heimi).
“Þetta er ungt og leikur sér”, hugsaði ég nú bara.

Vart er hugsa sér meiri heiður fyrir lagahöfund en að stelpur syngi hann á meðan þær raka á sér píkuna.

Í Furðufuglum og fylgifiskum hjá Tjörva eru líka seldar engisprettur. Ég spurði ekki um verð en það mætti kaupa upp lagerinn og gera gott biblíugrín með því að sleppa þeim inn í næstu kirkju – svona Fargo-stæl.

Um kvöldið, eftir dásamleg rif með Steina sleggju og kó, horfðum við krakkarnir á síðustu tvo þættina í Dagvaktinni og þann fyrsta í Fangavaktinni (við erum komin þangað). Ég er enn á því að þetta sé besta stöff sem hefur verið gert í íslensku leiknu sjónvarpsefni.

Þegar Ísland tætist í sundur

13 sep

Ég er líklega fréttafíkill. Kannski eins og flestir landsmenn. Ég þarf alltaf að ná fréttunum á Rás 1 eða 2 (sem er það sama). Ég stilli matmálstímann saman við 12:20 og svo slafra ég í mig á meðan ég hlusta á fréttir af einhverju hrauni sem er að renna, en gæti orðið agalegar hamfarir, eitthvað röfl úr Alþingi, einhvern djöfulgang í mið-austurlöndum (agalegir þessir IS fávitar – mikið væri nú betra ef það væri ekki svona mikið af fávitum í heiminum), o.s.frv.

Líklega er ég alltaf að bíða eftir því að eitthvað rosalegt gerist. Eitthvað svona ég man hvar ég var þegar ég heyrði þetta dæmi. Eins og 9/11 (Vesturbær), Breivik fábjani (Ísafjörður), dauði Georgs Harrison (NYC), dauði Michaels Jackson (Akureyri).

Maður bíður t.d núna með gaseldavél í hálsinum eftir að eitthvað svakalegt gerist þarna í eldgosinu. Að landið hreinlega rifni í sundur í geðveikum hamförum, Vatnajökull bráðni í heilu lagi og við verðum öll flutt á herflugvélum til góssenlandsins Noregs. Þetta verður svona Heimaey 2 – the revenge. Nöldrandi Íslendingar í einhverjum viðlagasjóðshúsum í Haugasundi. Jón Jónsson og Álftagerðisbræður skella í væmið lag um að “snúa til gamla landsins”. Eftir gosið snúum við þangað í rústirnar, nema mikill fjöldi sem verður eftir í alsælunni, mokum vikri og byggjum upp og kjósum svo einhverja nastí leiðindapúka yfir okkur aftur af því okkur er ekki viðbjargandi. Ég er að sjá þetta fyrir mér.

Á morgnanna skrolla ég yfir Fréttablaðið og Moggann. Það tekur ekki langan tíma því það er yfirleitt ekkert þarna sem ég nenni að lesa. Nema auðvitað að það sé eitthvað um mig. Ég er alveg jafn sjálfhverfur og Jóhannes grínari sem byrjaði allar samræður þar sem hann kom á “er eitthvað að frétta af mér”. Ég hef ekki fengið að segja hvað ég fæ mér í morgunmat mánuðum saman – er ég holdsveikur hérna eða hvað!?

Kjarninn er langbesta stöffið. Alvöru naglar þar innanborðs, Þórður og Magnús og fleiri hugsjónalúðar. Samt nenni ég sjaldan að lesa stöff um einhver leiðindi. Einn harðsvíraðasti og skemmtilegasti pistill sem ég hef lesið lengi er Sjálfdautt mannorð eftir Hrafn Jónsson. Svokallað megadúndur þar á ferð. Lestu það.

Sögufrægur söluturn lokar

11 sep

10628317_10152688554033390_7731760796492770121_n
Mér brá heldur betur í brún þegar ég ætlaði að kaupa mér kók í gleri í hinum sögufræga söluturni  úti á Kópavogsbraut. Þar er búið að loka og læsa og taka niður allt þótt Atlantsolía sé enn með sjálfssölu þarna. Eins og sést á myndinni hér að ofan, sem var tekin um 1960, er söluturninn glæsileg bygging sem vonandi verður eitthvað gert með. Þetta gæti verið tónleikastaður (Jazzklúbbur Kópavogs með vikuleg gigg), pöbb (Pöbbkó) eða hamborgarabúlla – Tommi Tomm hefur nú þegar gert góða hluti við álíka töff húsnæði. Plís, bara allt annað en að láta þetta drabbast niður og skemmast.

Simmatímarnir tvennir

11 sep

tumblr_n57szu3KJP1tb9n5ro1_1280
Sigmundur var flóttalegur sjónvarpsmaður en ágætur þegar Egill Helgason var alltaf að fá hann í viðtöl til að tala um borgarskipulagið. Svo varð hann forsætis fyrir enn eitt Framsóknartrixið (Hann hafði alltaf staðið í lappirnar með Icesave, hugsaði fólkið sem kaus Framsókn, og svo ætlaðu þeir að gera svo ægilega mikið fyrir heimilin, eins og að hækka matarskatt og svoleiðis). Nú sitjum við uppi með Simma og enginn er ánægður, varla Simmi sjálfur sem er alltaf í fríi – í meðferð í Norður Kóreu væntanlega. Nú lifum við sem sé Simmatímana tvenna og aulahrollurinn verður allsráðandi næstu árin. Gott á pakkið.

Hér er sennilega art-project um Sigmund. Gullfallegar myndir. 

Follow

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 43 other followers